8.10.2007 | 20:56
Svartir sokkar.
Ég hef líklega verið 12 eða 13 ára, þegar ég fór eitt sinn inn í Þorsteinsbúð með pabba mínum, og hann sagði stundarhátt "ég ætla að fá eitt dúsín af svörtum sokkum (þ.e. 12 pör). Vá hvað ég skammaðist mín hrikalega.
Eftir að ég varð fullorðin dettur mér þetta oft í hug. Og alltaf spyr ég sjálfa mig að því sama: Af hverju í ósköpunum geri ég ekki það sama og hann?! Af hverju kaupi ég ekki 12 pör í einu og hendi öllum stöku sokkunum í skúffunni?
Málið er sem sagt það, að í hvert sinn sem mér dettur í hug að fara í venjulega svarta sokka, - finn ég eitthvað á bilinu 20-30 STYKKI (ekki pör) af svörtum sokkum í sokkaskúffunni, en ENGIR TVEIR sokkar eru ALVEG EINS. Ég skil ekki hvernig þetta getur gerst. Þeir fara alltaf í pörum í óhreinatauið, í þvottavélina, á snúruna og ofan í skúffuna. Hvað gerist svo ofan í skúffunni? Eru þetta hinir margfrægu búálfar eða hvað? Já en þeir skila oftast aftur.
Já veistu, þetta er vandamál. Ég er nefnilega svo hrikalega simmetrísk í eðli mínu, að ég mér bara líður illa ef ég er í misháum, misþröngum, misslitnum, eða bara miseitthvað sokkum. Þetta vandamál hefur nú staðið í hátt á fjórða áratug, og ég er farin að halda, að ósköpunum linni ekki, fyrr en ég bið okkur feðginin innilega fyrirgefningar á að hafa hneykslast á föður mínum og skammast mín fyrir hann, - hendi út öllum stöku sokkunum og kaupi eitt dúsín af eins sokkum.
Lifið heil.
Athugasemdir
Kannast mjög vel við svona sokkaskúffur. Og maður fer bara ekki í miseitthvað sokka að annað, alveg sammála því. Kannske er þetta ættgengt.
kveðja Þórunn frænka þín.
p.s. svo er heldur alls ekki sama hvernig þvottur er hengdur á snúru, þannig bara er það!!!
Þórunn Jóhannsdótir (IP-tala skráð) 9.10.2007 kl. 14:12
Einmitt Þórunn. Þetta með upphenginguna er klárlega ættgengt. Og mjög mikilvægt hjá okkur Akbrautarstelpunum.
Laufey B Waage, 9.10.2007 kl. 14:15
Sem fjórðu kynslóðar húsmóðir af Akbraut verð ég að segja að mér finnst best að velja og hafna þegar kemur að þessum ættgengu prinsippum. Ég lærði til dæmis af manninum mínum að það er VÍST hægt að brjóta handklæði saman öðruvísi en 3x3. Það deyr enginn af því.
Annars minna sokkarnir mig aðallega á harmþrungin deilumál okkar systkinanna hér áður og fyrr.
Berglind (IP-tala skráð) 10.10.2007 kl. 18:52
Fór einmitt í Rúmfatalagerinn um daginn og keypti mér 10 stk. i pakka alla eins, voða sæta með litlum blómum á.
En af hverju ætli Guð hafi látið okkur hafa svona tvö af því sama, tvo fætur og tvær hendur ? Þetta skapar óttalegt vesen alltaf hreint, sérstaklega með börnin, sem alltaf eru að týna öðrum vettling, eða öðrum sokki, fyrir utan þetta þvottavélatýnsluvesen
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.10.2007 kl. 10:49
Ég á par af sokkum sem eru með sitt hvorri myndinni. Þið mæðgur færuð yfirum ef þið sæjuð þá!
Þ
Þórdís Einarsdóttir, 11.10.2007 kl. 12:31
Takk fyrir kommentin elskurnar.
Þórdís: Ég skora á þig að mæta í nefndum sokkum í næsta fjölskylduboð í Skaftahlíðinni. Spennandi að vita hvort okkur mæðgum finnst þeir harmonera saman, eða hvort andlegt jafnvægi okkar fer út í veður og vind.
Ásthildur: Þvottavélatínsluvesen er gott hugtak. Ég á örugglega eftir að stela því frá þér.
