22.10.2007 | 23:57
Góður dagur.
Sumir myndu segja, að dagurinn í dag hafi verið einn af þeim dögum, þar sem allt fer úrskeiðis, sem getur farið úrskeiðis. En ég er bara alls ekki sammála. Ég veit ekki hvort ég er bara í Pollýönnugírnum eða hvað. Mér bara fannst þetta virkilega góður dagur.
Áður en lengra er haldið, verð ég þó að afsaka tvennt. Annars vegar myndaleysið. Ég veit ekki hvað er í gangi (ekki segja að þetta sé partur af "úrskeiðisdeginum"). Ég hef alltaf sett myndir inn á ákveðinn hátt, en nú er sá möguleiki allt í einu ekki gefinn, og tilraunir mínar til að fara aðrar leiðir eru bara ekki að virka í augnablikinu.
Hitt afsökunaratriðið er hversu langt er um liðið frá síðasta bloggi. Ég hef bara verið svo hrikalega upptekin. Tók að mér afleysingakennslu fyrir tvo kennara, sem brugðu sér til útlanda, önnur í síðustu viku og hin í þessarri. Ofan á mína eigin kennslu að sjálfsögðu, þannig að dagskrá mín er æði þéttskipuð. Á þessum sama fór ég til tannlæknis, bjó til eitt stykki afmælisveislu og svona eitt og annað smálegt.
En aftur að deginum í dag. Ég tók hann snemma. Ég þurfti nefnilega að koma við í Njarðvíkuskóla (afleysingakennsluskóli síðustu viku) og sækja 2 hljóðfæri sem ég þurfti að nota í Myllubakkaskóla (afleysingaskóli þessarar viku) í kennslu minni þar í dag.
Ég er ekki komin nema örfáa kílómetra að heiman, þegar ég man eftir því að ég mundi ekki eftir að taka með mér inniskó. Ég var berfætt í skónum, og þeir eru mjög strangir á útiskóbanninu í Grunnskólum Reykjanesbæjar. En ég nennti ekki að snúa við og ákvað að taka sjensinn á að ég kæmist upp með að vera inni á einum af mínum rauðu uppáhaldsskóm.
Þegar ég svo keyri í gegn um Hafnarfjörð, man ég eftir því að ég gleymdi nestinu. Ég hafði eldað ríflega af virkilega staðgóðum mat í gærkvöldi, sett afganginn í sitt hvort töpperverboxið fyrir okkur mæðgurnar og hlakkað virkilega til að borða þetta í hádeginu. Svo hafði ég líka smurt afar girnilega samloku til að borða í hálf-tíu-kaffinu. En ég hélt mínu góða skapi og hugsaði með mér að matráðskonan í Myllu væri örugglega með eitthvað gott handa mér. En þá man ég eftir því að ég á að kenna í hádeginu líka, - ekkert hlé. Jæja, ég fitna þá ekki í dag hugsaði ég og hélt báðum höndum sem fastast um stýrið, því lægðin djúpa var farin að blása hressilega.
Nema hvað. Þegar ég kem að Njarðvíkurskóla er þar allt lokað og læst. "Það var sagt mér" að þessi skóli oppnaðist alltaf 7.3o, hugsa ég, - en man þá eftir því að ástæða þess að ég er að leysa af í Myllubakka, er sú, að sá kennari kennir líka í Njarðvíkurskóla og er núna með þeim vinnufélögum sínum í Boston.
Ekkert mál, hugsar mín. Ég bregð mér bara í Tónlistarskólann sjálfann og sæki hljóðfæri. Ég er allavega með lykla að þeim útidyrum og kann á þjófavarnarkerfið. Hélt ég. Vissi bara ekki að þetta eina ár sem ég var í fríi frá þeim skóla (síðastliðinn vetur) hefur greinilega verið skipt um leynitölur á kerfinu. Svo ég bara opnaði með mínum lykli og sló inn gömlu góðu leynitölurnar, en þær virkuðu ekki betur en svo að kerfið fór af stað.
Hér ber að geta þess, að mín hefur aldrei þolað nein svona væl og vein. Frá því ég eignaðist mína fyrstu vekjaraklukku hef ég vaknað á undan klukkunni, til að sleppa við að heyra hana pípa.
Og þarna stóð ég ein í morgunnmyrkrinu og þessum líka skerandi hávaða. Þrátt fyrir ákafan hjartslátt, tókst mér að opna mér leið inn á kennarastofu, þar sem ég beið eftir símtali frá öryggismiðstöðinni, eins og okkur hafði verið uppálagt í árdaga. En enginn hringdi, ég alla vega heyrði það ekki í öllum brjálæðisgangnum.
Svo ég bara lét mig hafa það að fara upp á loft og sækja hljóðfærin og flýja með þau út úr húsi. Vá hvað mér leið eins og allir í nærliggjandi húsum væru að fylgjast með mér eins og meintum steliþjófi. Ég skimaði laumulega í allar áttir eftir securitasbíl eða löggubíl (sem ekki sást), hoppaði upp í bílinn minn og keyrði burt. Þegar ég var komin nógu langt til að ekki heyrðist lengur í þjófavarnarsírenunni, lagði ég úti í kanti og hringdi í skólastjórann.
