Jólabækur.

Jólabækur 07Alltaf er ég jafn ótrúlega lánsöm. Ég hef stundum leitt að því hugann, hvort aðfangadagskvöldið mitt og jólanóttin mín yrðu nokkuð svipur hjá sjón, ef ég fengi enga bók í jólagjöf. En sem betur fer hefur aldrei reynt á það. Laufey lukkulega hefur alltaf getað farið með nýja bók upp í hreinu sængurfötin á aðfangadagskvöld.

Svo er það svo stór partur af jólunum mínum, að geta lagst upp í rúm eða sófa hvenær sólarhrings sem er, og gleymt mér yfir góðri bók. Unaðslegt líf.

Reyndar tók ég forskot á sæluna að þessu sinni. Ein vinkona mín hvíslaði því að mér í lok nóvember að hún væri búin að kaupa nýja Arnaldinn og væri að verða búin að lesa hana. Ég fór svo til hennar fyrsta sunnudag í aðventu og fékk hann lánaðan og kláraði hann fyrir jól. 

Við Berglind endurtókum gamlan brandara. Ég setti Þúsund bjartar sólir ekki efst á jólaóskalistann, vegna þess að ég hafði keypt hana handa Berglindi (frumburðinum mínum). Það klikkar ekki, að gefa henni bók, sem mig sjálfa langar í. Hittir alltaf í mark. Það sama hugsar hún oft líka - og ég fékk Þúsund bjartar sólir frá henni. Það varð að samkomulagi að ég skipti minni.

Hins vegar setti ég Heilræði lásasmiðsins efst á óskalista. Og fékk hana frá heimasætunni (mikið sem allir eru alltaf góðir við mig). Ég kláraði hana í gær. Og mikið ofboðslega er hún góð. Elísabet Jökuls er algjör snillingur. Ég hef lengi verið aðdáandi hennar. Og þá erum við bæði að tala um bækur hennar og blaðagreinar. Ég man t.d. alltaf eftir einni blaðagrein, þar sem hún hafði fundið hjá sér skyndilega þörf fyrir að fara í fallegan kjól, fleygja tvíburunum inní gamla Sabinn, og þjóta upp að Gullfossi til að dansa við hann. Og auðvitað framkvæmdi hún þessa frábæru hugmynd. Yndislegt. 

Og Heilræði lásasmiðsins er það langbesta sem ég hef lesið eftir hana. Ég var spurð í gærkveldi hvort mér þætti hún ekki of nærgöngul, en það finnst mér alls ekki. Ég kann þvert á móti vel að meta svona einlægni og heiðarleika. Svo er hún líka svo vel skrifuð. Ég fékk strax á fyrstu síðunum þá tilfinningu, að þessa bók gæti ég lesið aftur og aftur, bæði í heild sinni og í smærri bútum. Einhvern tíman heyrði ég því fleygt, að sú bók sem væri ekki þess virði að vera lesin tvisvar, hún væri ekki þess virði að vera lesin einu sinni.

Nú er eiginmaðurinn farinn að reka á eftir mér í Scrabblið sem við ætluðum að spila.

Lifið heil. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband