14.4.2008 | 22:29
Mömmumont.
Heimasætan er heimsins dýrmætasti unglingur. Það mundi æra óstöðugan að fara að telja upp alla hennar kosti, svo í augnablikinu ætla ég bara rétt að tæpa lítillega á nýjustu námsafrekunum.
Það vill semsé svo vel til, að þrátt fyrir að stúlkan sé á kafi í félagslífinu og sé iðin við að njóta lífsins með sínum mörgu og góðu vinum, þá er hún alltaf jafn dugleg við að sinna náminu. Og er fyrir vikið er hún aftur og aftur að fá alls kyns verðlaun, auk þess að vera alltaf með topp-einkunnir.
Í síðustu viku var eitt af íslenskuverkefnunum að yrkja dróttkvæði. Ekki auðvelt fyrir nútímastúlku. En hún lagði metnað sinn í það, eins og allt annað sem hún gerir - og í dag kom hún heim með þykka safnbók með ljóðum Þórarins Eldjárns, - fyrstu verðlaun fyrir dróttkvæðið.
Nú kemur mamma upp í mér (mamma mín er oft svo fyndin þegar hún vill ekki gera upp á milli barnanna sinna) og mig klæjar í fingurgómana að fara að segja frá námssnilli og annari snilli hinna barnanna minna. En ég stilli mig um það, þó af nógu sé að taka. Kannski seinna. Það er allavega á hreinu að ég er ríkasta mamma í víðri veröld.
Nú er byrjaður sá tími ársins (nokkrir mánuðir), þar sem maður vill helst hanga í glugganum öll kvöld (þegar ekki er alskýjað) og horfa á málverkið á himninum, sem breytist á nokkra mínútna fresti, eða fara út á göngustíginn hér fyrir framan og njóta rómantíska sólarlagsins. Þessa mynd tók ég núna um 9-leytið í kvöld.
Lifið heil.
Athugasemdir
Það er fallegt hjá þér útsýnið, það er alveg á hreinu. Fátt sem toppar sólarlagið nema kannski sólarlag í Snæfellsjökulinn.
ÞE
Þórdís Einarsdóttir, 15.4.2008 kl. 08:21
Til hamingju með dóttur þína, þessa fallegu geðþekku stúlku, flott hjá henni að gera svona vel. Hin eru nú ekkert síðri allavega er Dáni sláni rosalega flottur strákur, ég þekki Berglindi minna, hef lítið séð til hennar svo lengi. Knús á þig Laufey mín og mikið rosalega eru það fallegar myndir sem þú ert að setja inn. Ég myndi njóta þeirra betur ef þú hefðir þær aðeins stærri.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.4.2008 kl. 09:48
Til hamingju með dótturina. Það má monta sig. Mömmur geta það alveg.
Jenný Anna Baldursdóttir, 15.4.2008 kl. 10:12
Frábært dróttkvæði! Ég er ekkert móðguð þó að þú einbeitir þér að því að monta þig af stúlkunni, enda löngu ljóst að hún er orðin systurbetrungur á flestum sviðum. Einu ljóðin sem ég orti á þessum aldri voru uppfull af væli og dramatík og yfir höfuð ekkert skemmtileg. Mikil mildi að ég skyldi eftirláta bróður mínum hlutverk hirðskáldsins í fjölskyldunni. Ja, nema örverpið fari að veita honum samkeppni, hver veit?
Frumburðurinn (IP-tala skráð) 15.4.2008 kl. 11:20
Ása á enda stendur
aldrei vinna minna
stingur fingri stundum
streðar við að kveða
á Bjöggu í vöggu bærir
býsna fjöldi vísna
en Bjarki í harki er betri
bætir allt og kætir
Til hamingju með verðlaunin Ásbjörg, fínasta kvæði hjá þér. Mamma hefur sko gleymt að segja frá því að ég fékk líka ljóðaverðlaun á sínum tíma, fyrir einhvern algjöran leirburð um Vesturbæjarskóla. Síðan þá hefur mér þótt best að yrkja fullur (er reyndar ekkert sérstaklega fullur í augnablikinu).
Bjarki (IP-tala skráð) 15.4.2008 kl. 14:03
Til hamingju með dótturina! Tek undir að það má sko alveg monta sig af börnunum sínum.
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 15.4.2008 kl. 14:54
Takk öll. Þið eruð yndisleg. Fyrir þá sem ekki vita, þá eru þetta eldri börnin mín (frumburðurinn og Bjarki) sem kommenta hér fyrir ofan. Eins og sjá má, þá munar "hirðskáld fjölskyldunnar" ekkert um að kasta fram einu dróttkvæði um litlu systur (hún heitir Ásbjörg og hann kallar hana ýmist Ásu eða Bjöggu). Verðlaunaljóðið hans úr Vesturbæjarskóla var enginn leirburður (kennarinn hans átti ekki í neinum vandræðum með að fá það birt í Þjóðviljanum á sínum tíma). Meðan bekkjarfélagar hans í Hagaskóla voru að streða við að lesa Gísla sögu Súrssonar (sem hann kunni næstum utanað), samdi hann leikrit um Gísla - og orti fullt af dróttkvæðum, fullum af níði um kennarana. Í seinni tíð er hann (sonur minn Bjarki) þekktastur fyrir tækifærisníðvísur, - samdi t.d. ógleymanlegan kvæðabálk (limrur) sem hann söng til móður sinnar í fimmtugsafmælisveislu hennar.
Laufey B Waage, 15.4.2008 kl. 15:27
'O já þú mátt sko alveg vera montin af 'Asbjörgu hún er bara alveg æðisleg og ég er montin af henni líka og af Bjarka og Berglindi þú átt bara svo frábær börn knús til þín
Mallý (IP-tala skráð) 15.4.2008 kl. 19:27
Þú átt frábær börn Laufey mín. Þau eru falleg og vel gerð, svo ég tali nú ekki um vel upp alin. Það er líka allt í lagi og bara gott að monta sig af börnunum sínum.
Það sagði einu sinni kona (nefni enginn nöfn...byrjar á Sigga mamma mín, frænka þín) að ef maður segir sannleikann um börnin sín þá er það ekki mont. Og þar sem þú eins og ég hefur verið alin upp í Guð sótta og góðum siðum er þetta satt og frábært!!! Börnin þín ertu frábær!!!
p.s. þú misstir sko af miklu í gær, ballerínurnar dásamlegu Saga og Matthildur. þær eru dásemd og dýrð, segi ekki meira.
Þórunn Jóhannsdóttir (IP-tala skráð) 16.4.2008 kl. 14:38
Gleðilegt sumar!
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 24.4.2008 kl. 23:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.