25.2.2008 | 10:07
Morgunbirta.
Nú eru þessir yndislegu dagar að byrja, - þar sem maður vaknar í myrkri, og svo birtir á meðan maður er að klæða sig og borða morgunmatinn. Og birtan er falleg þessa dagana, þegar himininn er mátulega léttskýjaður. Ég hef reyndar alltaf verið ástfangin af ljósaskiptunum undir þeim kringumstæðum (léttskýjuðu kringumstæðunum).
Já það þýðir ekkert annað en að hamast við Pollýönnuleikinn, nú þegar ekkert lát virðist vera á "frostavetrinum mikla". En ég verð að viðurkenna, að ég hugsa með söknuði og tilhlökkun til hlýju góðu lognrigninganna.
Hef þennan pistil stuttan, þar sem sá síðasti var óvenjulangur. Ef einhver hefur hug á að leiðrétta stafsetningarvillur, þá er það í boði. Ég hef t.d. aldrei verið örugg á tvöföldum samhljóðum í þeim félögum; himni og morgni. Hvernig væri t.d. að Lulla frænka fari að láta ljós sitt skína á athugasemdasíðunni?
Lifið heil.
Athugasemdir
Sæl Laufey.
Falleg er myndin og morgunbirtan.
Hér vaknaði ég við sólskin fyrir þremum klukkutímum og eftir að hafa lesið um kuldann veit ég ekki hvort ég kem heim á sunnudaginn.
Heidi Strand, 25.2.2008 kl. 10:22
Þú ert svo sannarlega búin að vera fjarri Íslandi á góðum tíma Heidi. - Allavega hvað veðurfarið varðar.
Laufey B Waage, 25.2.2008 kl. 10:55
Sammála þér Laufey mín með morgunbirtuna, hún er æðisleg.
Þú getur notað púkann til að leiðrétta villlur, ég hef að vísu ekki gert það, en hann er þarna aftast á stjórnborðinu þínu, púkalegur en veit hvernig á að stafsetja.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 25.2.2008 kl. 11:30
'Eg er líka hrifin af ljósaskiptinum, eitthvað svo mjúkt og dularfullt.Knús á þig og þína
Mallý (IP-tala skráð) 25.2.2008 kl. 15:42
Hahaha, fíla þennan Pollýönnuhugsanahátt! .. Falleg mynd!
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 26.2.2008 kl. 12:52
Það er svo gott þegar maður hættir að vakna að morgni í sama myrkrinu og maður sofnar í. Og mikið rétt ljósaskiptin eru falleg, ég er sammála Mallý þau eru svo mjúk og dularfull!! Svo klikkar Pollýanna aldrei.
Eigðu góðan dag Laufey frænka mín
Þórunn frænka þín, en hvar er Lulla???
Þórunn Jóhannsdótir (IP-tala skráð) 26.2.2008 kl. 13:47
Lognrigningarnar já ... það er þrálátt lognið í vesturbæ Reykjavíkur ...
Aðalsteinn (IP-tala skráð) 26.2.2008 kl. 23:28
Takk fyrir kommentin.
Já Þórunn, til hvers að eiga svona góða frænku og vinkonu sem er ennþá flinkari en maður sjálfur í íslenskunni (alla vega stafsetningunni), ef hún fæst ekki til að skella eins og einni og einni leiðréttingu inn í athugasemdadálkinn. Nú eða bara leiðréttingalausum athugasemdum (hún hlýtur nú að fara að taka þetta til sín, - ég veit hún les þetta).
Aðalsteinn: Þú felur ekki hæðnisglottið bak við myndlaust ritmál (líklega hefur það heldur ekki verið meiningin). Þú minnir mig bara á Hálfdán hinn ísfirska, sem glottir stórt þegar maður talar um logn í Reykjavík - og segir Reykjavíkurlognið ekki minna en 5 metra á sekúndu. Hafgolan hér í Ánanaustinu (12 m.á.s. samkvæmt þeim sama Hálfdáni) er líka hreinsandi og yndisleg. - Óþarfi að dissa hana.
Laufey B Waage, 27.2.2008 kl. 10:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.