30.12.2007 | 14:56
Skák.
Allt getur nú gerst. Haldiði ekki að mín hafi tekið þátt í skákmóti í gærkveldi. Og það með landsfrægum meisturum í listinni. Ég sem hef ekki snert á taflmanni síðan ég kenndi syni mínum mannganginn einhvern tíman snemma á 9. áratugnum.
Við vorum 11 (sá tólfti fékk skyndilegan hausverk og flúði af vettvangi, þegar hann gerði sér grein fyrir að hann gæti hugsanlega lennt með mér í liði), og meiningin var að 2 og 2 væru saman í liði og léku til skiptis, án leiðbeininga frá sínum liðsmanni!!. Þar sem 11 er oddatala, var ákveðið að 3 væru í einu liðinu. Ég sá mér leik á borði (mín bara farin að tala skákmál) og bauðst til að vera bara á myndavélinni, því það fer mér illa að taka þátt í einhverju sem ég er léleg í. En það var sama hvað ég barðist um og varaði þau við, það tók enginn í mál annað en ég væri gildur tátttakandi.
Í upphafi stóð til að hinir 5 stigahæstu á staðnum (já við erum að tala um ELO-stig, eða hvað það nú heitir) veldu sér meðleiksmann úr "úrkastinu". Þá fyrst fór mér alvarlega að líða eins og feitu stelpunni í leikfiminni, sem alltaf er valin síðust í brennóliðið. En svo varð úr, að þessir 5 voru látnir draga nöfn okkar hinna úr potti.
Guðlaug Þorsteinsdóttir dró mig. Jess - hún er frábær, hugsaði ég, henni tekst örugglega að draga mig örlítið upp á við. En ég verð að segja, að ég varð fyrir vonbrigðum með Guðlaugu. Ekki að það hafi neitt með mína skáksnilld að gera að við urðum í neðsta sæti. Í það minnsta sýndi hún engin merki um vonbrigði, hneykslan eða skömm yfir (af-)leikjum mínum þessi elska (hún er reyndar geðlæknir). Þess í stað hrósaði hún mér fyrir hina örfáu góðu leiki sem ég lék, og fannst ég bara fyndin í mörgum afleikjunum.
Það eina sem hún hafði uppálagt mér, var að vera snögg að leika og ýta á klukkuna. Ég stóð mig bara nokkuð vel í því. Samt tókst okkur ekki að fella neinn á tíma. Það var smá svekkelsi.
Segiði svo að allt geti ekki gerst.
Athugasemdir
Vonandi dettur engum í hug að ég hafi Í ALVÖRU orðið fyrir vonbrigðum með Guðlaugu. Það er auðveitað bara minn persónulegi húmor að taka svona til orða.
Vil líka taka fram, að ég hef aldrei gert neitt meira en að kunna mannganginn. Ég held að sonur minn hafi ekki verið byrjaður í grunnskóla þegar hann fór fram úr mér í skáksnilldinni og skyldi ekkert í mér, þegar hann vildi tefla við mig - og ég sagðist ekkert kunna að tefla. "Já en mamma - þú kenndir mér að tefla".
Laufey B Waage, 30.12.2007 kl. 15:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.