Hundur í óskilum.

Hundur í óskilum, lógóÉg fæ oft að heyra að ég sé svo "dugleg" að sækja tónleika. Ég hef aldrei almennilega fattað orðalagið. Eins og maður þurfi að taka sér taki og erfiða þessi reiðinnar býsn við að sitja í huggulegheitum  og njóta góðrar tónlistar. Mér dettur nú bara í hug ein ömmusystir mín, sem ég heimsótti stundum meðan hún lifði. Í næstum hvert sinn sem við kvöddumst sagði hún: "Mikið lifandi skelfing ertu nú góð við mig, að vera svona dugleg að heimsækja mig". Ég sagði henni auðvitað að þessar heimsóknir hefðu ekkert með góðsemi eða dugnað að gera, heldur væri þetta tóm eigingirni. Mér dytti ekki í hug að heimsækja hana ef ég hefði ekki gaman af því. Eins er með tónleikana. Ég fer bara á þá tónleika sem mig sjálfa langar á, það er partur af minni eigin lífsnautn. Hvað ætti það svosem annað að vera.

Á fimmtudagskvöldið fór ég á tónleika með Hundi í óskilum. Ég heyrði fyrst í þeim fyrir ca. 6 árum, og síðan hef ég sótt svo marga tónleika með þeim að ég get ekki talið þá. Og alltaf skemmti ég mér jafn brjálæðislega vel. Sit fremst og hlæ mest. Ef það mætti segja um mig að ég væri grúppía einhverrar hljómsveitar, þá væru það líklega þeir. Minn ástkæri hefur oftast farið með mér, en var vant við látinn þetta kvöld, náði samt aukalögunum báðum. Bróðir minn sat hins vegar til borðs með mér allan tímann, og var löngu kominn tími til að sá frábæri húmoristi og tónlistarunnandi nyti hundsins.  

Verð að segja ykkur eitt áður en ég hætti. Ég fékk þá skyndihugdettu rétt áðan að prófa að búa til sýnishorn af konfekti. Hafði enga uppskrift, skellti bara saman nokkrum góðum stöffum af handahófi, hrærði saman og bjó til 6 litlar kúlur. Ég held ég hafi sjaldan smakkað annað eins gúmmolaðis-góðgæti. Ég þarf greinilega ekki að vera konfektlaus þessi jólin, þó ég hafi ákveðið að hætta að styrkja þá félaga Nóa Síríus, Lindu og Makkintos, eins og ég hef gert með gróflegri neyslu í allt of mörg ár.

Lifið heil. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heidi Strand

Þegar ég las fyrirsögnina hugsaði ég um svissneskar pylsur.

Heidi Strand, 18.11.2007 kl. 18:40

2 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Uppskrift??

Annars var ég í gær að flytja ljóð á árshátíð eftir vin minn og gamla leikfélaga Hjörleif Hjartarson. Mígandi fyndið alveg.

Bolvíski brúskurinn

Ylfa Mist Helgadóttir, 18.11.2007 kl. 19:58

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Elsku fallega hugsandi Laufeyjan mín.  Þetta er alveg rétt sem þú segir, það er ekki dugnaður eða góðsemi að kíkja við hjá ástvini, það er yndislegt og gefandi, það er líka ágóðinn einn að fara á tónleika eða í leikhús.  Ég er svo heppinn að ég er nýbúin að kaupa mér miða á frostrósirnar þann 7. desember, sem betur fer fyrir mig voru settir upp aukatónleikar, því þeir upprunalegu seldust upp sama daginn.  Og svo fer ég á LL sýningu næstkomandi sunnudag, að horfa á Skuggasvein.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 19.11.2007 kl. 11:23

4 Smámynd: Laufey B Waage

Fyrirgefðu Sara mín, ég er bara farin að gera minna af því að segja þér frá skemmtilegum tónleikum, af því að þú segir næstum alltaf nei. En nú man ég örugglega næst að segja þér frá Hundinum. Þeir voru að spila á Dómó, ég heyrði það í útvarpinu samdægurs.

Ásthildur eruði að setja upp Skuggasvein?! Og hver leikur Skuggasvein og hver Ketil skræk? Pabbi minn lék Skuggasvein í mörg ár á þrettándabrennu í Keflavík. Máttu ekki vera að því að kíkja í heimsókn í rauða húsið við hafið þegar þú kemur suður? Ég er í símaskránni. 

Laufey B Waage, 19.11.2007 kl. 19:45

5 identicon

Hundur í óskilum er mjööög ofarlega á listanum hjá mér. Hefurðu hlustað á þáttinn þeirra á rás 1 á laugardögum 18:25?  Yndislegir.

Mikið hló ég þegar ég las söguna þína um Hagkaupsblómið - þetta hefði getað verið ég! 

Guðný Sigga "flickrkona" (IP-tala skráð) 22.11.2007 kl. 20:12

6 Smámynd: Laufey B Waage

Guðný Sigga, ég hlusta þegar ég man, en hef stundum klikkað á því. Lýsingar Hjöra á söngvurum voru stórkostlegar á laugardaginn var.

Laufey B Waage, 22.11.2007 kl. 20:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband