29.12.2007 | 15:00
Jólaspil
Almennilegheitum mínum eru bara engin takmörk sett um þessar mundir. Haldiði ekki að við Sindri höfum leyft Hannesi og Daníeli að vinna okkur í Partýspilinu í gærkveldi. Ja hérna, hvað gerir maður ekki til að hafa sinn mann góðan.
Og ekki nóg með það. Á jóladag spiluðum við gömlu hjónin Trivial við ungu hjónin í Skaftahlíðinni. Og við leyfðum þeim ungu að vinna. Það var reyndar dáldið erfitt, við fengum 6. kökuna um svipað leyti og þau, en svo létum við þau fá hrikarlega létta lokaspurningu á höfuðreitnum. Þessi góðsemi okkar kom nú eiginlega bara til af því, að þau buðu upp á svo góða osta. Svo þótti okkur líka nauðsynlegt að gleðja tengdasoninn, svo hann fengist til að spila fljótlega aftur (lokaspurningin var ekki bara lauflétt, heldur á einu af hans sérsviðum).
En á heimavelli var ég ekki alveg svona elskuleg. Ég hikaði ekki við að sigra eiginmanninn og heimasætuna í Triviali á aðfangadagskvöld, og í fyrrakvöld rústaði ég mínum heittelskaða í bráðskemmtilegu rummikub.
Þetta er eitt af því unaðslega við jólafríið, að geta skemmt sér við alls kyns spil, hvenær sem skemmtilegir spilafélagar eru tilkippilegir.
Ég hlakka til kvöldsins. Þá förum við í "skákpartý". Þ.e. í partý til nýgiftra hjóna, sem kynntust í gegnum skáklistina - og ég geri ráð fyrir að við hjónin verðum einu gestirnir sem aldrei hafa teflt á skákmóti (ég kann nú samt mannganginn). Ég bauðst til að taka með mér spurningaspil, en það var afþakkað. Ég fæ sem sagt ekki að vera partýkiller. Jæja þá, - þá verð ég bara skemmtileg.
Lifið heil.
Athugasemdir
Þú hefur ekki þorað annað en að tapa fyrir tengdasyninum en ég skil það alveg, það finnast varla tapsárari menn.
Þ
Þórdís Einarsdóttir, 29.12.2007 kl. 23:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.