4.12.2007 | 08:14
Kristinfræði.
Ég hef ekki snefil af áhuga á keppnisíþróttum. Það má jafnvel segja að ég sé þeim andsnúin. Ekki bara af því að þær riðja öðru fjölmiðlaefni úr vegi og hertaka mannlífið endrum og sinnum - öllu heldur vegna þess að þær brjóta niður tilfinningalega þau börn sem standast hvorki eigin væntingar né íþróttaumhverfisins - og þar erum við að tala um mjög mörg börn. Þegar keppnisíþróttafólk síðan vex úr grasi, taka við endalaus meiðsl og íþróttaslys. Ég gæti haldið lengi áfram að telja keppnisíþróttum ýmislegt til foráttu (þó ég sé fylgjandi ýmsum almennum íþróttum og hollri hreyfingu), en læt hér staðar numið.
Mér dettur þó ekki í hug að formæla þeirri staðreynd, að í öllum grunnskólum landsins fer fram íþróttakennsla. Og aldrei hefur það hvarflað að mér, að fara fram á að börnunum mínum sé hlíft við henni - eða hún hreinlega tekin af stundaskrá í grunnskólum landsins. Ég þykist nefnilega vita að yfirmenn menntamála geri þett í góðri meiningu - og ég vona að þeir hafi að leiðarljósi jákvæðu hliðarnar á íþróttaiðkun (sem eru ýmsar), þó alltaf sé sú hætta fyrir hendi, að einhver börn verði andsnúin faginu - og önnur verði fórnarlömb neikvæðra áhrifa keppninsíþróttaöfganna.
Það eru líka til einstaklingar í landinu (m.a. venjulegir íslenskir foreldrar), sem engan áhuga hafa á Kristnum fræðum. Sumir bera því fyrir sig að ekki séu öll börn á landinu alin upp á Kristnum heimilum. Ég þykist þó vita, að sú staðreynd að ákveðnir einstaklingar innan sumra Kristinna söfnuða eru öfgafullir bókstafstrúarmenn (og hreinlega ekki Kristnir að mínu mati) og koma óorði á allt það góða fagra og yndislega sem Kristnu líferni tilheyrir, - fæli fólk frá, og geri það andsnúið Kristnu samfélagi. Mér finnst það skiljanlegt.
Þó finnst mér að það fólk ætti að reyna að viðurkenna þá staðreynd, að yfirmenn menntamála hafi fagið inni í góðri meiningu, því ef vel er að kennslunni staðið (lesist; ef góðir kennarar, helst Guðfræði- eða kennaramenntaðir sinna hlutverkinu), þá er Kristindómurinn í eðli sínu mannbætandi, bæði fyrir einstaklinginn og samfélagið.
Ég get ekki séð að Kristinfræði, eða nærvera góðra Guðfræðimenntaðra manna skaði nokkra manneskju. Því þau ganga fyrst og fremst út á að rækta náungakærleikann og virðingu fyrir öllum manneskjum. Þá erum við að tala um hinn eina sanna Kristindóm, - sem prestar og aðrir Kristinfræðikennarar hljóta að leggja áherslu á. Síðan er það Guðstrúin, sem er jú partur af Kristnum fræðum. Hún á það sameiginlegt með öðrum trúarbrögðum, að þú velur að trúa því að til sé máttur þér æðri, sem er flinkari en þú að stjórna þínu lífi, - gerir þér lífið bærilegra og getur jafnvel bjargað lífi þínu. Ég sé ekki hvað getur verið skaðlegt við að kynna þann möguleika fyrir landsins börnum.
Á svipaðan hátt segi ég við sjálfa mig, að íþróttaiðkun sé í eðli sínu holl og góð hverri manneskju, sé vel að henni staðið (lesist; séu góðir kennarar til staðar, - íþrótta- eða kennaramenntaðir, sem leggja áherslu á leikgleði og heilbrigða hreyfingu sem eflir líkama og sál, - en reyna að forðast að börnin verði fyrir áhrifum keppnisíþróttabrjálæðisins). Á þeim forsendum er ég sátt við íþróttakennslu í skólum.