Berglind: Þetta minnir mig líka alltaf á sokkakonflikta ykkar systkina. Annars væri ég löngu búin að fá þig í þetta verkefni í minni persónulegu skúffu líka. Viltu kannski hirða sokkasafnið mitt og reyna að búa til einhver pör úr því, þegar ég kaupi dúsínið?
Laufey B Waage, 11.10.2007 kl. 14:00
Berglind mín ef handklæðin eiga að far avel í skápnum verða þau að vera rétt saman brotin. Það er bara þannig, einnig verður þú að passa vel að teygja alla enda til að jafna hliðarnar. En auðvitað veistu þetta allt saman vel upp alin stúlkan. Og mikið rétt það deyr enginn en................................
bestu kveðjur Þórunn frænka þín.
Þórunn Jóhannsdótir (IP-tala skráð) 11.10.2007 kl. 14:01
Þórunn. Þú ert ein af þeim fáu sem skilur örugglega þá skelfingu sem greip mig eitt sinn í leikfiminni. Þannig var, að fyrst eftir að ég fór að búa með besta manni í heimi, leyfði ég honum að ganga frá þvotti (hann þóttist kunna það). Svo eitt sinn tek ég - eins og vanalega - 2 hrein og samanbrotin handklæði úr skápnum til að fara með í leikfimi. Stórt til að þurrka mér með og minna til að leggja á dýnuna í gólfæfingunum. Þegar ég svo tek litla handklæðið í sundur í miðjum leikfimisalnum, - heldurðu ekki að annar endinn sé með þessi líka stóru kanínueyru og hinn endinn bogadreginn. Vá hvað ég skammaðist mín. Ég laumaðist auðvitað til að teygja það, - öðru vísi gat ég ekki lagt það á dýnuna. Eins og gefur að skilja hefur hinn frábæri eiginmaður ekki fengið að ganga frá þvotti (alla vega ekki handklæðum) eftir þetta.
Laufey B Waage, 12.10.2007 kl. 11:17
Af eigin reynslu get ég miðlað eftirfarandi skipulagningu í sokkaskúffunni:
1) heil pör
2) götótt pör
3) stakir heilir
4) stakir götóttir......
En maður hlýtur að spyrja sig hvort maður sé með öllum mjalla að halda upp á staka götótta sokka..... Ekki nema að eitthvað ístoppuæðiskast geri vart við sig.... og þá að eitthverjir einstæðingar passi við staka heila....
Annars er þetta nú í mesta lagi einhver fullkomnunarárátta í skipulagningu...
Prófið sjálf!
Kær kveðja,
Silló
Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir (IP-tala skráð) 12.10.2007 kl. 13:09
Já Laufey þetta skil ég fullkomlega. Ég hefði labbað út.
Eigðu góða helgi
Þórunn frænka þín.
p.s sokkaskipulagið mitt er a) hvítir, b)dökkir, c)stakir hvítir, d)stakir dökkir.
Sem betur fer geta drengirnir motað c-lið á æfingum.
Þórunn Jóhannsdótir (IP-tala skráð) 12.10.2007 kl. 13:45
Mér finnst þetta ótrúlega fyndin umræða. Sérstaklega þar sem ég:
a, hef mætt í sitt hvorum sokknum í vinnuna og kippti mér lítið upp við það þegar ég uppgötvaði það (við erum að tala um einn rauðan og annan grænan).
b, sortera sokka eftir pörum, skítt með litinn.
c, mætti í vinnuna í vikunni í götóttum sokkum, reyndar báðir nákvæmlega eins götóttir, ykkur hefði líkað það.
d, set stundum saman ósamstæða og mislita sokka bara af því að ég finn ekki hina á móti! :)
Það er þó eitt sem fer í taugarnar á mér varðandi sokka. Hvítir sokkar við sparifötin. Ég tapa mér alveg!
Þ
Þórdís Einarsdóttir, 13.10.2007 kl. 18:15
Kannast við þetta vandamál. Og það sem meira er að ég hendi aldrei stöku sokkunum af von um að finna einhverntímann hinn á móti...... og Berglind, viltu segja honum Palla frænda mínum að það eigi að brjóta handklæðin 3X3. Amma Sigga sagði það......
Sigríður Jósefsdóttir, 15.10.2007 kl. 11:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.