26.12.2007 | 23:25
Jólahefðir.
Það hríslast um mig andstöðuþrjóskuröskun, þegar ég hugsa um hefðir. Sér í lagi jólahefðir. Mér fannst beinlínis óþægilegt að skrifa þessa fyrirsögn. Það fer óstjórnlega í taugarnar á mér, þegar ég heyri fólk segja; ég borða alltaf skötu á Þorláksmessu, ég skreyti jólatréð alltaf á Þorláksmessukvöld, ég fer alltaf í messu á aðfangadagskvöld, ég geri alltaf þetta, ég geri alltaf hitt. Getur fólk ekki bara gert það sem það langar til, burtséð frá því hvort það hefur alltaf gert það, stundum, sjaldan eða aldrei? Það er eins og fastar hefðir séu eini hvatinn fyrir gjörðum fólks um jólin.
En ef fólk vill endilega hafa þetta svona, þá er það svosem í lagi, bara ef það gengur ekki út frá því sem staðreynd, að þannig sé það líka hjá mér. Andstöðuþrjóskuröskun mín verður þá fyrst alvarleg, þegar fólk skellir á mig setningum á borð við; þú hefur alltaf rjúpur um jólin, þú föndrar alltaf jólakortin sjálf, þú ert alltaf með möndlugrautinn í hádeginu á aðfangadag, o.s.frv.
Ég held jólatónleika með öllum mínum nemendum af því að mér finnst það ofboðslega skemmtilegt (þrátt fyrir mikla vinnu og ofurálag), en ekki af því að ég þurfi það, eða hafi gert það að hefð. Ég borða rjúpur á jólum, því þær eru besti matur sem ég fæ. Ég fæ oft virkilega skemmtilega jólakortahugmyndir sem mér finnst gaman að framkvæma (þó ég sé langt frá því að vera flink á föndursviðinu. Ég baka spesíur á aðventunni af því að mér finnst þær ofboðslega góðar. Ég heimsæki mömmu á jóladag, af því að það gleður hana (og okkur hin í leiðinni). En ef ég fæ hugmyndir að betri mat, öðruvísi jólakortum, eða bara einhverju öðru, þá hika ég ekki við að gera það, þó ég hafi aldrei gert það áður, og sleppi á móti einhverju sem ég hef oft gert áður. Fyrir mig hafa hefðir, hefðanna vegna, ekkert gildi í sjálfu sér.
Ég verð þó að viðurkenna, að margt af því sem ég "hef alltaf haft" er mér mikils virði. EKKI þó vegna hefðanna einna, heldur vegna þess að mér þykir það fallegt, skemmtilegt eða gott. Í þeim flokki er t.d. þessi jólaljósasería. Fyrstu jólin sem ég hélt alveg sjálf (18 ára), föndraði þáverandi sambýlismaður, barnsfaðir, unnusti og verðandi eiginmaður hana úr plastskrauti og skrautlausri seríu. Mér finnst hún ofboðslega falleg, en á hverri aðventu fæ ég nettan kvíða yfir því að einhverntíman hljóti hún að komast á aldur og deyja. En þessa aðventu, varð ég jafn alsæl og síðustu 33 ár, yfir því að hún lifir enn og hefur aldrei klikkað.
Úps, tíminn líður hratt, ég er á leið á hið árlega Millaball, sem byrjar rétt bráðum. Best að taka það fram, áður en ég hætti, að aðventan og jólin eru búin að vera alveg einstaklega unaðsleg hjá mér. Og ég hyggst njóta jólanna áfram, burt séð frá öllum hefðum.
Gleðilega hátíð elskurnar. Njótið jólanna.
Athugasemdir
Sæl frænka, vonandi hefur þú haft það gott yfir jólin. Hér á bæ eru allir hressir og kátir og okkur líður vel.Við borðum mikið, lesum, pússlum,horfum á sjónvarp, heimsækjum ættingja og vini sofum mikið og svo æfa drengirnir körfubolta af kappi bæði með félagsliði og landsliði. Hérna er sko nóg að gera.
Varðandi hefðir finnst mér þær vera af hinu góða. Ég er mjög vanaföst og er lengi að aðlagast breytingum, þær eiga hreinlega illa við mig. Ef ég breyti hefðum eða því sem er venja að gera eða hafa þá verð ég að undirbúa vel. Dæmi um mínar hefðir (venjur) er að fara í kirkjugarðin á þorláksmessu og strax á nýja árinu, jólaboð hjá tengdafjölskyldu á jóladag þar sem borðað er hangi- kjöt. Dæmi um þegar hefðum er breytt, við systkinin erum vön að hittast á annan jóladag (gerðum líka þegar mamma lifði). Við högum því þannig að við systkinin skiptumst á að hafa þetta boð en allir leggja eitthvað tvennt á kaffiborðið. Hvað heldurðu að Hrafnhildur geri, hún ætlar að hafa boðið á laugardag!!! Og mín þurfti að taka sig taki til að byrja með, setjast á hendurnar til að rífa ekki upp símann og hringja í hana og skammast, aumingja Óli fékk fyrirlestra-romsu um hverslags þetta væri og fram eftir götunum. Hann benti mér á þegar hann komst að, að þetta væri nú sjálfsagt betra fyrir Hrafnhildi og hún réði þessu vegna þess að þetta væri heima hjá henni. En Óli sagði ég. þetta hefur "alltaf" verið á annan. Svona getur maður verið, dottið í eitthvað sem alls ekki skiptir máli. Aðalatriðið gleymdist hjá mér, þ.e. að hittast öll, alveg sama hvenær!!!
Jæja frænka það var nú bara til gamans gert að segja þér frá hvað ég get stundum verið skrítin, vonandi hafið þið það gott um áramótin og á nyja árinu, sjáumst vonandi fljótlega+
Þórunn frænka þín.
Þórunn (IP-tala skráð) 27.12.2007 kl. 11:53
Vonandi hefurðu skemmt þér vel á Milla balli Laufey mín. Jamm þetta með hefðirnar er dálítið afstætt. Auðvitað er það fyrst og fremst af því að þannig vill maður hafa hlutina, en ekki út af einhverrjum vana eða hefð, hvort sem manni líkar betur eða verr.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.12.2007 kl. 12:12
Já Þórunn mín, það kemur mér ekki á óvart að lesa þetta úr þínum penna. Systurnar frá Akbraut voru og eru einmitt mjög gott dæmi um hinn dæmigerða íslenska jólahefðakrampa, sem við erum báðar aldar upp í (til glöggvunar fyrir óskylda lesendur, þá erum við Þórunn dætur tveggja af systrunum frá Akbraut). Og lögmálið um ýkt uppeldi er það; að annað hvort ferðu í sama farið, eða gerir uppreisn. Og af því að ég er jafnvel ennþá betur alin upp en þú (og er þá mikið sagt), þá byrjaði ég ekki á andstöðuþrjóskuröskunartímabilinu fyrr en eftir að ég varð fullorðin.
Megi sönn jólagleði ráða ríkjum (eða ríða rækjum eins og útvarpsmaðurinn sagði) í jólaboð Hrafnhildar á laugardaginn. Bið að heilsa öllum systkynunum.
Laufey B Waage, 27.12.2007 kl. 12:18
Takk Ásthildur. Ég skemmti mér þrusu vel. Dansaði villt og galið við minn heittelskaða.
Laufey B Waage, 27.12.2007 kl. 12:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.