Besti staður í heimi.

Sólsetur 6Síðan ég flutti í rauða húsið við hafið (fyrir bráðum 4 árum) hef ég oft sagt - og ennþá oftar hugsað; - ég bý á besta stað í heimi. Og ég virkilega meina það. Miðbæjarrottan ég er 10 mínútur að rölta niðrá Ingólfstorg, en samt bý ég ekki við neitt ónæði frá miðbænum. Íbúðin sjálf er sú stærsta og besta sem ég hef búið í - og hentar mér og minni fjölskyldu einstaklega vel.

Útsýnið er stórfenglegt yfir hafið. Ég sé Gróttuna og Esjuna, -  og þar á milli Snæfellsnesið með sýnum ævintýralega jökli, Mýrarnar og Akranes. Að ógleymdum sjálfum himninum, en hann er endalaus málverkasýning þegar kvöldsólin leikur við skýjahnoðrana.

GusugangurBest af öllu finnst mér þó sjálft hafið. Að rölta eftir göngustígnum fyrir framan húsið mitt og anda að mér sjávarlyktinni sem ég elska. Að sitja í stofuglugganum og horfa á sjóinn þegar hann er í ham - og öldurnar gusast hátt yfir varnargarðinn. Þá fer ég í algjöra hugleiðslu- og vellíðunarvímu.

En það er einmitt þetta síðastnefnda, sem borgaryfirvöld geta ekki unnt mér. Í hvert skipti sem hafið hefur gusað þessum unaðslega lyktandi þara upp á göngustíginn og grasið, þá mæta borgarstarfsmenn til að hreinsa. Mín vegna þurfa þeir alls ekki að gera það, mér finnst þarinn yndislegur. 

Varnargarðurinn hækkaður.En nú eru þeir orðnir leiðir á hreinsuninni - og byrjaðir að breikka og hækka varnargarðinn upp úr öllu valdi. Garðurinn er forljótur og umhverfisskemmandi - og skerðir verulega útsýnið mitt, sjávarlyktina og tengsl mín við sjóinn.

Þeir þóttust vera sniðugir og beittu mig sjokkmeðferð. Byrjuðu á að hóta landfyllingu með 25 þúsund manna blokkarbyggð. Hættu svo sem betur fer við hana (hún er samt á framtíðarplani) - og byrjuðu svo í kjölfarið að hækka varnargarðinn, í þeirri bjargföstu trú, að ég væri í þvílíkri sæluvímu yfir landfyllingarleysinu (sem ég svo sannarlega var og er) að mér þætti varnargarðurinn algjört pínöts. (Egósentrismi hvað? - auðvitað snýst þetta allt um mig.) Einkastæði

En þeir láta ekki þar við sitja. Ég legg Yarisnum mínum alltaf við gaflinn á húsinu mínu. Og engin vandræði með það - einn af fáum stöðum í gamla góða vesturbænum þar sem alltaf eru næg bílastæði. Það er leikskóli bak við húsið mitt. Og ekkert nema gott um þá návist að segja. Oft leggja einhverjir foreldrar líka við gaflinn minn meðan þeir fara inn með börnin eða sækja þau. Ekki vandamálið, næg stæði fyrir alla (leikskólinn tilheyrir reyndar götunni fyrir ofan, og þar eru líka stæði og hlið). En allt í einu eru komin skilti við húsgaflinn, sem á stendur að þetta séu einkastæði leikskólans. Ég varð alveg rasandi. Ekki nóg með að þessi stæði eru við húsið mitt, en ekki við leikskólann, heldur er aðalatriðið hitt, að þetta er svo mikill óþarfi. Ég er að koma og fara á öllum tímum - og það er alltaf nóg af lausum stæðum. Líka þegar flestir foreldrar eru að koma með og sækja. Svo hefði líka mátt tala við okkur íbúana, ef eitthvert vandamál var til staðar.

En ég læt ekki flæma mig í burtu. Hér skal ég vera uns ég er orðin allra kelling elst

Góða helgi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Auðvitað lætur þú ekki flæma þig á brott! Vonandi verður aldrei uppfylling þarna, það væri fáránlegt. Hugsa jafnvel að þú sleppir ef flugvöllurinn flytur og byggingasjúkir geti byggt í Vatnsmýrinni. Ég ætla að muna að vinka ykkur góða nótt í kvöld.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 11.4.2008 kl. 19:13

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Æ hvað þetta er leiðinlegt að þurfa að standa í svona stríði, eftir á, og endalaust.  Líka sammála þér með fjandans grjótgarðinn.  En mikið eru myndirnar fallegar. Knús á þig Laufey mín inn í daginn.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.4.2008 kl. 11:50

3 identicon

Þó að "sjokkmeðferðin" hafi dugað á Salómon Gustafson vin Stellu er ekki þar með sagt að það sé að virka fyrir þig.

Leyfðu þeim bara að andskotast og vesenast, brostu og vertu glöð og sæl með íbúðina þína og útsýnið sem hvoru tveggja er frábært.

Þórunn frænka þín

Þórunn Jóhannsdótir (IP-tala skráð) 13.4.2008 kl. 22:01

4 Smámynd: Laufey B Waage

Takk stelpur. Ég hef verið mjög tvístígandi í afstöðu minni gagnvart flugvellinum, - fundist bæði betra eins og strákurinn í cheerios-auglýsingunni. Og ég endaði á því að krossa við að hafa hann áfram, vitandi hvað þessi þjónusta er nauðsynleg fyrir þá sem þurfa að komast skyndilega á hátæknisjúkrahús, með sjúkraflugi utan af landi. En nú er þetta líklega eina von mín, að hann verði fluttur, svo þeir sem vilja byggja vestan Elliðaár, geti byggt í Vatnsmýrinni - og endanlega verði hætt við landfyllinguna.

En í dag get ég brosað og verið glöð með allt sem ég á og hef, það er satt.

Ég vinkaði á móti yfir í "Himnaríki".

Það fer að koma tími á Stellu aftur. Hún (og Salómon) er bara unaðsleg. 

Laufey B Waage, 14.4.2008 kl. 08:38

5 Smámynd: Laufey B Waage

Ætlaði líka að segja; - það þarf bara að byggja almennilegan þyrlupall fyrir sjúkraflugið og hafa staðsettar þyrlur í hverjum landsfjórðungi.

Laufey B Waage, 14.4.2008 kl. 08:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband