26.11.2007 | 21:40
Iðnaðarmenn.
Ég er "virkur limur" á flickr, sem er alþjóðleg ljósmyndasíða. Þar bauðst mér fyrir nokkrum vikum að vera með í nokkra manna ljósmyndaklúbbi - Maritech. Sá klúbbur er með vikuleg þemu, hvert þema gildir frá mánudegi til mánudags. Fyrir viku var tilkynnt að nú tæki við þemað: Iðnaðarmaður.
Ég hélt það væri nú ekki mikið mál. Iðnaðarmenn taldi ég að myndu blasa við mér hvar sem ég færi, við húsbyggingar á götum úti og bara hvar sem komið væri. Ég hef sennilega verið föst í verulega gömlum hugmyndum. Ég man nefnilega, að þegar ég var barn, hélt ég að allir "venjulegir" menn væru iðnaðarmenn. Nema náttúrlega þeir sem væru sjómenn, en þá þekkti ég flesta bara úr fjarska (nema auðvitað Einar frænda). Kennarar, læknar, prestar og bílstjórar voru líklega sér-eitthvað í mínum barnshuga (svona svipað og sértrúarsöfnuðir).
Svo var fyrsti eiginmaður minn iðnaðarmaður, þ.e. hann lærði vélvirkjun og rafvirkjun, áður en hann varð flugmaður og forritari (ætli það sé nokkur kvóti á starfsheitum á Íslandi). Pabbi minn var auðvitað iðnaðarmaður, bróðir minn líka og eiginmenn beggja systra minna, ásamt mörgum öðrum af nánum ættmennum mínum. Meira að segja vinnur sonur minn um þessar mundir við að byggja blokk (reyndar í Osló). Svo ég hélt ég ætti nú ekki í vandræðum með að mynda 1 stykki iðnaðarmann.
Samt fór það svo, að í dag var ég allt í einu komin á dedlæn, eins og það heitir á góðri íslensku. Svo ég hringdi í bróður minn, sem ég vissi að var að smíða hús einhvers staðar í Hafnarfirði. Um að gera að smella nokkrum góðum af honum á leið minni til Njarðvíkur (hvar ég vinn við Suzuki-spilamennsku á mánudögum). En hann bara svaraði ekki símanum. En ég taldi það nú svosem ekki koma að sök, - það vill nefnilega svo bráðskemmtilega til að mágur minn vinnur á (eða rekur) bílaverkstæði í Njarðvíkum. Um að gera að afmynda hann hálfan ofaní einu húddinu.
Það var hellirigning þegar ég lagði af stað að heiman, en þegar ég kem til Njarðvíkur, er komin þessi líka bongóblíða. Ég gat því ekki látið hjá líða, að taka smá rúnt og leita að smiðum utan á hálfbyggðum húsum, í glampandi skammdegissólinni.
Ég þóttist vita hvar verið væri að byggja, en á leiðinni þangað sá ég menn vera að koma fyrir jólatré og setja á það seríu. Ég gat ekki stillt mig um að smella einni af þeim, þó þeir væru sennilega iðnverkamenn, eða jafnvel "bara" verkamenn. En sem ég var að velta því fyrir mér hvort ég ætti ekki að biðja þá um leyfi fyrir hugsanlegri myndbirtingu, læddist að mér sá grunur, að þeir skildu örugglega hvorki íslensku, né nokkurt annað mál sem ég gæti tjáð mig á. Svo ég bara flúði af hólmi.
Og að húsunum sem var verið að byggja. En um leið og ég mundaði mína litlu nettu canon ixus, þá leið mér allt í einu eins og í útlenskri sakamálamynd. Ég smellti aldrei nema þessum tveimur myndum sem hér sjást, því þeir sem lenntu á annari myndinni litu á mig með þvílíkum manndrápsaugum, að ég flúði sem fætur toguðu upp í bíl og keyrði af stað. Ég þorði ekki að horfast í augu við þá nógu lengi til að gera mér grein fyrir því, hvort þeir ætluðu að ráðast á mig, eða hvort þeir væru svona hræddir um að ég væri frá skattalöggunni, eða einhverri ennþá verri löggu (þori ekki að nota alþjóðlega hugtakið sem mér datt í hug). Og nú stenst ég ekki freistinguna - og birti þessar myndir í leyfisleysi. Ef þær hverfa skyndilega, eða það sem verra er, ef ég hverf skyndilega, þá vitiði ástæðuna.
Ég brunaði með hraði á bílaverkstæðið. En yfir húddunum húktu bara bláókunnugir menn. Þeir litu svosem ósköp íslendingslega út, en ég var orðin dáldið kvekt og tók enga sénsa, bauð þeim ekki einu sinni góðan dag, heldur strunsaði beint inn á skrifstofu. "Hvað ert þú að hanga hér yfir tölvunni" spurði ég máginn. "Ég er búin að leita í allan dag að vinnandi iðnaðarmanni, og get ekki einu sinni gengið að þér vísum undir bíl eða oní húddi". "Hvað eredda, veistu ekki til hvers Pólverjar eru" sagði mágurinn sallarólegur.
Þegar ég kom heim, sat bróðir minn við eldhúsborðið mitt. Hann sá EFTIR VINNU að ég hafði verið að reyna að ná í hann, svo honum datt í hug að kíkja við. Góð heimsókn, en ekki alveg gagnleg fyrir þemað.
Nú sé ég að þema komandi viku er; kirka. Sjúkket, þær eru þó vonandi allar á sínum stað.
En hvað varð um alla iðnaðarmennina? Ég bara spyr.
Athugasemdir
Já ég er alveg sammála manninum heldumínum "til hvers ru að pólverjar séu" jæja er að senda í fyrsta sinn vona að það virki þú ert frábær bloggari og fl elsku systir knús þar til næst
Mallý systir (IP-tala skráð) 26.11.2007 kl. 22:12
úbbs eitthvað skolaðist þetta til
Mallý systir (IP-tala skráð) 26.11.2007 kl. 22:19
Takk Mallý. Gaman að fá (loksins) komment frá þér.
Laufey B Waage, 26.11.2007 kl. 22:53
Elsku Laufey mín, komdu bara til Grindavíkur, hér er sko nóg af iðnaðarmönnum. Hangandi utaná blokkum og húsum, ofaní húddum og ég veit ekki hvað og hvað......
Þórunn frænka þín.
Þórunn Jóhannsdótir (IP-tala skráð) 26.11.2007 kl. 22:55
Gott þú ert ekki með yfir 30 putt Sara mín. Þá væru listaverkin þín örugglega eitthvað öðruvísi.
Man það næst Þórunn. Kem ekki seinna en í sumar.
Laufey B Waage, 27.11.2007 kl. 10:44
Guði sé lof fyrir pólska farandverkamenn. Án þeirra væri varla unnið handtak á Íslandi. Við erum að glata dagnaðinum sem reif okkur á sínum tíma út úr torfkofunum. Núna ætla allir að vera langskólagengnir og vinna við affallaskráningu, ábyrgðarmat og þarfagreiningu. Sérlega slæmt er ástandið í Reykjavík og nágrenni þar sem þeir fáu sem ekki sitja á skólabekk vinna við að selja hverjum öðrum bíla og raftæki. Ástandið er alveg eins hérna í Noregi. Ef ekki væri fyrir erlendu farandverkamennina myndi norska þjóðin svelta. En Norðmenn hafa þó alla vega efni á því að láta aðra vinna fyrir sig og allir vita hvers vegna. Hjá okkur er ruglið keyrt áfram á erlendum lántökum.
Mamma, Pólverjarnir hafa ábyggilega verið pirraðir yfir því að þú hafir ekki verið í vinnunni. Þeir hafa ekki vitað að þú byrjar ekki að vinna fyrr en þegar þeir taka seinna kaffið.
Jæja, ég ætla að hætta þessu röfli áður en kommentið mitt verður lengra en bloggið hennar mömmu.
Bjarki einkasonur (IP-tala skráð) 27.11.2007 kl. 10:49
Bjarki minn, þú fékkst orðsnilldina og pennafærnina greinilega í gegn um nafnastrenginn, svo þú mátt að skaðlausu röfla eins mikið og þú vilt á míns eigins bloggi.
Skál fyrir íslenskum farandverkamönnum í Noregi.
Laufey B Waage, 27.11.2007 kl. 10:59
Jamm hvar eru íslenskir verkamenn ?
Hvar eru íslensku iðnaðarmennirnir ?
Hvar eru íslensku sjómennirnir ?
Bráðum er hægt að spyrja hvar eru íslensku forritararnir ? því nú er planið að taka síðasta vígið þ.e. menntamennina. Við förum auðvitað bara að hafa það næs ekki satt.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.11.2007 kl. 11:00
Það ættu að vera nokkrir iðnaðarmenn uppi til fjalla í Kópavogi. Ég sé þá nú reyndar sjaldan enda eru flest húsin "innflutt" (eigendurnir fluttir inn) í kringum mig. En þeir eru greinilega ekki þar sem hægt er að ná í þá, sbr. ljósleysið á leikskólalóðinni.
Annars eru fullt af iðnaðarmönnum í vinnunni minni. Íslenskir meira að segja.
Þórdís
Þórdís Einarsdóttir, 29.11.2007 kl. 11:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.