Merkilegast.

risessan í trjánumÞegar ég sé í fjölmiðlum að fólk á förnum vegi er spurt álits á einhverju, þá beiti ég umsvifalaust mínum snöggu snarviðbrögðum, og reyni að koma með mitt eigið svar, áður en ég heyri svörin þeirra. Stundum kemur jafnvel upp í mér löngun til að vera spurð álits. Af því svörin mín eru auðvitað alltaf svo miklu merkilegri en svör þeirra sem spurðir eru.

En aldrei er ég spurð. Kannski er ég einfaldlega aldrei að þvælast um Kringluna eða Austurstrætið (ég geng reyndar mjög oft Austurstrætið), rétt á meðan fjölmiðlafólk fýsir að vita álit almennings. Og kannski líka eins gott. Einhvern vegin grunar mig að lítið gæti orðið úr stærilætinu, ef til þess kæmi. Auk þess sem ég yrði örugglega bara óheppin og fengi einhverja spurningu um eitt af því fáa sem ég hef hvorki skoðun né áhuga á. 

En það eru margar vikur eða mánuðir síðan það kom upp í huga mér löngun um að vera spurð í árslok, hvað mér hefði nú þótt merkilegasti viðburðurinn á árinu. Þá hefði mér nú ekki vafist tunga um tönn.

Risessa í sturtuÉg gæti auðvitað tínt til eitt og annað persónulegt, t.d. það að ég byrjaði að blogga. Ýmsar ánægjulegar breytingar og viðburðir hafa líka orðið í minni fjölskyldu (flutningar, úrskrift, bílpróf o.fl.). Auk þess sem líf mitt og líðan hefur aldrei verið betra. 

Svo er líka af ýmsu að taka í samfélaginu: Kristnifræðiumræðan, Lúkasarfárið, Borgarstjórnarskiptin, Eldsvoði í miðbænum, o.m.fl.

Nú þykir ykkur væntanlega eins og mér, að formálinn sé orðinn nógu langur, svo ég vind mér beint í sjálft svarið.

Sem er auðvitað: RISESSAN. 

Bara sjálf Risessan, ásamt öllu þessu stórkostlega götuleikhúsi, sem henni fylgdi, er eitthvað það stórkostlegasta sem ég hef séð fyrr og síðar. Hugur minn og hjarta, ásamt öllum mínum skynfærum hófust í hæstu hæðir. Auk þess að elta uppi með myndavélina, alla skemmdarstarfsemi föður hennar, var ég svo heppin að eiga kost á að fylgja henni hvert fótmál í þremur sýningum af fjórum. 

pissurisessaMig skortir sjaldan orð, en öll þessi sýning var bara svo stórkostleg, að ég finn ekki ennþá (síðan í maí) nógu sterk orð til að lýsa henni. Ég vona bara að sem flest ykkar hafi fengið að njóta hennar. Það er alveg á hreinu að hún lifir í minni minningu og yljar mér um hjartaræturnar for the rest of my life, eins og maður segir á góðri íslensku. 

Ég veit ekkert hverjir báru kostnaðinn af þessari sýningu (sem hlýtur að hafa verið töluverður). En ég er þeim ævinlega þakklát - og vil að þeir viti, að hún var víst örugglega hverrar krónu virði.

En þá er þessu fyrsta (hálfa) bloggári mínu að ljúka. Ég þakka ykkur öllum fyrir lesturinn og kommentin. Ég stend mig stundum að því að langa í fleiri komment, en ég gleðst þó ekki síður, þegar ég heyri um alla þá sem lesa sér til mikillar ánægju, án þess að kommenta.

Svo bara óska ég þess að þið njótið alls þess sem nýja árið ber í skauti sér.

Lifið heil. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl frænka,

Jólin þín eru aldeilis búin að vera góð og viðburðarrík. Þannig á það líka að vera. Ég hef líka átt góð og viðburðarrík jól. Ýmsar breytingar á "hefðum" og hvað eina.  Jólaboðið hjá Hrafnhildi gekk vel og allir voru kátir þrátt fyrir breytingar, Páll Óskar bennnti samt á að það væri rugl að vera að rugla með þetta. En allt í góðu.Ég er eins og þú alltaf ánæðust með þær bækur sem ég fæ, fékk tvær og er alsæl. Aldrei spila ég þó á jólanótt, það eru lög!!!

