Kristur á krossinum.

Kristur BaltasarsGleðilega páska. Í þriðja sinn, já ég veit það. Í hin skiptin var ég að óska þess að páskarnir yrðu ykkur gleðilegir þegar þar að kæmi, - en nú eru þeir brostnir á. Nú er hann upprisinn. Og þá fagnar maður upprisunni að sjálfsögðu með því að óska öllum gleðilegra páska.

Annars er bara ein ástæða fyrir færslu minni núna. Ég vil vekja athygli á stórkostlegum listaverkum sem ég sá í gær. Þau eru í Hallgrímskirkju á Skólavörðuholti, - eftir Baltasar Samper. Ég veit ekki hvort þetta er bara tímabundin sýning, eða hvort þau eru komin til að vera þarna. En ég hvet alla til að fara ef þeir geta.

Við hjónin röltum þangað inn á okkar hefðbundnu laugardagsgöngu - og ég varð svo heilluð, að ég fór heim og sótti myndavélina.

Kristur á krossiÍ anddyrinu eru tvær stórar og fallegar myndir - og yfir altarinu trónir svo stór kross, myndaður úr sjö andlitsmyndum af Kristi, sem eiga að tákna sjö orð Krists á krossinum. Ótrúlega áhrifamikið og fallegt finnst mér. Reyndar finnst mér birtan frá gluggunum á bak við spilla aðeins. Ég ætla að fara aftur í myrkri.

Í rauða húsinu við hafið er annars allt með kyrrum kjörum. Við njótum páskahátíðarinnar í huggulegheitum. Tókum allan messupakkann, skírdagskvöld, föstudaginn langa og páskadagsmorgunn (í bítið). Undirrituð tók þátt í lestri píslarsögunnar í tveim þeim fyrri.

Meiri hluti fjölskyldunnar er hins vegar búinn að vera alla vikuna á rokkhátíðinni Aldrei fór ég suður. Sonur minn rokkstjórinn hefur ekki ennþá mátt vera að því að opna páskaeggið sitt og tilkynna mér málsháttinn.

Í sykurlausa egginu mínu var hins þýðing á ísskápsseglinum sem ég keypti í Kaupmannahöfn fyrir margt löngu - og held mikið upp á: Livet er det der sker for os, mens vi legger andre planer. 

Lifið heil. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir

Mér sýnist þú hafa náð betri ljósmynd en ég. Birtan á móti var mjög erfið og eiginlega hefði þurft að dempa innstreymi hennar. Ég hélt að verkið yrði tekið niður yfir páskadag en það mun víst hanga uppi til 15. apríl sem hluti af sýningunni frammi.

Merkilegt hve listamenn hafa unnið mikið með krossfestinguna en hlutfallslega lítið með upprisuna! Enda líka snúið að tjá þá reynslu nema með táknum. Krossfestinguna er hins vegar hægt að sýna með raunsæismyndum.

Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 23.3.2008 kl. 19:19

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

´Því eldri sem ég verð, því sannfærðari verð ég um að saga krists sé ein mesta lygasaga heimsins. Ég held að hann hafi ekki dáið á krossinum, heldur verið svæfður og smyglað brott úr hellinum, flúið með konu sinni Maríu Magdalenu til Frakklands og átt góða daga börn og buru.  Eina sem er, að sennilega líður honum ekki vel í dag, þegar hann horfir upp á allt sem kom á eftir.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.3.2008 kl. 14:37

3 identicon

Blessuð og sæl frænka,

Greinilega áhugaverð sýning.

Hef séð Bjarka frænda minn nokkrum sinnum í sjónvarpinu yfir hátíðina. Það sem vakta athygli mína fyrir utan að hann er bráðmyndarlegur  er hvað hann er líkur mömmu sinni. Það er nefnilega þannig Laufey mín að mér hefur alltaf fundist ekkert barnanna þinna líkjast þér, fyrr en ég sá Bjarka í sjónvarpinu, svona líka nauðalíkan mömmu sinni.

Eigðu góðan dag á morgun með mömmu þinn afmælisbarninu sí-unga!!!

Þórunn Jóhannsdótir (IP-tala skráð) 24.3.2008 kl. 23:33

4 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Baltasar svakalega flinkur myndlistarmaður. Ég starfaði í Víðistaðakirkju í nokkur ár með hann umvafinn - fannst myndirnar of ,,dimmar" í upphafi en þær vöndust mjög vel og fór að þykja vænt um þær.

Takk fyrir ábendinguna - með ,,bak við píanóið" auðvitað átti ég að skrifa ,,Gróa spilar á píanóið" .. svona getur maður blanco í hugsun! ..

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 26.3.2008 kl. 11:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband