15.12.2007 | 15:58
Tónleikar, tollur, trivial og tilraunabakstur.
Vonandi hefur engum dottið í hug, að 10 daga blogghlé undirritaðrar sé vegna viðbragða við Kristinfræðipistlinum. Öðru nær, ég var mjög ánægð með kommentin. Ég ætla nú samt ekki að bæta trúmálum við ofstuðluðu fyrirsögnina á þessum pistli.Hins vegar hafa þeir lesendur sem þekkja mig, hafa líklega getið sér þess til, að pásan hafi verið sökum aðventuanna.
Og mikið rétt kæru vinir, annirnar voru í hámarki síðusta hálfa mánuðinn. Og þá erum við ekki að tala um jólakortaföndur, jólagjafakaup, bakstur eða þrif, heldur jólatónleika af öllum stærðum og gerðum (spilaði meira að segja "dinner" á tveimur jólahlaðborðum), - með tilheyrandi aukaundirbúningi og ofurálagi. Mér tókst samt ekki að toppa nokkra ára gamalt met, þar sem ég spilaði á 8 tónleikum á 5 dögum í röð. Og það met ætla ég mér aldrei að toppa. Frekar læt ég álagið felast í nýjum áskorunum, sbr."dinnerinn".
Á miðvikudaginn hægðist aðeins um, og þá gerði ég smá tilraun með jólabakstur. Ég hef nefnilega ákveðið að ég sé loksins orðin nógu sæt - og því sé að bera í bakkafullan lækinn að ég láti ofan í mig nokkurt það er inniheldur strásykur, púðursykur og þess háttar sætuefni. En gömlu góðu spesíurnar eru bara svo hrikalega góðar - og næstum því jafn ómissandi og rjúpan um jólin. Svo ég ákvað að gera tilraun. Sleppti sykrinum úr hefðbundnu spesíuuppskriftinni (að vísu með spelti í staðin fyrir hveiti), - helmingaði deigið, setti xylitol út í helminginn, en Agave-sýróp út í hinn helminginn.
Það er skemmst frá því að segja, að xylitol-helmingurinn varð alveg eins og hefðbundið deig að eiga við, og kökurnar aðeins í þurrari kantinum þegar að smökkun kom (samt góðar). Hins vegar varð Agave-helmingurinn að einhverri fáránlegri, gjörsamlega óviðráðanlegri drulluleðju. Ég var samt ekki alveg á því að gefast upp, heldur beitti öllum brögðum til að sletta klessunni á bökunarplötu, - og inn í ofninn fór hún. Mér gekk síðan furðu vel að ná henni (klessunni) af plötunni, braut hana í mola, - og viti menn - hún bragðaðist ótrúlega vel, eiginlega bara betur en strásykurspesíurnar. Og mín er búin að hesthúsa allt saman - og ætlar að baka meira fyrir jólin.
Þennan sama miðvikudag kom einkasonurinn alkominn til landsins, eftir tveggja ára "afplánun" í Skandinavíu. Strax morguninn eftir hugðist hann sækja sína gömlu góðu Möstu í hendur Samskipa og keyra á henni vestur í faðm fjalla blárra. Við Samskipsbryggjuna komum við að hliði, svo einkasonurinn hoppaði inn og spurði um bílinn. Jú, örlítið til baka áttum við að keyra, svo tæpan kílómetra í vesturátt, þá kæmum við að bílatorginu. Sem við og gerðum. En við þorðum auðvitað ekki inn á bílatorgið, án samráðs við annan vörð í öðrum húsi sem merkt var; Bílatorg. Sá vörður sagði okkur að keyra til baka að hliðinu, ásamt tæpum kílómetra í austurátt, hvar sjálf skrifstofan væri.
