Kaffi.

kaffiÉg veit ekki um neitt félagslegra fyrirbæri en kaffi. Frænka mín sem er prestur,drekkur ekki kaffi, - og hún er endalaust að lenda í vandræðum, þar sem hún er alltaf að koma inn á heimili (ókunnugs) fólks, sem verður alveg miður sín þegar hún þiggur ekki kaffibolla. "Mér finnst vatn mjög gott" segir hún þá gjarnan. En fólki finnst alveg skelfilegt að geta ekki boðið prestinum neitt annað en vatn.

Sjálf hef ég þrisvar farið í mislöng kaffibindindi. Því síðasta lauk sumarið 1999 á ættarmóti. Þið kannist kannski við þessa yndislegu stemmningu, þegar frænkurnar koma saman við eldhúsboðið á laugardagsmorgninum - yfir kaffibollatjatti. Slíkan unað lætur maður ekki fram hjá sér fara - og þá er frekar hallærislegt að sitja bara og tjatta, en sleppa sjálfu kaffinu. Svo mín byrjaði aftur - og sér ekki nokkra ástæðu til að hætta.

Fyrir margt löngu sagði vinkona mín ein: Það er eins með vini og bækur - they schould be few and well chosen. Þessi setning finnst mér eiga best við um kaffibolla. Fáir bollar á degi hverjum - en virkilega góðir. Það er minn stíll. Ég hef aldrei skilið þá sem geta lapið það sem á mínu heimili kallast framsóknarkaffi (lapþunnur og staðinn uppáhellingur, eða eitthvað í þá áttina) meðvitundarlaust allan daginn. Mín regla er: Einn góður soja-latte eftir morgunmat og annar eftir hádegismat. En reglugerðarfasisminn má ekki verða leiðinlegur, svo yfirleitt bæti ég þriðja bollanum við. Um þessar mundir getum við kallað hann skammdegisbolla. Ég lofa þó ekki að taka hann af þegar vorar - sjáum til.

Ein af uppáhaldssetningunum mínum úr heimsbókmenntunum er úr Sitji Guðs englar (eftir Guðrúnu Helgadóttur). Þá er Guðrún á 7 í heimsókn - og einn af bræðrunum kemur inn og skellir einni mjög óþægilegri spurningu á Guðrúnu. Áður en Guðrúnu gefst ráðrúm til að svara, lyftir mamma könnunni og  segir "Má ekki bjóða þér meira kaffi Guðrún mín". Þá segir sögumaðurinn Heiða 13 ára "Ég held að öll vandamál á þessu heimili séu leyst með meira kaffi". Hefði getað gerst á flestum íslenskum heimilum þegar ég var barn.

Lifið heil. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Mér finnst kaffilykt voða góð, og mér finnst gaman að sitja og rabba við fólk með kaffibolla, en ég fer frekar í teiið.   En ég er alveg sammála þér með að kaffi er örugglega það sem er mest félagslega fyrirbæri hér á landi og víðar. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.11.2007 kl. 15:26

2 identicon

Ég er svoooooo ósammála, mamma. Kemur þér kannski ekki á óvart. Ég vil hafa kaffibollana marga og ómerkilega. Margt smátt gerir eitt stórt. Svoleiðis kaffidrykkju verðurðu að venja þig á upp á félagslega kaffigildið. Þú getur ekki verið að panta þinn sojalatté þegar einhver bíður þér uppáhelling í heimahúsi. Ef þú ert til að mynda í heimsókn hjá gamalli frænku máttu alveg reikna með framsóknarkaffi.

Fyrir mína parta getur kaffi aldrei orðið of þunnt, nema kannski þegar amma Bogga lagar það. Þá finnst m.a.s. mér nóg komið. Ég held að þetta sé einhver vani hjá gömlu fólki, kannski eitthvað frá skömmtunarárunum, að setja aldrei fleiri en 2 teskeiðar af kaffi í filterinn.

Bjarki einkasonur (IP-tala skráð) 15.11.2007 kl. 16:23

3 Smámynd: Laufey B Waage

Ég verð að viðurkenna, að misþunnur uppáhellingur getur verið dýrmætur í heimsókn hjá gömlum frænkum og fleira fólki. Þá hefur hann félagslegt gildi, satt og rétt. En mér finnst að á þessum síðustu og bestu tímum eigi að vera almennileg espressó-vél á öllum vinnustöðum, félagsheimilum, kirkjum, flugstöðum, o.s.frv. Til upplýsingar fyrir einkasoninn og aðra af pastakynslóðinni, vil ég geta þess, að kynslóð ömmu Boggu bætti export-kaffibæti saman við þessar 2 teskeiðar þegar gesti bar að garði, svo unaðsdrykkurinn yrði aðeins bragðmeiri.

Laufey B Waage, 15.11.2007 kl. 19:16

4 identicon

Export- nú datt mér amma okkar í Akbraut í hug. Mannst eftir rauða export-stauknum hennar?

Annars er ég hætt að drekka kaffi,eins og ýmislegt annað,ha-ha. Og ég finn verulega fyrir þessu félagslega. Núna drekk ég te og líkar vel. Það er til svo ótrúlega mkið og gott úrval af te-i. Og núna er ég einmitt að fara í Kaffitár í Keflavík til að kaupa mér gott te og kaffi fyrir Óla minn og gesti.

Það var með mig eins og Bjarka þegar ég var og hét í kaffidrykkjunni, mikið drukkið og helst vildi ég hafa það sterkt. Hef reyndar alltaf verið óhófssöm í því sem ég drekk!!!!

Eigðu góða helgi kæra frænka

Þórunn frænka þín.

Þórunn Jóhannsdótir (IP-tala skráð) 16.11.2007 kl. 14:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband