13.2.2008 | 11:55
Rauðir skór.
Áfram með litagleðina. Ekki veitir af þessa dagana, þegar þorrinn er upp á sitt "besta". Að vísu er bara einn litur til umfjöllunar í dag. - Rauður.
Ég held ég hafi getið þess áður hér á síðunni, að eitt af því sem er ólíkt með mér og öðrum konum, er að mér leiðist að versla. Og mest af öllu leiðist mér að kaupa föt á sjálfa mig. Ég hreinlega engist af kvölum, ef ég "neyðist" til að kaupa mér einhver föt. Ég hef ekki tölu á öllum þeim hræðilegu ferðum mínum á útsölur, þar sem ég ætla að vera hagsýn húsmóðir, þegar ég er virkilega farin að skammast mín fyrir að ganga endalaust í sömu lörfunum, sem ég keypti einhvern tíman á 9. eða 10. áratug síðustu aldar.
Og undantekningarlítið kem ég tómhent út af útsölunni, eftir að hafa fílað mig eins og soðinn blóðmörskepp inni í mátunarklefanum - og reynt að halda aftur af tárunum með því að segja við sjálfa mig, að verslunareigendur séu fífl og hálfvitar að reyna að koma því inn hjá venjulega vöxnum konum, að þær fái bara engin föt á sig, ef þær passa ekki í það sem hannað er á Barbie (vá hvað þetta var löng setning, ég bara stend á öndinni).
Alltaf fell ég þó í eina gryfju. Það er eins og það sé eitthvert segulstál í rauðum flíkum. Þó ég sé að horfa í allt aðra átt (oftast á beinni leið út úr búðinni), þá tekst mér alltaf að spotta út rauðan bol, rauðan kjól, eða rauða peysu. Ég hef keypt mér nokkra eins og sést á neðstu myndinni, en oftast hætti ég þó við á forsendunum: Laufey þú átt rauðan bol (peysu, kjól, jakka).
Segulstálið í rauðu flíkunum er þó verulega aumingjalegt, miðað við segulinn í rauðu skónum. Mamma mía, það bara er eitthvað við rauða skó, sem gerir mig alvarlega ástfangna, eða ég veit bara ekki hvernig ég á að orða það.
Við hjónin erum kannski á rómantískri kvöldgöngu, og minn elskulegi að úttala sig um sín hjartans mál. Og ég að hlusta á hann, jafnvel horfa á hann, eða bara beint niður Laugaveginn. Þá bara allt í einu er eins og eitthvert afl kippi til á mér höfðinu, snúi því skyndilega 90 gráður og ég sé rauða skó í búðarglugga. Ég sýp hveljur, og minn elskulegi fyllist afbrýðisemi, því ég get ekki leynt hrifningu minni á rauðu skónum. - Og bæði töpum við þræðinum, varðandi umræðuefnið sem rauðu skórnir ruddust inn í.
"Laufey þú átt rauða skó", segir þá minn elskulegi, og grípur oftar en ekki til þess örþrifaráðs að bjóða mér á kaffihús, til að eiga einhvern sjens í samkeppninni við rauðu skóna.
Hvað er þetta eiginlega við rauða skó?? Ég veit það í hjarta mínu, en get bara ekki útskýrt það.
Lifið heil.
Athugasemdir
Skemmtileg lesning systir góð.Það er eins með mig að ég tek alveg út fyrir það að versla á mig föt en ég á slatta af skóm og þá svarta. Knús á þig og þína
Mallý (IP-tala skráð) 13.2.2008 kl. 12:42
Sæl frænka,
"allt sem rautt-rautt finnst mér vera fallegt" og núna vantar mig að kaupa mér rauða skó. Þeir verða að vera úr leðurlakki. Það er vegna þess að ég fékk veski úr rauðu leðurlakki frá Sísí frænku minni í fimmtugsafmælisgjöf og ég verð smartari í rauðum skóm við. Framtaksemin er ekki meiri en þetta, verð fimmtíu og eins í næsta mánuði og ekki búin að kaupa skó við, helduruað sé manneskja!!!
Bretti upp ermarnar og dríf í þessu
Bestu kveðjur Þórunn frænka þín
Þórunn Jóhannsdótir (IP-tala skráð) 13.2.2008 kl. 22:46
Mikið vildi ég að ég ætti svona auðvelt með skókaup. Minn maður er kominn með skóbúðafóbíu, ég dreg hann nefnilega mjög oft með mér inní skóbúðir (ótrúlegt !! ég veit í raun ekki hvers vegna ?!) en sá galli er á mínum fótum að þeir þurfa skó í stærðinni 41-42 og af þeirri stærð er ekki mikið í boði í venjulegum verslunum. Reyndar finnst mér oft eins og það sé bara pantað eitt par af hvoru í þessum númerum, þau eru svo oft "því miður búin"
Ég bjó í Þýskalandi fyrir nokkrum árum og þar gekk þetta betur enda eru konur þar í landi margar hverjar hávaxnar og stórfættar .
En Laufey mín eru ekki 3 ár frá síðasta ættarmóti nú í sumar og erum við ekki í nefdinni ásamt Sigrúni Örnu ? Hmm er kannski kominn tími til að pæla smá í því .
Kveðja Brynja.
Brynja (IP-tala skráð) 13.2.2008 kl. 23:45
Rauðir skór...? Skil ekki...!
Skór eru eitthvað sem er alls ekki hannað á andarfætur með háa rist. Sem betur fer er ég því algerlega laus við allt sem heitir skóáhugi. Verð aftur voða voða glöð ef ég dett niður á skó sem passa OG mér þykja flottir!
Þ
Þórdís Einarsdóttir, 14.2.2008 kl. 09:13
FLottir skór Laufey mín. Stundum áttum við okkur bara ekki á hvað þarna er að verki. EItthvað úr fortíðinni ef til vill.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.2.2008 kl. 13:08
Takk stelpur ("ótrúlegt" að engir karlmenn skuli kommenta núna).
Ég er sjálf með þykka rist og fætur í stórskornari kantinum, auk þess sem ég hef aldrei vanið mig á háa hæla. Á mínum yngri árum átti ég aldrei nema eitt par af skóm hverju sinni: svarta S.Waage-skó, sem ég endurnýjaði síðan eftir nokkrar sólanir. En í seinni tíð, þegar ég er komin með kvenlegri smekk og orðin eftirlátsamari við sjálfa mig, þá vill svo vel til að kominn er á markaðinn heill hellingur af virkilega fallegum "þykkfótaskóm" með mjög lágum hælum.
En auðvitað kaupi ég ekki nema örlítið brot af öllum rauðu skónum sem ég sé og verð ástfangin af.
Laufey B Waage, 15.2.2008 kl. 10:22
Mikið öfunda ég þig af þessum fallegu skóm! Ég á bara eina pæjuskó og í þessari vetrartíð eru þeir ekki mjög hentugir!
Elín Björk (IP-tala skráð) 17.2.2008 kl. 15:34
Skemmtileg saga. Hér er eina eftir HC Andersen.
http://www2.kb.dk/elib/lit//dan/andersen/eventyr.dsl/hcaev029.htm
Hilsen fra Danmark
Heidi Strand, 17.2.2008 kl. 21:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.