Mikið vildi ég að þeir sem engan áhuga hafa á Kristnifræði, eða séu henni jafnvel andsnúnir, reyndu að segja eitthvað svipað við sjálfa sig.
Er þetta ekki dáldið sambærilegt?
Að lokum vil ég benda á þá staðreynd (er þetta orð nokkuð að verða ofnotað í þessum pistli), að nánast daglega (alla vega í hverri viku) flæðir alls kyns ofbeldisfullur viðbjóður, í formi auglýsinga og "skemmtiefnis" yfir börnin okkar, bæði inni á okkar eigin heimilum (sjónvarp, tölvur, dagblöð, auglýsingabæklingar og fleira) sem annars staðar. Ég hef ekki orðið vör við að foreldrar eða félagasamtök - hvað þá menntamálaráðherra, skeri upp herör gegn þeim ósköpum.
Er ekki verið að ráðast gegn röngum áhrifavöldum. Ég bara spyr.
Athugasemdir
Eppli & appelsínur... íþróttir & trú eru algerlega ólíkir hlutir, ósambærilegir með öllu.
DoctorE (IP-tala skráð) 4.12.2007 kl. 08:40
Kristinfræði og íþróttir eru hvort tveggja kennslugreinar í skólum, alveg eins og epli og appelsínur eru hvort tveggja ávextir. Og öllum finnst eðlilegt að bæði epli og appelsínur séu seldar í matvöruverslunum, þó ekki hugnist öllum báðir ávextirnir (sumir eru meira að segja með ofnæmi fyrir ákveðnum ávöxtum en ekki öðrum).
Laufey B Waage, 4.12.2007 kl. 09:30
Jæja mamma. Mér finnst samlíkingin svosem ágæt hjá þér, þ.e.a.s. íþróttir og trúarbrögð. En má með sömu rökum ekki halda því fram að það að kenna kristnifræði, en ekki almenna trúabraðafræði eða einhvers konar andlega lífsleikni, sé eins og að láta krakkana bara spila fótbolta og ekkert annað í leikfimi?
Annars finnst mér fólk vera óþarflega viðkvæmt fyrir þessari kristnifræðikennslu. Persónulega finnst mér hún alger óþarfi, en ég held að það skaðist ekkert barn af henni. Í versta falli gætu einhverjir ruglast í ríminu sem eru aldir upp í annarri trú, en það er þá helst ef einhver rugludallur er að kenna kristnifræðina.
Eitt að lokum. Þú segir að keppnisíþróttir ýti öðru fjölmiðlaefni úr vegi og þvælist fyrir þér. Geturðu ímyndað þér hvernig jólafúlum manni eins og mér líður á þessum tíma árs? Ef það er fótbolti í sjónvarpinu, geturðu skipt um rás. Fyrir mig dugar ekki einu sinni að slökkva á sjónvarpinu, því jólaáreitið er alls staðar.
Bjarki einkasonur (IP-tala skráð) 4.12.2007 kl. 10:54
Auðvitað er betra ef hægt er að bæta almennri trúarbragðafræðslu og lífsleikni við námskrána - og líka að hafa íþróttirnar sem fjölbreyttastar. Ég verð þó að segja, að þú kennir best það sem þú ert góður í sjálfur. Þannig að góður Kristnifræðikennari og góður fótboltaþjálfari, - eru betri en þeir sem fálma í margt sem þeir hafa hvorki vit á né þjálfun í.
Laufey B Waage, 4.12.2007 kl. 11:07
Já. Ég er ekki viss um að þeir hjá Vantrú eða Siðmennt kaupi þessa samlíkingu. Eins og þú segir sjálf þá ert þú hlynnt líkamsþjálfun í hófi og í ákveðinni mynd og setur þig ekki upp á móti því að börnum landsins sé kennt þetta í skólum landsins. Þeir sem eru trúlausir eru hins vegar hreint ekki hlynnir því að börnum þeirra sé kennd kristni í neinni mynd, þó að hún sé væg eða til hennar vandað.
