31.1.2008 | 10:58
Þorrinn og Góan.
Ég hef oft og lengi sagt, að þegar (ekki ef!!) ég verð orðin gömul og rík, ætla ég að dveljast í einhverju heitu landi frá janúar og fram í mars ár hvert. Frá mars og fram í janúar er hins vegar yndislegt á Íslandi - og hvergi betra að vera.
En frá janúar og fram í mars er aldrei neitt sérstakt um að vera, - og frostið og norðannæðingurinn oft slíkt og þvílíkt, að maður óskar þess að jólafríið standi fram að páskafríi, svo maður geti bara legið undir sæng með góða bók - og bara komist sem lengst með sjálft jólabókaflóðið.
Og nú stendur þetta tímabil sem hæst. Ekki nóg með það, heldur er vetrarríkið á suðvesturhorninu með mesta móti. Og fimbulfrosti spáð næstu daga. En þá bregður svo undarlega við, að mín er bara hin hressasta. Fír og flamme á fætur á hverjum morgni, alveg undrandi á fjarveru hins árlega Þorraþunglyndis. Og þegar ég hugsa til baka, þá hefur Þorraþunglyndið verið á hröðu undanhaldi hin allra síðustu ár. Hvað veldur? Er þetta partur af því að eldast? Eru þetta afleiðingar 12 spora vinnunnar? Eða skildi ég vera gangandi dæmi um þá kenningu að regluleg hreyfing forðar manni frá þunglyndi?
Hvað sem veldur, þá er ég alsæl með líf mitt og líðan um þessar mundir. Og það er nóg um að vera. Suzuki-liðið er að reyna að dagsetja mótið sem var frestað um síðustu helgi - og ég var svo óalmennileg að svara því til, að ég væri upptekin 3 næstu helgar (meira um það síðar - ég blogga ekki fyrirfram). Svo er ég líka komin vel á veg með jólabókaflóðið. Búin með Lásasmiðinn, Harðskafann, Þúsund bjartar sólir og Rimla hugans, - og byrjuð á Bíbí. Já lífið leikur svo sannarlega við mig þennan Þorrann. Vona að það leiki líka við ykkur.
Lifið heil.
Athugasemdir
Veistu þegar þú minnist á það, þá var ég einmitt að hugsa það svona heima í skammdeginu að ég var ekki eins þung og ég hef verið lengi á þessum tíma, þó hef ég ekkert gert meira en venjulega. Ætli þetta sé ekki bara að ganga Laufey mín.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 31.1.2008 kl. 13:13
Knús til þín
Mallý (IP-tala skráð) 31.1.2008 kl. 13:30
Sæl frænka.
Þetta er örugglega að ganga, ég hef ekki verið svona kát og spræk í langann tíma.
Svo veit ég að 12 spora vinnan breytir öllu. <við ættum kannske að lesa saman ha-ha ég var að klára Rimla hugans og er að byrja á bíbí.
Eigðu góðan dag
Þórunn frænka þín
Þórunn Jóhannsdótir (IP-tala skráð) 31.1.2008 kl. 14:29
Er ferlega sybbin alltaf í janúar, líka núna!
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 31.1.2008 kl. 22:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.