Ég hafði sem betur fer tekið Morgunblaðið með mér og fór langt með að lesa það, meðan starfsmaður skrifstofunnar tilkynnti einkasyninum að næst á dagskrá væri að fara með ákveðna pappíra á skrifstofu tollvarðanna, sem væri til húsa við Héðinsgötu. "Hún er í 105", tuðaði einkasonurinn þegar hann kom inn í bílinn, "af hverju er hún ekki hérna niðrá höfn?" Svo kepptumst við við að furða okkur á því að hvorugt okkar vissi hvar Héðinsgata væri, eins og við þóttumst nú þekkja 105, auk þess sem Héðinsgata hljómar mjög kunnuglega.
"Ég er búin að vera með símaskrá í bílnum í 25 ár (reyndar nýjasta eintakið hverju sinni), en ég tók allt út úr bílnum í gær, því ég hélt að þú værir með svo gegt mikinn farangur. Loksins þegar ég þarf á götukortinu að halda" sagði ég. Svo við fórum á sjoppu í 105, skoðuðum kortið vel og lengi með dyggri aðstoð almennilegrar afgreiðslukonu, - og héldum svo aftur til baka í austurátt, því auvitað var Héðinsgatan í þeim hluta 105, sem næstur er Samskipshöfninnni.
Tollurinn var hins vegar ekkert á því að hleypa einkasyninum á Möstunni vestur þann daginn. "Við áskiljum okkur 2-3 virka daga til að skoða bílinn og farangurinn. Viltu að við hringjum þegar hann er tilbúinn?" sagði tollarinn hinn rólegasti.
Ég ákvað að stytta einkasyninum biðina við símann, með því að skora á hann í Trivial. Honum fannst áskorunin nú ekki stór, hélt hann færi létt með að rúlla upp þeirri gömlu.
Ég hélt að ég væri fanatísk á íþróttaspurningarnar (sem eru í uppáhaldi hjá honum), en hann toppaði mig gjörsamlega, með fanatík sinni á brúnu spurningarnar (sem mér finnast skemmtilegastar). Hann fór aftur og aftur í öfuga átt við það sem hann hafði ætlað, bara til að vera ekki nálægt brúnum reit. Og þegar ég var búin að fá brúnu kökuna, harðneitaði hann að spyrja mig fleiri bókmennta-og lista-spurninga. "Gerðu aftur" sagði hann án þess að ég fengi spurningu.
Svo fór að lokum að ég vann með yfirburðum. Hann varð miður sín af harmi og hneykslan á sjálfum sér, og hyggur sér gott til glóðarinnar, að hefna harma sinna þegar hann kemur suður aftur eftir helgi. Já, það fór semsagt þannig, að Mastan er ennþá hjá Samskipum, einkasonurinn fór með öðrum bíl vestur, og tekur næstu viku í að ná henni á götuna.
Úps, kominn tími til að þeysa á Leifstöð og sækja tengdadótturina. Gott að ég er ekki búin að setja símaskránna aftur í bílinn, því ekki er hún (tengdadóttirin) með minni farangur. Eins gott þau komu í sitt hvoru lagi ungu hjónin, þau hefðu líklega ekki komist bæði í einu - ásamt farangri - í Yarisinn.
Njótið aðventunnar.
Athugasemdir
Elsku hjartans Laufey mín, í Guð almáttugs-bænum passaðu þrístinginn barn,
Og eigðu góða helgi kveðja Þórunn frænka þín.
Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 15.12.2007 kl. 16:21
bara að láta vita af mér knús á þig og þína á helgina
mallý systir (IP-tala skráð) 16.12.2007 kl. 00:13
Ætlaði að segja það, snappaði mynd af dýrinu inn á Langa Manga á föstudaginn, með mínum.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.12.2007 kl. 19:56
Brjálað að gera hjá minni. Hlustaðu á hana Þórunni. Ég man eftir þér í þessum ham.
Eigðu glöð og kát Jól elsku vina og sparaðu púðrið fram að áramótum.
Jón Steinar Ragnarsson, 18.12.2007 kl. 00:30
Gleðileg jól og farsælt komandi ár Laufey mín. Takk fyrir allt gamalt og gott.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 25.12.2007 kl. 12:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.