29.10.2007 | 10:59
Vetur.
Fyrsti vetrardagur stóð undir nafni þetta árið. Fyrsta vetrarhelgi hjá mér hófst á því að um kvöldmatarleytið á föstudaginn þeysti ég austur fyrir fjall, til fundar við minn ástkæra, sem hafði tekið á leigu orlofshús við Laugarvatn og mætt þangað á rútu daginn áður (hann á ekki nema tvo Súbarúa, en vildi endilega vera samferða mér heim á mínum eðal-Yaris). Hann var semsagt í vetrarfríi á fimmtudag og föstudag, en ég í dag, mánudag. Á dagskrá hjá mér er að nýta daginn vel, m.a. ætla ég loksins að gera heiðarlega tilraun til að nota Sibelius-nótnaskriftarforritið sem ég var að hlaða inn í tölvuna (eftir að hafa staðið ónotað í skúffu í marga mánuði).
En aftur upp á Hellisheiði. Ég var ekki komin að Bláfjallaafleggjaranum, þegar ég var lennt í óslitinni röð bíla á nánast engum hraða, svo langt sem augað eygði. "Þetta eru nú meiri aumingjarnir og hræðslupúkarnir" hugsaði ég og fór strax að hafa áhyggjur af bökunarkartöflunum, sem ég hafði uppálagt mínum ástkæra að setja í ofninn um leið og ég lagði af stað. Ég hafði ráðgert að vera rétt rúman klukkutíma á leiðinni, miðað við mitt hefðbundna aksturslag. Sjálf var ég svo með "mínútusteik" í bílnum og vissi að ég yrði orðin öskrandi af hungri, þegar ég mætti á staðinn. "Ég held þeir ættu að druslast á nagladekk" hugsaði ég og leit á hraðamælinn (sem ég geri mjög sjaldan) og klukkuna.
En ég var ekki komin að Þorlákshafnarafleggjaranum, þegar hrokagikkurinn minn var flúinn af hólmi, og litli hálkuhræðslupúkinn mættur í staðinn. Og ég gladdist í hjarta mínu yfir því að samferðafólk mitt í umferðinni væri varkárt eins og ég (já ég sagði eins og ég), og að glannabjánarnir væru bara heima hjá sér. Bakaðar kartöflur eru bara betri dáldið mikið bakaðar.
Alla helgina var virkilega fallegt vetrarveður. Blankalogn, nýfallinn snjór í fjöllum, og fullur máni á himni. Unaðslega rómantískt. Á laugardeginum gerðum við árangurslausa leit að hellinum fræga, sem búið var í fram á miðja síðustu öld (sprelllifandi fólk á aldri við mömmu er fætt og uppalið í þessum helli). Ég átti dáldið erfitt með að viðurkenna að mér tækist ekki að finna hann, nema mamma væri með í för. Ég hef nefnilega alltaf gortað mig af því að vera miklu ratvísari en hún.
Ég fékk þá athugasemd við síðustu bloggfærslu, að hún hafi verið of löng. Ég get alveg tekið undir það. Reyni að forðast það framvegis, nema sérstakt tilefni kalli á langloku. En næst á dagskrá er að kíkja á vinnustofu Söru vinkonu og hella sér svo í Sibelius (ekki spyrja mig eftir á hvernig gekk - tölvutilraunir hafa hingað til ekki verið mín sterkasta hlið).
Lifið heil.
Athugasemdir
Hellirinn frægi er vel merktur á leiðinni eftir Gjábakkavegi milli Þingvalla og Laugavatns
Baldvin Jónsson, 29.10.2007 kl. 11:52
Takk Baldvin, man það næst. Við röltum upp í hlíðina eftir að hafa keyrt rúman kílómetra inn á Lyngdalsheiðina. Við höfum sennilega ekki verið komin nógu langt. Mér fannst hann vera nær Laugarvatni (þegar ég fór í hann 10 ára með mömmu).
Laufey B Waage, 29.10.2007 kl. 13:38
Laufey láttu engan segja þér hvað þú átt að hafa pistlana þína langa. Þú hefur þá eins og þú vilt, og þeir sem lesa geta bara stiklað yfir ef þeir nenna ekki að lesa allt saman. Það er þessi eilífa afskiptasemi fólks um hvað þessi eða hinn á að gera eða ekki gera. Af hverju eru sumir alltaf að skipta sér af hvernig aðrir gera, og reyna að móta aðra í sitt far. Við höfum hvert og eitt sitt séreinkenni og við eigum bara að fá að hafa það í friði, punktur og basta.
En ég segi bara gleðilegan vetur. Vonandi verður hann okkur góður.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.10.2007 kl. 20:34
Já þessi fyrsta helgi vetrar var bara nokkuð falleg á suðurlandinu. Ég og mínir vorum ss líka í bústað þessa helgi í Grafningnum ekki svo langt frá Úlfljótsvatni.
Leitt að vita ekki af ykkur þarna hinumegin við hólinn.
Kveðja Brynja.
Brynja (IP-tala skráð) 30.10.2007 kl. 01:57
Ji minn, mig verkjar alveg af hlátri. Vá hvað þetta hefði getað verið ég.
Laufey B Waage, 30.10.2007 kl. 19:47
talandi um fyndin vídeó, hér er BESTA auglýsing í heimi!!!!
Ylfa Mist Helgadóttir, 1.11.2007 kl. 19:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.