Jólakonfekt.

Jólakallar sax og nikkaÉg verð að viðurkenna, að ég fékk smá bakþanka eftir síðustu færslu. Að ég, - blíðlynda, þakkláta, alsæla jólabarnið - skuli hafa verið með svona tittlingaskítstuð. Og það á sjálfum jólunum. Ég verð þó líka að viðurkenna það, að tuðið virkaði. Mér finnst ég hafa losnað að mestu leyti við þessa jólahefðaandstöðuþrjóskuröskun eftir að ég lét hana frá mér með þessum hætti. Það veit aldrei á gott að byrgja tilfinningar og hugsanir inni. Tilfinningatorgið sem Elísabet Jökuls kom á laggirnar hér um árið, var stórkostleg hugmynd. Einhverra hluta vegna fór ég aldrei þangað til að tjá mig, en ég færi örugglega núna, ef það yrði endurvakið. Eins hefur mér oft dottið í hug, að við sem ekki erum kaþólsk, ættum samt að getað skriftað með einhverjum hætti.

Jólakonfekt Svo er heldur ekki eins og það hafi legið eitthvað illa á mér þessi jólin. Þvert á móti. Ég hef notið lífsins fram í fingurgóma. Ég er að vísu vön að njóta lífsins og láta mér líða vel um jólin, en ég gekk svo langt að toppa sjálfa mig í þeim efnum að einu leyti.

Þetta eru nefnilega fyrstu sykurlausu jólin mín. Eftir að hafa áratugum saman kvalist af því sem einkennir ofvirkan sætindafíkil, ákvað ég loks í janúar síðastliðnum, að eina leiðin út úr því rugli, væri að tækla þetta eins og aðrar fíknir, með 12 spora aðferðinni, einn dag í einu alla æfi.

Og þvílíkur léttir. Það fann ég best nú á aðventunni. Undanfarnar allt of margar aðventur hef ég nefnilega verið undir miklu vinnuálagi, þannig að ég hef haldið mér gangandi (eða ofvirkri) á 3-4 súkkulaðistykkjum með hverjum kaffibolla. Dottið oft á dag niður í sykurfall - og náð mér upp aftur með sama hætti (svona svipað og nikotínfíklar þurfa að kveikja í nýrri á ca klukkutíma fresti).

Jólakallar hlæjandiEn nú er öldin önnur. Aldrei neitt sykurfall, eða sjúkleg löngun í óstöðvandi sætindasukk og þvílíkan óhemjugang. Og alltaf jöfn og góð orka og jafnvægi. Svo kemur hæfilegt þyngdartap sem hver annar aukabónus. Vanalega hef ég þyngst um 4-6 kíló frá nóvember fram í janúar, en í dag er ég rúmu kílói léttari en ég var í byrjun nóvember. Samt hef ég notið þess að borða eins og mig lystir af alls kyns jólamat, sykurlausum smákökunum og jólakonfektinu sem ég "föndraði" sjálf, - að ógleymdum öllum gúmmolaðisostunum sem ég fékk upp úr tveimur jólapökkum.

Og nú ætla ég að fara að spila Partý og co við stjúpsynina og minn heittelskaða. Blogga kannski um jólaspil á morgunn.

Lifið heil. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Laufey Waage þú ert stórkostleg!!!!

Þetta er glæsilegt hjá þér, það er nefnilega svo gott að geta tekið einn dag í einu.

Svo á maður alltaf að segja satt og þess vegna viðurlenni ég fyrir þér að ég dauðkvíði jólaboðinu sem á að vera á annan en verður á morgun hjá Hrafnhildi systur minni. Það var nefnilega afmæli hjá Vigni Berg bróðursyni mínum áðan og það voru strax byrjaðar óáægjuraddir í Sigríðarsonum. Guð minn góður svona getur þetta verið.

Eigður góðar stundir +

Þórunn frænka þín.

Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 28.12.2007 kl. 22:51

2 identicon

Ég viðurkenni ekki lenni!!!

Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 28.12.2007 kl. 22:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband