Af viðgerðum.

PeningarDruslaðist loksins með myndavélina í viðgerð. Hún hafði dottið úr veskinu mínu og út á gangstét, þegar ég var að taka allt of mikið dót í einu út úr bílnum 29.ágúst síðastliðinn (sjá bloggfærslu frá 30. eða 31.ág.).

"Ef þetta er linsubrot, þá þurfum við að skipta um linsu og hún kostar 20 þúsund krónur", sagði viðgerðarmaðurinn. "En ef þetta er (eitthvað sem ég náði ekki, - ég var fixeruð í orðunum; linsubrot - 20 þúsund), þá er þetta viðgerð upp á 14 þúsund krónur, svo það er spurning hvað þú vilt gera". 

"Ja - ný myndavél kostar nú ennþá meira" sagði ég - og reyndi að bögla út úr mér einhverri spurningu um hvort þetta yrði ekki varanleg viðgerð, og myndavélin svo gott sem ný. Hann taldi svo vera og hvarf á brott með vélina.

Ég stóð stjörf eftir og sá fyrir mér peningana flæða út úr veskinu mínu. Fór að velta fyrir mér hvort ég ætti að sleppa jólagjöfunum þetta árið, eða ....? Þá birtist maðurinn aftur með orðunum "Hún er bara alveg dauð".

Jæja - ekki batnar það. Ég reyndi að halda aftur af tárunum við þessa skyndilegu andlátsfregn. En þá bætir hann við þessi elska "Þetta er þá ekki linsan. Þá gætum við nú sloppið með viðgerð upp á rúm 4 þúsund". Þá veit ég það: Linsubrot er semsagt mun alvarlegri sjúkdómur en dauði myndavélar. Var svo alsæl og bjartsýn þegar ég kom út, að ég hikaði ekki við að splæsa á mig hádegisverði á næstu grösum.

Ykkur þykir þetta kannski hvorki stórfrétt né háar upphæðir. Finnst kannski bara að ég eigi að vera hamingjusöm með að þurfa svona sjaldan að fara með eigur mínar í viðgerð. Já, ég er það. Og það sem meira er; ég leyfi mér að halda að ég fari bara vel með hlutina - sé kannski ekki alveg eins mikil brussa og ég hélt.

En af því að ég var til í gamla daga, eins og frægt er orðið, - þá fer ég þó með hlutina í viðgerð, í stað þess að henda þeim og kaupa nýja. Ég varð ekkert smá rasandi, þegar ég fór með fyrsta farsímann minn í viðgerð. "Er hann ekki bara kominn á tíma" spurði viðgerðardrengurinn. "Nei hann er splunkunýr" sagði ég. "Ég fékk hann fyrir rúmum tveimur árum". "Já svona símar eiga nú ekki að endast nema kannski eitt og hálft ár" sagði drengurinn. "Hva - er þetta eitthvað léleg tegund"? spurði ég. "Nei alls ekki, farsímar eru bara ekki framleiddir með lengri endingartíma" sagði drengurinn eins þolinmóður og hann gat, örugglega fullviss um að ég væri fædd og uppalin í torfkofa og héldi enn til haga sauðskinnskónum sem ég fékk í fermingargjöf.

En svona er þetta í minni fjölskyldu, við ætlumst til þess að hlutirnir endist. Björg frænka var rúmlega sjötug þegar ísskápurinn hennar bilaði. "Er hann ekki bara kominn á tíma?" spurði þessi viðgerðarmaður eins og sá fyrrnefndi. Greinilega standard spurning hjá viðgerðarmönnum. "Hvaða vitleysa er þetta eiginlega" svaraði Björg. "Þessi ísskápur hefur verið í góðu lagi síðan ég byrjaði að búa og ég sé ekki af hverju hann ætti ekki að vera það áfram". Þarna voru að sjálfsögðu yfir 50 ár síðan Björg frænka byrjaði að búa.

Lifið heil. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Laufey B Waage

Var að fá sms frá Beco - myndavélin tilbúin. Jess jess, tæti af stað að sækja hana .

Laufey B Waage, 26.9.2007 kl. 10:33

2 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Við búum í næstum einnota veröld

Einar Bragi Bragason., 28.9.2007 kl. 00:16

3 Smámynd: Halldór Sigurðsson

Og allt er orðið stafrænt ,og erfitt og dýrt er yfirleitt að gera við.

Halldór Sigurðsson, 29.9.2007 kl. 23:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband