8.11.2007 | 23:20
Menning.
Þegar ég bjó fyrir vestan, fór ég stundum í menningarferðir suður til Reykjavíkur. Ýmist í boði vinnuveitenda (þáverandi eiginmanns), eða þá að ég fór upp á mitt einsdæmi og dró þá syðrabúandi vini og vandamenn með mér í leikhús og því um líkt. Viðkomandi sögðu þá gjarnan að þau færu næstum aldrei í leikhús nema þegar ég kæmi suður. Nú hef ég búið í Reykjavík í 25 ár - og enn heyrir ég af og til fólk tala um þetta sama - bæði landsbyggðafólk og hina á Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu.
En ég sé ekki alveg að þetta eigi við um sjálfa mig. Ég bý í iðu Reykjavíkurmenningarinnar, en er þó sínkt og heilagt að þvælast á hina og þessa menningarviðburðina, algjörlega ódregin og að eigin frumkvæði.
Tökum síðustu viku sem dæmi: Á laugardagskvöldið fór ég á Tónleika með Gospelkór Reykjavíkur og norskum gestum þeirra, - ferlega gaman. Á sunnudaginn hlýddi ég á tónlistarhópinn Hnjúkaþey flytja unaðslega tónlist í Fríkirkjunni. Á mánudagskvöldið hlustaði ég á "tenórana þrjá" í alþjóðahúsinu. Nei það voru ekki þeir Domingo, Coreras og Pavarotti heitinn, heldur þrír æðislegir íslenskir tenórsaxafónleikarar ásamt hrynsveit. Á þriðjudagskvöldið var það svo "þriðjudagur með Þorvaldi" ásamt fræðslu hjá Bjarna. Allt þetta fór ég alein og ótilneydd (nema hvað eiginmaðurinn kom í seinni hálfleik á tenórana þrjá). Á miðvikudaginn fékk ég tvær heimsóknir (eina í hádeginu og aðra um kvöldið) og var því heima hjá mér til tilbreytingar. Í kvöld fór ég svo með frumburðinum mínum á Súfistann, þar sem við hlýddum á rithöfunda lesa úr nýútkomnum bráðskemmtilegum bókum. Helgin framundan er svo alveg skipulögð - ég hlakka mikið til að fara þangað sem ég ætla að fara á morgunn. En bloggið á að vera dagbók - og dagbók skrifar maður ekki fyrirfram, þannig að ég segi ekki meira að sinni.
Og af því að ég er nú byrjuð að æfa jólalögin eins og fram er komið, fannst mér tilvalið að setja mynd af Grýlukertunum með þessari færslu. Gat ekki stillt mig um að skella þeim í eldhúsgluggann í gær.
Njótið helgarinnar elskurnar.
Athugasemdir
Sæl frænka.
Ég get varla beðið eftir að hefja jólaundirbúningin. Hlusta á jólalögin, þrífa..já ég veit ég er ennþá svolítið mikið í því, baka og bara allt. Ég á svolítið eftir af skólanum og svo get ég byrjað, er mjög spennt.
Eigðu góða helgi
Þórunn frænka þín.
Þórunn Jóhannsdótir (IP-tala skráð) 9.11.2007 kl. 15:18
Menningarbrjálæðingur. Ég fór aldrei neitt þegar ég bjó í bænum. Átti aldrei pening. Nema jú ég nærðist á leiklist því að ég fékk frítt inn á áhugamannasýningarnar vegna þess ég var í Hugleik. Núna nýti ég tímann oftast til einhvers "menningarlegs" þegar ég er syðra. En veistu, vinkonum mínum fyrir sunnan finnst ég lifa mjög menningarlegu lífi hér fyrir vestan. Hér er alltaf svo mikið í boði og maður reynir að taka þátt í sem flestu.
Takk fyrir kvaðjuna í dag og í gær!!
Ylfa Mist Helgadóttir, 9.11.2007 kl. 17:22
Þú stundar aldeilis menninguna Laufey mín, svo sannarlega. Alveg eins og við hér á Ísafirði.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.11.2007 kl. 20:36
Jess!! Þetta var akkúrat það sem ég vonaðist til, - að fá viðbrögð frá vinum mínum á landsbyggðinni (má lesast Ísafirði og nágrannasveitum). Ég hef reyndar líka farið í menningarferðir til Ísafjarðar og á örugglega eftir að gera það aftur.
Laufey B Waage, 12.11.2007 kl. 20:45
Uss, ég átti í furðulega miklum erfiðleikum með ruslpóstvörnina, er eitthvað agalega ringlaður í augnablikinu. Átti í mestu erfiðleikum með að finna summuna af sjö og ellefu.
En já, það er fullt af menningu út um allt land. Við verðum að fara saman á góða sálarstríðsmynd næst þegar það verður ungversk kvikmyndahátíð í Regnboganum. Svo geturðu komið vestur á eitthvað skemmtilegt einhvern tímann eftir áramót. Ég á gestaherbergi.
Bjarki einkasonur (IP-tala skráð) 13.11.2007 kl. 19:25
Menning schmenning... verð að játa, ég er flutt frá Ísafirði og þar með er ég hætt að stunda alla menningu. Hef ekki farið í bíó síðan ég sá Hringadróttinssögu og ekki í leikhús síðan "Þetta er allt að koma".
En ég fór á skíðaviku í fyrra. Á Ísafirði að sjálfsögðu. Þar er menningin.
Þ
Þórdís Einarsdóttir, 13.11.2007 kl. 21:20
Tilkynni hér með í votta viðurvist, að ef og þegar ungversk kvikmyndahátíð verður haldin í Regnboganum, þá bíð ég einkasyninum til Reykjavíkur, hvar í heiminum sem hann verður staddur. En það verður varla fyrir næsta Sléttuhreppingaþorrablót.
Laufey B Waage, 15.11.2007 kl. 19:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.