En kæra frænka mín, vonandi verður nýja árið gott og gjöfullt hjá þér og þinni fjölskyldu. Ég veit að mitt verður það!!! Það hefur veitt mér gleði og ánægju að fylgjast með skrifum þínum á blogginu haltu því áfram.

Eigðu gott kvöld og bestu kveðjur til þinna.

Þórunn frænka þín.

Þórunn Jóhannsdótir (IP-tala skráð) 31.12.2007 kl. 13:27

2 identicon

Elsku systir ég vil byrja á því að þakka þér fyrir allar góðu skemmtilegu og kærleiksríku stundirnar á árinu það er svo gott að eiga þig að og ef ég byggi lika í höfuðborgini væri ég örugglega inn á gafli hjá  þér  þakkaðu  fyrir að það er ekki  Jæja hafðu  þa ð gott á faðmi fjölskylduranninar .Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla til ykkar allra ,kveðja frá mér og mínum

Mallý systir (IP-tala skráð) 31.12.2007 kl. 15:00

3 Smámynd: Þórdís Einarsdóttir

Á ég að trúa því að ykkur hafi ekki þótt friðarsúla Yoko merkilegasti atburður ársins? Það þótti þeim í útvarpinu.

Gleðilegt ár.

Þ 

Þórdís Einarsdóttir, 1.1.2008 kl. 15:24

4 identicon

Gleðilegt nýtt ár elsku Laufey og takk fyrir gamla. Les bloggið þitt reglulega en er ekki dugleg að kvitta fyrir mig. Það er mjög gaman að lesa skrifin þín.  Vona að nýja árið verði þér og þínum gott og yndislegt. Selfosskveðja, Erla B

Erla Birgis (IP-tala skráð) 1.1.2008 kl. 23:05

5 Smámynd: Laufey B Waage

Takk fyrir kommentin elskurnar. Gleðilegt ár og takk fyrir gamla.

Laufey B Waage, 1.1.2008 kl. 23:08

6 identicon

Þori ekki annað en að kvitta fyrir mætingunni Ég er þér sammála með risessuna. Maður varð bara væminn að sjá hana aftur í fréttaannálnum.

Berglind (IP-tala skráð) 2.1.2008 kl. 17:18

7 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Berglind! Ég man ekki betur en við höfum legið flatar á kaffi mílanó einmitt þegar risessan gekk um borgina? Er það misminni? Þetta með latte og karamellusýróp, trúnó og sólbruna, alltof margar sígarettur og rasseymsli af kyrrsetunni???

Gleðilegt ár annars Laufey mín og takk fyrir liðið ár/bloggár!

Ylfa Mist Helgadóttir, 4.1.2008 kl. 05:49

8 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Gleðilegt ár!  Ég missti af Risessunni og mun eflaust aldrei bíða þess bætur!

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 4.1.2008 kl. 10:59

9 identicon

Jú, Ylfa, ég held að þetta sé ekkert misminni hjá þér. En risessan fór nokkar ferðir um borgina, og við familían náðum einni , sem betur fer. Svo voru þessi frábæru skemmdarverk risans sem fóru ekki fram hjá manni.

Annars var þetta með eftirminnilegri kaffihúsaferðum, og fer áreiðanlega á listann yfir hápunkta ársins hjá mér .

Berglind (IP-tala skráð) 5.1.2008 kl. 21:13

10 Smámynd: Guðrún Markúsdóttir

Takk fyrir innlitið á síðuna mína. Gleðilegt ár og til hamingju með afmæli mannsins þíns - og bestu kveðjur til hans! Jú, ég gæti vel hugsað mér að koma í heimsókn til Reykjanesbæjar að fylgjast með Suzukikennslu. Er reyndar í ársleyfi frá tónlistarkennslu í vetur og framtíðin á þeim vettvangi öll í óvissu. Það skýrist þó vonandi með vorinu og þá er aldrei að vita hvað gerist.

Sjáumst á nýja árinu!

Guðrún Markúsdóttir, 8.1.2008 kl. 22:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband