7.4.2008 | 22:00
Fýlan.
Sem ég sat í sætinu mínu við eldhúsiborðið mitt á föstudagsmorguninn, sötrandi morgunsjeikinn minn og flettandi morgunblaðinu mínu, - fann ég einhverja undarlega lykt. Og það ekki góða. Ég hélt þetta væri einhver uppáfallandi ímyndum, en leit þó grunsamlega í kring um mig um leið og ég stóð upp til að laga kaffið.
Meðan kaffið var að hitna, hætti mér eiginlega alveg að standa á sama. Við hjónin höfðum að vísu verið venju fremur fúllynd kvöldið áður, eins og lesa má í síðansta pistli, en ég er aðeins of jarðbundin til að láta mér detta í hug að slíkt fýlukast geti haft bein og áþreifanleg áhrif með þessum hætti.
Þegar ég var langt komin með kaffibollann og minningargreinarnar, var ég orðin þess fullviss, að þetta væri alvöru fýla. Ég tók til við þetta nærtækasta, fór út með ruslið, fínkemmdi ísskápinn og lytkaði af borðtuskunni, þó ég væri nýbúin að skipta. Ég skoðaði í alla skápa, skreið eftir gólfinu, klifraði upp á eldhúsinnréttinguna - og rannsakaði hreinlega allt mögulegt og ómögulegt. Með engum árangri.
Þá fór ég nú að verða verulega histerísk. Það var örugglega dauð rotta einhvers staðar. En hvar?
Eftir kennslu á föstudag, flúði ég upp í Vatnaskóg (það hafði reyndar staðið til) og var þar alla helgina. Heimasætan hringdi og sagði að það væri ekki líft í íbúðinni vegna fýlu. Og hún flúði til kærastans.
Dauða rottan hlýtur að vera einhvers staðar milli þilja, hugsaði ég þegar ég kom heim á sunnudagskvöldið. Það var stærra vandamál en ég gat dílað við, svo ég flúði á náðir íslenska morðþáttarins í sjónvarpinu.
"Fýlan er af blóminu" sagði eiginmaðurinn upp úr eins manns hljóði, þegar morðþátturinn var búinn. "Hvaða blómi" æptum við mæðgurnar í kór og spruttum upp úr sætunum. Okkur hafði ekki brugðið svona mikið við nokkurt af atriðunum í morðþættinum.
"Af moldinni í blómapottinum hérna í hillunni við eldhúsborðið" sagði maðurinn hinn rólegasti. "Ertu viss?" spurði ég á hlaupunum, þreif blómapottinn og rak nefið nánast ofan í moldina. Ég var snögg að kippan því upp úr moldinni aftur, því fýlan var greinilega þaðan ættuð. Þá mundi ég það. Það voru mörg ár síðan ég umpottaði þessari plöntu, auk þess sem á fimmtudagskvöldið gaf ég henni kartöflusoð, sem hefur greinilega harmónerað illa við ævaforna moldina.
Það tók mig töluvert langan tíma að umpotta, þar sem ég þorði hvorki að skilja ögn né agnarögn af mold eftir á rótinni. Til þess notaði ég meðal annars fínlegan prjón, eins og sjá má á myndinni. Verst að þetta fína naglalakk byrjaði að flagna af nýlökkuðum nöglunum.
Lifið heil.
Athugasemdir
Vonandi dafnar blómið eftir umpottunina ! Þetta blóm er þó lifandi, ég hef sjaldan hlegið eins mikið og af síðustu umpottunarsögu hér á þessum síðum.
Kveðja Brynja.
Brynja (IP-tala skráð) 8.4.2008 kl. 00:26
Ég lærði eitt og eitt mikilvægt við lesturinn.
Auðvitað umpottar maður svona!!!
Svona nostur hlýtur að gera blómunum gott.
Ætla að kaupa mold á eftir og ráðast í allavega nokkur blóm af milljón.
kv
Lísbet
Lady Lísbet (IP-tala skráð) 8.4.2008 kl. 10:45
Mér varð einmitt líka hugsað til síðustu umpottunar á veraldarvefnum. Ég held að ég hafi lært að kartöflusoð ætti ekki að setja á plöntur, hvorki ,,ekta gervi" né lifandi.
Dóra Hlín (IP-tala skráð) 8.4.2008 kl. 11:48
Hún móðir mín gaf blómunum sínum kælt kartöflusoð reglulega, og hennar blóm voru dásemd og dýrð.
Svo er það líka þannig að "ekta gerviplöntur" eiga betur við sumt fólk..... ég segi nú bara svona.
Eigðu góðan dag Laufey mín
Þórunn frænka þín.
Þórunn Jóhannsdóttir (IP-tala skráð) 8.4.2008 kl. 13:54
Takk stelpur. Sjálfri varð mér hugsað til umpottunar plöntunnar með plasttyppið, meðan ég var að hreinsa fýlumoldina af þessari. Ég er samt á því að kælt kartöflusoð sé blómanna besta yndi, eins og fram kemur hér að ofan. En þá er betra að plantan sé lifandi og moldin ógerjuð.
Laufey B Waage, 8.4.2008 kl. 14:20
Hahahahah segi ekki meir Lubba mín
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.4.2008 kl. 00:31
Gott þetta var ekki rotta, segi ég nú bara!
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 9.4.2008 kl. 15:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.