Konan hans svaraði. Og nú ber einmitt að geta þess að sú kona er akkúrat kennarinn sem ég var að leysa af í síðustu viku. Ég veit ekki betur en þau hjónin hafi komið til landsins í gærkvöld - og hafa örugglega ætlað að sofa út í morgunn, fyrst það var frí í Njarðvíkurskóla. "Hann er í hinum símanum að tala við öryggismiðstöðina, þeir eru að taka sírenuna af" sagði frúin. Við höfðum semsagt vakið þau bæði, með báðum símunum, ég og öryggismiðstöðin.
Það vill til að skólastjórahjónin eru yndælismanneskjur, svo ég geri ráð fyrir að þau hafi fyrirgefið mér. Alla vega fékk ég ekki hiksta.
Eftir Nóatúnssalat á milli skóla, ákvað ég að láta það eftir mér að þeysa í Kaffitár og taka með mér sojalatte þaðan og í Tónlistarskólann (sem var þagnaður). Inni í hljóðlátum skólanum fann ég strax að latte þessi var með beljumjólk, en ekki soja. Nei, maður gerir sér ekki ferð á kaffihús, í snarbrjáluðu roki og rigningu, til að fá vitlaust kaffi, hugsaði frú Soja og fór aftur út í óveðrið til að fá leiðréttingu. Sú leiðrétting fékkst fúslega, við báðar (kaffibarþjónninn og frú Soja) með bros á vör. Ég átti að vísu í smávægilegu basli með að láta ekki bílhurðina fjúka út í veður og vind, meðan ég hélt traustataki með annari hendi utan um bíllyklana og sojalattegötumálið. Mikið var nú blessaður drykkurinn góður.
Mallý systir var búin að vara mig við því að lægðin yrði í hámarki akkúrat á meðan ég yrði á Reykjanesbrautinni á leiðinn heim. En Yarisinn toldi á brautinni, þótt þrjá stærri bíla sæi ég utan vegar. Annars hefði dagurinn ekki orðið svona góður.
Fyrir utan rauða húsið við hafið (hvar ég bý) hoppaði ég svo með hraði út úr Yarisnum, sem Prinsessan ætlaði á í jazzbalettinn, og upp í Súbarú eiginmannsins og þaðan hraðferð í Regnbogann, hvar beið okkar framlenging af kvikmyndahátíðinni. Eftir bíó var minn heittelskaði á hraðferð í borðtennisið (mætti halda að við værum hinir típísku nútíma-íslendingar, eintómar hraðferðir), en ég sagðist ætla að fá mér að borða á næstu grösum og labba svo heim. Lægðin færi örugglega að þreytast og hægja á sér.
Sem ég er svo í miðri máltíð, hringir borðtenniskappinn og segir mér að ég hafi auðvitað skilið lyklana mína eftir í bílnum hans. Svo nú var ekkert annað í stöðunni, en að fara gangandi, í gegn um lægðarmiðjuna, út í KR og þaðan heim, ef ég ætlaði á annað borð að komast inn heima hjá mér. Sem ég auðvitað vildi og gerði. Í þeim indælis göngutúr hugsaði með mér, að mikið væri ég nú heppin að fá þetta tækifæri til að hreyfa mig úti í góða veðrinu. Það hefur nefnilega verið svo mikið að gera hjá mér, að ég hef ekkert komist í leikfimi. Segiði svo að þetta hafi ekki verið góður dagur. Ég sef örugglega vel í nótt.
Athugasemdir
Eigðu góðan Pollýanna mín
Bestu kveðjur Þórunn frænka þín.
Þórunn Jóhannsdótir (IP-tala skráð) 23.10.2007 kl. 15:05
Frábær dagur!
En amma Sibba kvaddi okkur svo í dag(23.) en margar góðar minningar um hana búa með okkur áfram.
Kveðja með von um "betri" daga.
Brynja.
Brynja (IP-tala skráð) 24.10.2007 kl. 01:18
Úff þvílíkt ævintýri sem þú hefur lent í Laufey mín. ´´Eg geri eins og þú vakna á undan klukkunni, því ég þoli ekki hringingarnar.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.10.2007 kl. 11:06
P.S. Ertu ekki búin með myndakvótann ? þú getur keypt þér meira myndpláss. Þú ættir að skoða það.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.10.2007 kl. 11:07
Sæl og blessuð Laufey mín.
ÉG rakst á þig á flickrinu fyrst og síðan fann ég þessa síðu. Mikið er gaman að rekast á þá sem maður þekkir og hittir alltof sjaldan. Vona að þið hafið það gott, ég á eftir að kíkja hér inn oft.
Kveðja til allra og þó sérstaklega Ásbjargar.
Jóhanna Kristín Hauksdóttir (IP-tala skráð) 29.10.2007 kl. 00:37
Takk takk elskurnar.
Laufey B Waage, 29.10.2007 kl. 10:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.