Mér finnst samlíkingin hans Bjarka nokkuð lunkin, að kristnifræðikennsla sé svipuð og að kenna bara eina íþrótt í leikfimi. Sú staðreynd að þetta séu þau trúarbrögð sem standa okkur næst og hafa mótað siðferði okkar finnst mér ekki nægjanleg rök fyrir því að leggja slíka ofuráherslu á þau í skólum. Ekki frekar en að mér fyndist í lagi að sonur minn lærði bara handbolta í leikfimitímum, þótt það sé hálfpartinn okkar þjóðaríþrótt (glíma hvað).
Ég veit að þú sérð ekkert slæmt í kristninni. Mér finnst líklegt að búddistar, múhameðstrúarmenn, gyðingar og aðrir sjái heldur ekkert nema gott í sínum trúarbrögðum og telji að öll börn hefðu gott af menntun í þeim. Þú manst samt kannski hvernig það var að vera ekkert yfir sig hrifin af einhverjum tilteknum trúarbrögðum. Það er ekkert erfitt að vera ánægður með strauma og stefnur ef þau samræmast manns eigin skoðunum. En hvað fyndist þér ef í skólum landsins væri kennt um múhameðstrú en engin önnur trúarbrögð? Eða ef það væri engin trúarbragðafræðsla en sérstaklega tekið fyrir í lífsleiknitímum að lífið þurfi engan guð til að útskýra tilvist sína, að trú geri þig veikari fyrir og skaði sjálfsmynd þína og tilvist almennt? Þetta eru hjartans mál og einlægar skoðanir fjölmargra foreldra skólabarna í dag. Kristnifræðikennsla í skólum er þeim jafn mikil nauðung og þessi ímyndaða staða væri fyrir þér.
Bara svona til umhugsunar.
Ef þú verður reið við að lesa þetta, þá veistu hvernig þeim ókristnu líður á hverju hausti þegar þeir lesa skólanámsskránna.
Tökum málið betur fyrir yfir næsta tebolla :-)
Berglind frumburður (IP-tala skráð) 4.12.2007 kl. 23:02
Hlustaður á börnin þín Laufey mín, þau eru með þetta meira á hreinu. Skynsöm og vel upp alin börn.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.12.2007 kl. 12:44
"Ég sé ekki betur en sýnt sé og sannað, að svo skal böl bæta, að benda á eitthvarð annað", söng meistari Megas. Mér virðist fólk dáldið gjarnt á að nota þessa yndislegu íróníu Megasar í fúlustu alvöru, - bara með öfugum formerkjum. Þ.e. fólk upp til hópa lætur sem svo að það rýri gildi Kristilegs uppeldis, að önnur trúarbrögð skuli vera til og að það sé til gott fólk sem afneitar trúarbrögðum. Sem betur fer er margt gott til í heiminum. Mér finnast epli góð, - og eplin mín verða ekkert verri - og eiga ekkert minni rétt á sér, þó ég viðurkenni að appelsínur séu líka góðar, sem og böns af öðrum ávöxtum.
Svo er ég ekkert að reyna að selja öðrum einstaklingum eða félagasamtökum mínar skoðanir, hugmyndir eða tilfinningar. Ég bara veit hvað Kristið uppeldi getur gert mikið gott - og mér finnst svo mikill skaði skeður, ef landsins börnum verður ekki gefinn kostur á þeim lífsgæðum. Því mér þykir vænt um börnin í landinu og ég vil þeim bara það besta.
Hvar eru annars allir sannkristnu vinirnir mínir? Af hverju kommenta þeir ekki? Kannski finnst þeim ég bara fullfær um að svara fyrir mig sjálf. Ég kýs að trúa því, þangað til annað kemur í ljós.
