23.1.2008 | 10:31
Myndefnisklúður.
Ég hélt ég stæði á traustum snævi þöktum graskanti, þegar ég tók þessa mynd.
Þetta var í fyrradag. Á mánudögum fæst ég við undirleik við Suzuki-fiðludeild Tónlistarskóla Reykjanesbæjar - og þennan dag skrapp ég í hádegisgöngu með myndavélina.
Og sem ég stend þarna í rúmlega ökkladjúpum snjónum og munda myndavélina, brestur skyndilega eitthvað undir öðrum fæti mínum og sekúndu seinna undan hinum - og ég stend í ísköldu (í orðsins fyllstu merkingu) vatni upp að hnjám. Snjórinn var semsagt yfir örþunnum ís á vatninu, en ekki graskanti.
Það kemur auðvitað á mig fum og fát, þar sem ég get bara hugsað um það tvennt, að passa myndavélina og koma mér upp úr. Ég tímdi ekkert að velta fyrir mér hættu á frosnum fótum, því við blasti fullt af skemmtilegum myndefnum - og tæpir tveir kílómetrar voru í tónlistarskólann.
Ég var komin u.þ.b. 500 metra í burtu og búin að taka slatta af myndum í viðbót, þegar ég kveikti á perunni: "Hvað er að þér Laufey, af hverju tókstu ekki mynd af þínum eigin fótum ofan í klakavatninu? Þú varst meira að segja með myndavélina í hendinni" Þvílíkt klúður.
Ég var sem betur fer í kjól (stuttum), því ég þurfti að sjálfsögðu að fara úr leggings-buxunum, ásamt auðvitað skóm og sokkum - vinda og geyma á ofnum í skólanum, á meðan ég spilaði berleggjuð í nokkrum Suzuki-hóptímum.
Aðeins ein stúlka gerði athugasemd við beru leggina, og ein (ekki í sama tímanum) spurði hvaða lykt þetta væri við ofninn (sem sokkarnir voru á).
Ef þið viljið sjá fleiri myndir, sláið inn: flickr.com/photos/laufeywaage.
Njótið íslenska vetrarveðursins.
Athugasemdir
Elsku Laufey mín af hverju ertu svona illa klædd barn, Þú gætir "forskalast".Og í Guðs almáttugs bænum ekki fara of nálægt ráðhúsinu í Reykjavík!!!
Bestu kveðjur úr Grindavíkinni Þórunn frænka þín.
Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 23.1.2008 kl. 17:18
Labbaðir þú tvo kílómetra í frosti, ísvatnsblaut upp að hnjám? Það sem við systkinin hefðum fengið skammir fyrir svona kjánaskap! Gastu ekki hringt í einhvern? Farið og hlýjað þér í Bónus? Hver ól þig eiginlega upp?
Berglind (IP-tala skráð) 23.1.2008 kl. 23:20
Berglind mín, sú sem ól mig upp, kenndi mér að bíta á jaxlinn og bölva í hljóði, - brosa gegnum tárin og allt það, að ógleymdum Pollýönnuleiknum. Mér fannst svo gaman að ösla snjóinn og taka myndir, að það hvarflaði ekki að mér að ég væri hjálpar þurfi eða í nokkrum vandræðum. Held mér hafi heldur ekki orðið meint af.
Þórunn, - ég á enga sök á því sem gerðist í ráðhúsinu augnabliki eftir að ég var að afmynda á þeim slóðum.
Sara mín, ég bara skil ekki um hvaða lykt stúlkubarnið var að tala. Það hlýtur að hafa verið einhver fuglaskítur eða því um líkt í þessu vatni. Alla vega hef ég aldrei vitað hvað táfýla er (ef einhverjum datt það í hug), - þvert á móti hef ég alla tíð þjáðst af ofurþurrki á iljunum.
Laufey B Waage, 24.1.2008 kl. 11:53
ég skil ekkert í þér að hafa ekki labbað frekar til mágs þíns og mannsins mín sem vinnur þarna nokkrum skrefum frá og hann hefði sko örugglega skutlað þér í vinnuna ,það hefði ég gert en ég hefði samt örugglega hringt í einnhvern og þótt við séum aldnar upp af sömu manneskju er ég kammski eins dugleg í Póllýönnuleiknum
Mallý (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 15:04
afsakið þetta átti að vera :kannski ekki eins
Mallý (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 15:09
Mallý mín: Þessi hádegisganga mín var þannig til komin, að ég fór með bílinn minn á verkstæðið til mannsins þíns - skildi hann þar eftir og labbaði til baka í tónlistarskólann. Hann spurði mig auðvitað þessi elska hvort einhver ætlaði að skutla mér, en ég sagðist frekar vilja ganga. Þannig var nú það.
Laufey B Waage, 24.1.2008 kl. 20:57
Ok það hlaut að vera , þessi elska er svo mikið í vinnunni að fréttir eru oft að skornum skammti og þótt ég spyrji hann man hann það ekki Svona er nú það , ég veit að þú ert farin að sofa og það ætla að gera það líka , góða nótt
Mallý (IP-tala skráð) 25.1.2008 kl. 01:46
Eins gott að þetta var aðeins vatn upp að hnjám, annars gæti hafa farið verr elsku Laufey mín.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.1.2008 kl. 12:02
Enginn er verri þó hann vökni. Þá kárnar gaman er kelur.
Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 27.1.2008 kl. 20:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.