22.11.2007 | 21:10
Villibráð.
"Taktu miðvikudagskvöldið 21.nóvember frá fyrir óvænta uppákomu", sagði minn heittelskaði fyrir rúmum mánuði. Hjartað í mér tók kipp, og ég minntist umsvifalaust villibráðarhlaðborðsins, sem hann bauð mér óvænt á í Perlunni fyrir ári síðan. "Nei Laufey, þú mátt ekki hugsa um þetta, þá verðurðu kannski fyrir vonbrigðum. Hann er örugglega ekki með sama dæmið tvisvar í röð. Honum tekst samt örugglega að gleðja þig". En það var sama hvað ég reyndi, í hvert sinn sem mér varð hugsað til þessa kvölds, poppaði Perlu-villibráðin upp í huga mér. Í gærkvöldi rann svo stundin upp. Spennan var við það að gera mig óða, þegar við keyrðum af stað, og jókst eftir því sem Öskjuhlíðin nálgaðist. Og sjúkket, mér varð að ósk minni. Ummmmm, þetta var unaðslegt.
Þess má geta að á fyrstu árum íslensku villibráðarhlaðborðanna, varð ég oft öfundsjúk (hræðilega á ég eitthvað erfitt að nota þetta orð um sjálfa mig) út í þá sem fóru ár eftir ár á villibráðarhlaðborð í góðum félagsskap. Enginn slíkur félagsskapur hafði mig innanborðs. Ég átti ekki einu sinni eiginmann til að fara með, auk þess sem ég átti sjaldnast fyrir osti ofan á brauðið á þeim árum, hvað þá að ég gæti splæst á mig slíkum og þvílíkum kræsingum. Eins og ég elska að borða vel matreitt hreindýr, rjúpu og þær listisemdir allar.
En þar sem ég kenndi við tvo skóla (gott ef ég var ekki líka í einhverjum félagssköpum), var mér yfirleitt boðið á tvö eða fleiri jólahlaðborð. Auðvitað var ég þakklát fyrir það, en gallinn er bara sá, að allt þetta reykta og saltaða kjöt er bara of gróft stöff fyrir viðkvæman maga minn og taugakerfi. Svo yfirleitt nartaði ég bara í laufabrauðið á meðan ég beið í góðum félagsskap eftir rice a la mande. Af hverju geta skólar og félagssköp (hrikalega ef þetta flott útúrsnúningsorð) ekki boðið manni á villibráð frekar en salt-reyks-bráð. Af hverju eru algengustu matar-mannfagnaðirnir jólahlaðborð og þorrablót. Ég ef mikil matkona, og langt frá því matvönd, - en ég borða heldur ekki skemmdan mat, svo á þorrablótin fer ég einungis af félagslegum ástæðum, og borða þá bara rófustöppuna.
En villibráðin er æði!!! Fyrsta villibráðarhlaðborðið okkar hjóna (af þremur) var fyrir þremur árum minnir mig (hvar er nú mín ýkta krónólógía?). Þá heyrði ég auglýst sértilboð á villibráðarhlaðborði ásamt gistingu fyrir 2 á hótel Valhöll, Þingvöllum. Ég hringdi og pantaði, en sagði mínum heittelskaða að ég ætlaði að koma honum á óvart um helgina. Missti svo út úr mér að "óvartið" fælist í haustlitaferð á Þingvelli. Mér tókst að koma mínum á óvart. Ekki bara með villibráð og gistingu í Valhöll. Ekki síður hinu, að "haustliturinn" á Þingvöllum var bara einn - hvítur. Í rómantísku haustlitagöngunni okkar ösluðum við þann hvíta upp í mið læri. Eftir þetta notar minn ástkæri hvert tækifæri, þegar nýfallinn snjór er yfir öllu, til að vekja athygli mína á "haustlitunum" unaðslegu.
P.s. Ef einhver hefur áhuga á skilgreiningu minni á trú og Kristni, þá bendi ég á athugasemd mína við blogg Prakkarans (Jóns Steinars) nú í kvöld (28.komment). Smellið bara á prakkarann hér til hliðar.
Lifið heil.
Athugasemdir
Ég get varla skrifað enn, þó að það sé allnokkur stund síðan ég las pottaplöntufærsluna þína. Tárin hreinlega spítast út úr augunum og lykklaborðið verður óviðráðanlegt vegna bleytu, ég þakka fyrir af öllu hjarta ég held að þetta hafi bjargað deginum. Hressilegasta hláturgusa í langan tíma.
Ég held að ég hafi ekki heyrt um félagssköp áður en fundarsköp þó.
Og verði þér að góðu villibráðin það er ekki laust við að það hrærist smá svona
öf... í mínu hjarta en þó meiri gleði yfir því að þér varð að ósk þinni.
Kveðja Brynja.
Brynja (IP-tala skráð) 23.11.2007 kl. 11:58
Þetta hefur verið æðislegt Laufey mín. Til lukku með það. Ég er líka ennþá að hlæja að pottaplöntunni þinni, hún kemur alltaf upp í hugann annað slagið og ég fer ósjálfrátt að hlæja.
Hmm haustlitirnir hehehehe....
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.11.2007 kl. 13:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.