Svo vil ég meina að börnin mín séu miklu trúaðri og Kristnari en þau kæra sig um að viðurkenna. Það bara vill til að þau eru ekki bara vel upp alin, heldur hafa þau líka erft rökræðusnilldina (lesist ekki; þrasgirnina) frá móður sinni.
Laufey B Waage, 5.12.2007 kl. 23:06
Mér finnst fínt að við séum hóflega ósammála um þessi mál, mamma mín. Annars hefðum við ekki um eins mikið að tala. Nú höfum við sko nóg að ræða í vikunni fyrir jól.
Ég er samt í þínu liði að ákveðnu leyti. Ég er sammála því að vel framreiddur kristinn kærleikur er í sjálfu sér hollur, en mér finnst samt óþarft að opinberir skólar séu að bera hann fram. Þeir ættu að einbeita sér að almennum kærleik og manngæsku.
En gættu að því að ég segi óþarft, og nota ekki hugtök eins og "til skammar" eða "ólíðandi". Mér finnst margt mikilvægara en að taka kristnifræði út úr námsskránni og ég fæ hroll þegar þeir hjá Vantrú eða Siðmennt láta eins og þetta séu einhver stórkostleg mannréttindabrot og vilja gera alla trú eins lítið áberandi og hægt er. Þetta er sams konar þenkjandi fólk og kom á slæðubanninu í Frakklandi.
Persónulega finnst mér ýmis konar hefðir mikilvægari en það að öllum trúfélögum sé gert 100% jafnt undir höfði. Og þetta segi ég, hundheiðinn maðurinn. Til að mynda vil ég ekki breyta þjóðfánanum þó að krossinn sé þar áberandi, ég vil alls ekki breyta þjóðsöngnum þó hann sé sálmur (og meira að segja frekar drungalegur og forneskjulegur sálmur), og ég vil að alþingi verði áfram sett í Dómkirkjunni. Ég vil meira að segja hafa þjóðkirkju áfram, þó ég sé fullkomlega meðvitaður um hversu röklaust það er. Ég veit ekki af hverju ég vil þjóðkirkju, sennilega af sömu ástæðu og ég vil að Spaugstofan haldi áfram að eilífu. Sumt á bara að vera eins og það er, og hananú.
Bjarki (IP-tala skráð) 6.12.2007 kl. 15:17
Sæl frænka.
Á mínu heimili nærist mannskapurinn bókstaflega á keppnisíþróttum, aðallega körfubolta. Við hörfum öll tekið þátt í keppnisíþróttum
Við höfum öll verið alin upp við kristna trú og góða siði. Öll höfum við lært kristinfræði í skólanum. Þetta fer mjög vel saman. Heilbrigð sál í hraustum líkama.
Svo er það þannig að ef kroppurinn á drengjunum er aumur fer vel á því að nefna það í bænum sínum því að alltaf ber það árangur. Góður Guð gefur mér líka styrk sem ég þarf svo sannarlega á að halda fyrir og eftir erfiða og mikilvæga leiki. Þannig að allt fer þetta saman hér á bæ. Og það þarf ekki að vera neitt svo ólíkt.
En vissulega eru öfgvar í þessu eins og svo mörgu. Ég viðurkenni fúslega að hér á bæ eru töluverð læti oft á tíðum. Og kristinfræðikennsluna á alls ekki að taka út úr skólunum að mínu mati.
Geymi þig góður Guð Laufey mín,áfram Grindavík
Þórunn frænka þín.
Þórunn Jóhannsdóttir (IP-tala skráð) 6.12.2007 kl. 22:49
Það hlaut að vera að ég fengi jákvæð komment frá Þórunni frænku minni, bæði gagnvart Kristninni og keppnisíþróttunum. Ég beið bara eftir því. Og ég tek undir að hvort tveggja er af hinu góða, og hvort tveggja getur líka farið út í öfgar - og jafnvel snúist í andhverfu sína. Það gæti nú verið gaman að fara með Þórunni frænku minni á t.d. körfuboltaleik milli Grindavíkur og KR. Stefnum aððí Þórunn.
Það gleður mig, að sonur minn "hundheiðinginn" tekur ekki undir öfgafullar aggresjónir ákveðinna einstaklinga. En ég hlakka til fjörugra skoðannaskipta við morgunverðarborðið í þarnæstu viku.
Laufey B Waage, 7.12.2007 kl. 09:27
Veistu, næsti leikur er einmitt K.R.- Grindavík.
Leikurinn er "útí-KR" sem sagt í KR heimilinu um helgina. Og ég get sagt þér að mínir menn (á sko þfjá syni í liðinu) ætla að sýna KR-ingum hvernig á að spila körfubolta!!!! takk fyrir og sælir.
Smá dæmi um æsing og öfgva ha-ha.
Eigðu góða helgi mín kæra, áfram Grindavík!!!
Þórunn frænka þín.
Þórunn Jóhannsdóttir (IP-tala skráð) 7.12.2007 kl. 14:06
Ég (annar hundheiðingi) er sammála Bjarka hundheiðingja, að trúarbragðafræði ætti frekar heima í skólum sem eitthvað meira en bara kristnifræði. Alveg eins og íþróttir eru ekki bara fótbolti.
Ég tek samt ekki son minn út úr skólanum meðan prestar eru í heimsókn bara af því að við erum utan trúfélaga. Ég ætla heldur ekkert að banna honum að fara í fótbolta bara af því að mér þykir hann leiðinlegur en ég kem til með að styðja hann heilshugar í því sem hann velur sér. Vona bara að mér takist að ala hann þannig upp að hann velji ekki af því að allir hinir völdu heldur vegna þess að hann tók ákvörðun á eigin forsendum.
Þ
Þórdís Einarsdóttir, 7.12.2007 kl. 15:42
Það sem mér finnst áhugaverðast við þessa umræðu er: verður Palli viðstadur þegar þessar morgunverðarumræður fara fram?
Má þá senda þær út á netinu?
Ylfa Mist Helgadóttir, 7.12.2007 kl. 18:04
Þú hefði sem sagt viljað vera fluga á vegg, Ylfa mín, þegar fjölskylduprestinum Írisi frænku var boðið í sérlegt kaffi til að diskútera það hvort við Páll ættum að færa drenginn okkar til skírnar á sínum tíma. Því er skemmst frá að segja að þær diskúsjónir fóru afar friðsamlega fram og drengurinn var skírður. Þegar stúlkan fæddist hélt ég að umræðan hefði verið afgreidd "vons end for oll". En nei, það þurfti að taka málið upp að nýju. Ekkert sjálfgefið að mati Páls að maður láti skíra eitt barn bara af því að maður lét skíra annað. Full rökfastur sá. Eða pikkfastur. En barnið var nú skírt á endanum, þó ekki væri nema fyrir jafnræðið :-)
Berglind (IP-tala skráð) 7.12.2007 kl. 20:28
Páll fær sem sagt engu að ráða?
Þ
Þórdís Einarsdóttir, 7.12.2007 kl. 22:01
Sæl vertu. Ég tek undir með Ylfu, ég vildi gjarnan vera fluga á vegg þegar þessar umræður fara fram. Mín vegna mætti gjarna láta kristnifræðina heita trúarbragðafræðslu, þeim mun meiri fræðsla, þeim mun betra. Ég skil reyndar ekkert í Páli frænda mínum (tengdasyni þínum) vera kominn af prestum mann fram af manni (Hvítanesættin, oft nefnd biskupsætt í mínum legg (enda Jón biskup Helgason náfrændi okkar)) að þurfa eitthvað að ganga að því gruflandi að láta skíra börnin sín. En sem sagt, umburðarlyndið þarf að ganga í báðar áttir, og mér finnst heldur lítið hafa farið fyrir því hjá Siðmenntar/Vantrúarfólki upp á síðkastið. Ég gæti tekið langar rökræður um þessi málefni. Bestu kveðjur frá Siggu sóknarnefndarkonu.........
Sigríður Jósefsdóttir, 8.12.2007 kl. 11:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.