28.1.2008 | 10:36
Bóndadagur.
Helgin sem var að líða hafði verið þaulskipulögð fyrir mig í margar vikur. Minn þáttur í þeirri skipulagningu var að æfa mig á nýjum og gömlum lögum, keyra síðan í fyllingu tímans (á bóndadag) austur í Skálholt - og sitja þar við hljóðfærið alla helgina (alltaf finnst mér þetta jafn fyndið orðalag - eins og maður sitji bara aðgerðalaus við hljóðfærið).
Það eina sem foreldrar og aðalkennari Suzukifiðludeildarinnar tóku ekki með í undirbúninginn, var sú staðreynd að versta veður og versta færð sem þú getur búist við á Íslandi er akkúrat í byrjun Þorra. Og auðvitað fór það þannig, að Suzuki-mótinu var frestað vegna ófærðar.
Í staðin tókst mér heldur betur að koma mínum heittelskaða á óvart. Það vill nú þannig til í okkar sambandi, að við erum ósköp lítið fyrir að láta blómabændur og verslunarmenn segja okkur hvenær við eigum að vera sæt og góð og elskuleg við hvort annað. Við látum því vanalega þessa konudaga, bóndadaga, Valentínusardaga og hvað þetta heitir allt saman ýmist fara fram hjá okkur eða jafnvel lítillega í taugarnar á okkur. Hins vegar erum við mjög "dugleg" við að bjóða hvort öðru út að borða, á kaffihús, í bíó, eða sitthvað annað skemmtilegt - og laumum gjarnan gjöfum undir koddan hjá hvort öðru þegar hitt okkar á þess síst von. Auk þess sem við njótum rómantískra stunda á mjög mörgum ómerktum dögum.
Bóndi minn átti því ekki von á neinu öðru en að sitja heima yfir börnunum og búi þetta bóndadagskvöld, hafandi ekki einu sinni konuna til að elda ofan í sig, eins og á venjulegu hversdagskvöldi. Hann varð því ekkert smá hamingjusamur þegar hann kom heim - og hans ástkæra var á staðnum - og ekki bara búin að kaupa þennan fína bóndadagsblómvönd, heldur var hún langt komin með að útbúa þennan líka girnilega Þorramat. Að vísu var allur ekkert súrt eða kæst, því mín borðar ekki skemmdan mat. Auðvitað hefði ég getað haft nokkra skemmda bita með, bara fyrir hann, - en ég vissi að hann yrði alsæll með nýtt slátur, ný svið, harðfisk, flatkökur með hangiketi og rúgbrauð með Þorrasíld. Sem hann og var.
Njótið lífsins á Þorranum.
Athugasemdir
Takk fyrir dagstundina sem við áttum saman í dag elsku systir þetta var góð stund
Mallý (IP-tala skráð) 28.1.2008 kl. 18:10
Laufey mikið er gott að þú gast komið þínum elskulega á óvart. Mikið öfunda ég þig af kjammanum sem þú ert að glomma í þig þarna elskuleg. MMM ég ætla sko að hafa smá þorrablót bara fyrir mig, þegar ég kem heim.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.1.2008 kl. 12:12
Sæl frænka.
Hér á bæ hefur sko verið haldið þorrablót. Við borðum allan mat hérna, líka súran og sætan. Það er enginn matur vondur bara mis góður.
Mikið finnst mér gaman að lesa hvað þið eruð dugleg að rækta ykkur. Ég tel mig og minn vera í góðum málum en maður getur svo sannarlega alltaf á sig blómun bætt. Svo erum við í sömu blómadeild elskan, við þurfum ekki að láta segja okkur hvenær við gefum hvort öðru blóm.(ég vökva samt bara lifandi blóm.... en það er önnur saga)
Eigðu góðan dag
Þórunn frænka þín.
Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 14:07
Fallegt af þér...
Ylfa Mist Helgadóttir, 29.1.2008 kl. 15:03
Takk elskurnar.
Ásthildur; á ekki líka að skella sér á Sléttuhreppingaþorrablótið 16.febrúar? Ég er meira að segja alvarlega að spá íða.
Laufey B Waage, 29.1.2008 kl. 15:57
Takk fyrir fallega kveðju, - úps ég gleymdi bóndadeginum - var á ferðalagi allan daginn: Ítalía - Munchen - Köben (seinkun) - Keflavík .. Rófustappan getur verið góð!
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 29.1.2008 kl. 16:28
Ég skal sitja við hvaða hljóðfæri sem er hvenær sem er, svo ef þú þarft að skreppa frá eða koma blóðinu á hreyfingu get ég leyst þig af.
Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 29.1.2008 kl. 17:14
Tek þig á orðinu Ólöf. Nei í alvöru, - hafiði ekki heyrt t.d. afkynningar á síðasta lagi fyrir fréttir: Guðrún Á Símonar söng, við flygilinn var Ólafur Vignir Albertsson. Hvort Ólafur sat eða stóð við flygilinn var ekki á hreinu. - Alla vega átti engum að detta í hug að hann hafi verið að spila á hann. Þetta er ótrúlega algengt orðalag, - ég held þó að það sé bara notað um píanista. Enda eru þeir hógværustu hljóðfæraleikarar sem um getur (engin viðbrögð?!). Ég nota þetta meira að segja mjög oft um sjálfa mig.
Laufey B Waage, 30.1.2008 kl. 10:00
Menn segja víst aldrei "við túbuna var Jón Jónsson". Samt eru menn nokkuð þétt við túbur þegar spilað er á þær. Nánast í faðmlögum.
Þ
Þórdís Einarsdóttir, 30.1.2008 kl. 11:26
Rétt Þórdís. Á meðan við píanistar rétt snertum okkar hljóðfæri með fingurgómunum.
Laufey B Waage, 30.1.2008 kl. 12:04
Eigum við að hefja samæfingar? Sitja með krosslagða fætur, draga fætur undir stólinn, halla okkur aftur og skella skönkunum upp á flygilinn, sitja með hendur undir kinn og olnbogana á nótnaborðinu, setjast undir flygilinn í dúkkuleik (búa til hús), pólera hljóðfærið með býflugnavaxi...
Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 30.1.2008 kl. 12:55
Gilles Apap mun standa við fiðluna (og líklega sitja líka) í sjónvarpinu í kvöld eða annað kvöld (heimildum mínum ber ekki saman) - missum ekki af því!!!
Svo eru þessir alveg óborganlegir:
http://www.youtube.com/watch?v=WOQaK7NHY-4&feature=user
(Vona samt að enginn taki þá sér til fyrirmyndar í kennslu).
Guðrún Markúsdóttir, 30.1.2008 kl. 18:24
Það er sko í kvöld, sem við fáum að sjá Gilles Apap - (Búkolla hefur ruglast) kl. 23:10 og svo aftur á laugardaginn.
Guðrún Markúsdóttir, 30.1.2008 kl. 18:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.