Pottaplantan.

plastblómÉg veit að maður á ekki að umpotta í lok nóvember. En þessi elska, sem ég keypti á pottaplöntuhaustútsölu Hagkaupa, var bara í svo litlum potti, að ég var farin að finna til með henni. Hélt hún væri kannski komin með innilokunarkennd eða andþrengsli, nema hvort tveggja væri. Svo gat ég bara vökvað hana svo lítið í einu, af því að potturinn var svo lítill. Þá vökvaði ég hana bara þeim mun oftar. En í þessum litla potti virðist hún hafa tileinkað sér alveg einstaka hógværð og lítillæti, því hún sætti sig óhemju vel við mjög litla vökvun. Lét eins og hún væri afskaplega nett á fóðrum. En ég lét það ekki blekkja mig. Ef maður borðar lítið, þá er þeim mun meira áríðandi að þessi litla næring sem maður fær, sé virkilega staðgóð. Þess vegna vökvaði ég hana aldrei með hreinu vatni, heldur fékk hún óblandað kartöflusoð, jafnoft og ég sauð kartöflur. Enda er hún ekkert farin að láta á sjá, eins og sumar plöntur gera í skammdeginu. 

Nema hvað - í stað þess að hella á hana kartöflusoðinu núna eftir kvöldmatinn, ákvað ég að skella henni í stærri pott. Ég byrjaði ekki á því að losa um moldina langt frá rótunum með skeið, eins og ég geri yfirleitt, heldur byrjaði ég á að grípa neðst um hana og jugga henni blíðlega til, svona til að vita hversu laust væri um hana í moldinni. Og viti menn, - haldiði ekki að hún hoppi ekki bara upp úr pottinum eins og hendi væri veifað. En hvað var nú þetta: Í staðin fyrir eðlilegar rætur, umvafðar gamaldags íslenskri gróðurmold, þá hékk bara eitthver plasttittur neðan úr henni. "Þetta er plastblóm" hrópa ég eins og hálfviti. 

Ég held ég hafi aldrei séð heimasætuna öskra og veina jafn óstjórnlega - og er hún þó hláturmild og glaðlynd að eðlisfari. Hún engdist þvílíkt og emjaði, að ég óttaðist helst að hún næði ekki andanum. En eiginmaðurinn lagði gítarinn rólega frá sér, stóðu upp og sagði: Það er engin hætta á því að við þurfum nokkurn tíman að gera grín að þér Laufey mín. Þú sérð algjörlega um það sjálf. 

Erðetta hægt? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er bara á færi allra bestu blómavina.

Bára (IP-tala skráð) 19.11.2007 kl. 23:42

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ó Guð !!!!!! hehehehe þú ert ótrúleg Laufey  Það lá við að ég dytti niður af stólnum. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.11.2007 kl. 10:17

3 identicon

Ertu ekki að grínast!?!? Það liggur við að Skaftahlíðarpakkið þurfi að breyta skilgreiningunni á því að "púlla Waage". Er það sem sagt frá þér sem ég fæ svörtu fingurna? (lesist: hæfileikann til að drepa ALLAR pottaplöntur sem ég kem nálægt. Komdu bara með plastið til mín, ég skal drepa það líka )

Berglind (IP-tala skráð) 20.11.2007 kl. 14:49

4 identicon

Ég fékk algjört hláturskast við lesturinn. Nú er bara ein spurning - HVERNIG varð plantan að plastblómi? Var það vegna innilokunarkenndar - eða má kannski draga þá ályktun að kartöflusoð breyti plöntum í plast???

Dóra Hlín (IP-tala skráð) 20.11.2007 kl. 15:34

5 identicon

Laufey frænka mín.

Þú ert óborganleg hahahahaha,

Hjartans þakkir fyrir síðast. Þetta var góð stund sem við áttum. þakka þér enn og aftur fyrir að láta mig vita af messunni.

Eigðu góðan dag  Þórunn frænka þín.

Þórunn Jóhannsdótir (IP-tala skráð) 20.11.2007 kl. 16:17

6 Smámynd: Laufey B Waage


Takk fyrir viðbrögðin elskurnar.

Berglind; ég er ekki með svarta fingur. Kannski ekki beint græna, en eins og Bára bendir á, þá er þetta bara á færi bestu blómavina. Hins vegar lýst mér bara vel á nýju "púlla Waage" skilgreininguna. Enda er ég viss um að engum fannst þetta jafn yfirgengilega fyndið og mér, - og er þá mikið sagt.

Dóra mín; ofan á moldinni (hvaða mold?) var eitthvert kurl, sem dró í sig kartöflusoðið, sem gufaði síðan upp úr kurlinu (hrikalega greindarleg útskýring svona eftirá).

Annars er spurning hvort plantan hafi ekki bara verið lifandi í upphafi. - Og innan um hrekkjavökudótið í Hagkaup hafi leynst norn ein grimmúðug, sem lagði þau álög á hana, - að væri hún vökvuð með kartöflusoði vikum saman, og umpottuð í skammdeginu, myndi hún umsvifalaust breytast í plast.

Laufey B Waage, 20.11.2007 kl. 22:27

7 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Sko. Þangað til ég kom að þessu með að þetta væri plastblóm, var ég verulega farin að efast um andlegt heimbrigði konu sem bloggaði í jafnmiklum smáatriðum um umpottun á röngum árstíma. (kartöflusoðið, skeiðin og allt það)

Mikið varð ég glöð þegar kom að þessu með plastið. Mér varð eiginlega svo létt að ég þufti ekki að hlæja.

Fyrr en núna!!!!

Ylfa Mist Helgadóttir, 20.11.2007 kl. 22:36

8 Smámynd: IGG

Ég hló og hló og hló ... Þú ert dásamleg Laufey ... hvílíkur húmor ... og það fyrir sjálfum sér ... það er aðalsmerki að mínu mati.  Takk kærlega fyrir skemmtunina.
Ingibjörg G. Guðm.  

IGG , 21.11.2007 kl. 16:23

9 identicon

Laufey mín ég skora á þig að setja fallega jólaseríu á blessað blómið, setja það svo á góðan stað og láta lýsa um hátíðina...............................

Þórunn frænka þín.

Þórunn Jóhannsdótir (IP-tala skráð) 22.11.2007 kl. 18:10

10 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

  ..Rosalega var ég fegin að lesa þetta ...  "You never walk alone"  

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 22.11.2007 kl. 20:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband