Bergþóra og blótið.

HB+LW á þorrablótiÞað var með hálfum huga, að ég hringdi í frumburðinn minn á fimmtudaginn og spurði hikandi hvort hún vildi nokkuð koma með mér á minningartónleika um Bergþóru Árnadóttur. Hikið og hugurinn hálfi kom til af því, að ég óttaðist að ég hefði bólusett hana gegn þessari yndislegu tónlist, þegar ég spilaði næstum því gat á Bergþóruplöturnar mínar hérna um árið.

ÓJÁ, hrópaði frumburðurinn - og hrifningin í röddinni leyndi sér ekki. Já auðvitað - hugsaði ég. Stúlkan er smekkvís með afbrigðum, svo auðvitað hreifst hún með þegar hún hlustaði með mér á Bergþóru.

Augnabliki áður hafði ég hringt í Söru vinkonu, en hún sagðist aldrei beinlínis hafa verið þessi vísnavinatípa. Fékk svo bakþanka og ákvað að koma með.

Bogga, Ingi, Lísbet Svo ég settist við tölvuna til að kaupa miða. En ÓNEI - það var uppselt. Laufey klaufi, Laufey klaufi. Búin að vera ákveðin í að fara á þessa tónleika í heilan mánuð - og lenda svo í þessu. Ég varð ekkert smá miður mín.

En eigi skal gráta Björn bónda heldur safna liði - hugsaði ég og þurrkaði tárin. Hringdi í Salinn um leið og hann opnaði að morgni og bað afgreiðslukonuna að vera svo góða að bjarga lífi mínu. Hún setti mig á biðlista og sagðist mundi hringja ef eitthvað losnaði. Þá hringdi ég í einn úr hljómsveitinni og bað  hann að gera allt sem hann gæti til að galdra fram eins og þrjá miða. En áður en hann var búinn með galdraþuluna, hringdi konan úr Salnum og var búin að bjarga mér.

Bjarki málar DóruVá hvað ég varð himinlifandi og hamingjusöm. Ég tyllti varla í jörðina það sem eftir lifði dags. Á leiðinni á tónleikana hamaðist ég svo við að segja við sjálfa mig og frumburðinn, að við yrðum að passa okkur á að búast ekki við of miklu. Það færi enginn í fötin hennar Bergþóru, en þetta væru góðir tónlistarmenn, sem gerðu þetta ábyggilega vel á sinn hátt, sem væri auðvitað ekki Bergþóruháttur. 

En ég verð að segja, að tónleikarnir fóru langt fram úr mínum vonum - og voru vonirnar þó ekki litlar. Þeir voru stórkostlegir. Og þó að listamennirnir gerðu þetta á sinn persónulega hátt (sem betur fer), þá voru þeir líka ótrúlega mikið í anda Bergþóru .

Lísbet lakkar neglurÉg tók nokkrar myndir á tónleikunum, en þær voru ekki góðar. En ég bendi á bloggið hennar Söru minnar, hún náði miklu betri myndum á sína vél. Smellið bara á nafnið hennar hér til hliðar.

Ef þið eruð hins vegar að velta fyrir ykkur, hvað þessar myndir hér hjá mér komi Bergþórutónleikunum við, þá er svarið einfallt. Þær koma þeim ekkert við. Þær hafa hins vegar allt með stærri hluta helgarinnar að gera. 

Við hjónin brugðum okkur sem sagt á þorrablót um helgina. Og það var aldeilis ekki haldið í næsta húsi, - heldur vestur á Ísafirði.  Skruppum rétt sisona vestur á laugardaginn og heim aftur á sunnudaginn.

Áður en einkasonurinn fór með sinni eiginkonu í útlegð til skandinavíu, höfðu þau hjónin fest kaup á íbúð á Ísafirði, sem þau leigðu út meðan á útlegðinni stóð. "Þú kemur í heimsókn, við erum með gestaherbergi. Við fáum íbúðina um jólin, en ætlum okkur mánuð til að koma henni í stand", sagði einkasonurinn yfir morgunmatnum einhvern tíman í haust. 

LW+Ásthildur á ÞorrablótiFrábært - sagði ég - þá komum við á þorrablótið.  Og af því að mér finnst góðum hugmyndum yfirleitt ekki ætlað að detta dauðum og ónýttum til jarðar, stóð ég við orð mín, og bauð mínum heittelskaða með mér.

Þorrablót Sléttuhreppingafélagsins er hátíð sem ég tók alltaf þátt í á meðan ég bjó á Ísafirði, - en þáverandi tengdamóðir mín er alin upp í Fljótavík í Sléttuhreppi. Til glöggvunar fyrir ókunnuga - þá er Sléttuhreppur það svæði sem oftast er kallað Hornstrandir.

Sumir spurðu undrandi, hvað manninum mínum þætti um að ég (eða við) færi að skemmta mér með fyrrverandi tengdafólkinu mínu.

Á ÞorrablótiÞví er auðvitað til að svara, að eitt af því sem við hjónin erum sammála um, er að við erum bæði einstaklega vel gift. Svo þarf maður heldur ekki að skilja við alla gömlu vinina, þó maður skilji við eitt stykki eiginmann (eða fleiri - já já). Auk þess sem okkar aðal-samferðafólk var að sjálfsögðu einkasonurinn og tengdadóttirin - og ekki eru þau neitt fyrrverandi.

Og blótið var virkilega skemmtilegt. Þrusustuð og góð stemmning. Ég dansaði svo mikið - á spariskóm með hælum (rauðum að sjálfsögðu), að ég finn ennþá til í öðru táberginu. Ég hafði reyndar tekið með mér sléttbotna skó til vara (líka rauða), eins og ég geri gjarnan, - en ég gleymdi bara að skipta.

Gestaherbergið var að vísu ekki tilbúið - ekki frekar en eldhúsið og fleira sem verið er að fínisera. Íbúðarstandsetning tekur alltaf miklu meiri tíma en til stendur. En heimsóknin til ungu hjónanna var ekki verri fyrir það.  Minn ástkæri var varla kominn inn úr dyrunum þegar hann var kominn með uppbrettar ermar undir nýuppsettan vask, sem virkaði ekki alveg eins og hann átti að gera. Þú verður að losa beltið - sagði einkasonurinn - til að ná píparalúkkinu. 

Lísbet og BjarkiOkkur tókst með erfiðismunum að ná manninum undan vaskinum að viðgerð lokinni (nei hann var ekki fastur, bara í vinnustuði) til að koma með okkur í gönguferð um tangann. Að gönguferð lokinni greip hann málningarrúllu og pensil og hamaðist eins og brjálæðingur þangað til við hin vorum tilbúin á blótið. Þá kom hann með - og borðaði manna mest - bæði af skemmdum mat og óskemmdum. En hann var það þreyttur, að ég var ekki lengi að dansa hann undir borðið. Og hann fór fyrstur heim. 

Sömu sögu er hins vegar ekki að segja af mínum fyrsta tengdaföður, sem varð áttræður í desember. Hann dansaði hverja konuna af annari undir borðið - en ekki mig. Við tókum tvær langar dansrispur, þar sem ég lagði metnað minn í að láta engan bilbug á mér finna.

Verð að segja frá einu í lokin. Ég kom auðvitað við í blómabúð, á leið í þessa fyrstu heimsókn í fyrstu íbúð ungu hjónanna. Og hugsaði með mér, að ef þau ættu blómavasa, þá væri hann örugglega í ómerktum kassa einhvers staðar í geymslu. Svo ég keypti þennan líka fallega vasa undir blómvöndinn. Þegar ég svo stíg út úr bílnum fyrir framan húsið þeirra, vill ekki betur til en svo, að ég flýg á hausinn í hálkunni. "Er allt í lagi með þig" hrópaði tengdadóttirin, þegar hún heyrði þetta líka skerandi brothljóð. "Vasinn" - var hins vegar það eina sem ég gat stunið upp. Ég varð svo miður mín yfir mölbrotnum vasanum, að ég gaf mér ekki svigrúm til að finna til, fyrr en ég sá hvað blómin tóku sig vel út í tómu Neskaffi-krukkunni. 

 Lifið heil.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir frábæra helgi!

Veriði velkomin aftur sem fyrst í málarablokkina - hver veit nema hægt verði að baða sig og hita súpu í næsta skipti.

Tengdadóttirin

Dóra Hín (IP-tala skráð) 19.2.2008 kl. 15:03

2 identicon

Sniðug voruð þið!

Imba

Imba (IP-tala skráð) 19.2.2008 kl. 16:14

3 identicon

Elsku Laufey mín, mikið vildi ég að ég hefði svolítið af þessum fídómskrafti þínum.

(þetta var nú ósköp aumingjaleg setning hjá mér)

Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 19.2.2008 kl. 19:51

4 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Þarna hefur verið stuð, það er augljóst! En hver er þessi ljóshærða stúlka? Ekki Dóra hans Hála? Þá er hún mikið breytt... ég kannast við þá ljósu, kem henni ekki fyrir mig samt.

Ylfa Mist Helgadóttir, 19.2.2008 kl. 19:51

5 identicon

Tek að mér að útskýra hver er hver: Þarna eru tvær bjútífúl blondínur. Önnur þeirra er Dóra, sú sem Bjarki er að varalita. Hin sem er að lakka á sér neglurnar er hún Lísbet frænka okkar, dóttir Harðar föðurbróður. Ekki vön að vera hrokkinhærð, þessi elska, kannski það sem ruglar Ylfu í ríminu. En þið hafið alveg áreiðanlega hist oftar en einu sinni og oftar en tvisvar á kaffihúsum bæjarins :-)

Berglind (IP-tala skráð) 19.2.2008 kl. 23:10

6 Smámynd: Þórdís Einarsdóttir

Það hefur greinilega verið "stöð" á blótinu!

Þórdís Einarsdóttir, 20.2.2008 kl. 13:25

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Elsku Laufey þetta var bara yndi, svo skemmtilegt, og þú blómstraðir þarna, eins og fleiri    Takk enn og aftur fyrir frábært kvöld.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.2.2008 kl. 19:13

8 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Það er aldeilis fjör í kringum þig !

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 20.2.2008 kl. 21:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband