Ása vinkona.

Ása 90-aÁsa vinkona er 90 ára í dag. Það var haldið upp á það í gær. Við bjuggum í sama húsi í rúm 7 ár. Og á morgunn eru nákvæmlega 17 ár síðan okkar frábæra vinátta hófst. Þá trítlaði hún upp á 3ju hæð til mín og bauð mér í afmælisafganga. "Konur í þinni stöðu eru alltaf svangar" sagði hún. Þessi "staða" sem ég var í, var sumsé sú, að Ásbjörg mín hafði fæðst 10 dögum áður, - og ég var því sængurkonan sísvanga. 

"Já ég man sko eftir þessu" sagði hún svo í gær þegar ég rifjaði þetta upp. Afmælisveislan var stórskemmtileg, með allt of góðum veitingum. Afkomendur hennar skemmtu henni og okkur hinum m.a. með lögum við texta eftir manninn hennar, Árna úr Eyjum, sem dó langt fyrir aldur aldur fram úr berklum. 

Ása 90-bTil skamms tíma var Ása selskapskammerat minn nr.1. Í seinni tíð á hún orðið aðeins erfiðara með að fylgja hraðskreiðu brussunni eftir í öllum látunum. Hún er samt ótrúlega hress - og ungleg eins og sjá má. 

En áður en hún fór að styðjast við göngugrindina, fannst okkur við alltaf jafngamlar. Í það minnsta hefur smekkur okkar og langanir til lífsins gæða ótrúlega oft farið saman. Og umræðuefnin okkar í milli eru óþrjótandi, því við eigum endalaust safn af sameiginlegum áhugamálum og pælingum.

Skriljón sinnum hefur það gerst, að mig hefur langað í bíó eða á tónleika, með engum fyrirvara. Reynslan kenndi mér fljótt að þá þýðir ekkert að hringja í vinkonur á mínum aldri. Þær þurfa meiri fyrirvara. En Ása hefur alltaf verið miklu tilkippilegri.

Þær eru víst ábyggilega fleiri en óteljandi, myndlistarsýningarnar og leiksýningarnar sem við höfum notið þess að fara saman á, - auk annarra menningarviðburða, svo sem tónleika, upplestra o.fl.

Ása 90-cÉg gæti haldið endalaust áfram að tala um Ásu vinkonu og okkar frábæru vináttu. En flest er auðvitað leyndarmál, eins og hjá góðum vinkonum. 

Bara eitt að lokum: Það var hún sem laumaði upphaflega út úr sér setningunni, "Þú keyrir eins og bankaræningi á flótta".  Ég klaufaðist til að segja einhverjum frá þessu, af því mér þótti það svo fyndið, - en síðan hafa aðrir vinir og vandamenn verið ósparir á að láta mig heyra þessa athugasemd.

Lifið heil. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Vá hvað hún er flott kona, Það er gott að eiga góða vinkonu Laufey mín.  Og þar skiptir aldurinn engu máli.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.10.2007 kl. 11:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband