Vorannir tónlistarkennarans.

Á nemendatónleikumGleðilegt sumar elskurnar mínar og takk fyrir veturinn. Afsakið hvað langt er um liðið frá síðasta pistli. Ég vona að þið hafið verið farin að sakna mín.

En vorannir tónlistarkennarans eru semsagt hafnar. Fyrir utan alla venjulega kennslu er ég t.d. núna með aukavinnu 3 laugardaga í röð í Tónheimum. Fyrir rúmri viku var ég að prófdæma þar, - og geri það aftur á laugardaginn kemur. Á laugardaginn var voru vortónleikar Tónheima. Fyrir helgi fór ég aukaferð til Njarðvíkur til að spila undir í fiðluprófi - og svo framvegis. Og það sem verst var: Ég þurfti að kenna alla venjulega fimmtudagskennslu á sjálfan sumardaginn fyrsta, af því að tónleikarnir voru á sumardaginn þriðja - og það var ekki hægt að hitta ekki nemendurna í 9 daga fyrir tónleika.

Ég leyfði mér samt að búa til stund milli stríða - og skjótast í Skálholt strax eftir tónleikana á laugardaginn - og gista þar eina nótt. Eiginmaðurinn var þar í þrjár nætur, hafði farið á fimmtudaginn til að spila þar alla helgina (á gítar). Það er alltaf gott að vera í Skálholti - og ég naut þess í botn að hvíla mig þar í sólarhring.

græna ljósiðNú er kvikmyndahátíð Græna ljóssins yfirstandandi. Við keyptum 6 mynda passa (þ.e. 12 göt - 6 myndir fyrir okkur hjónin saman) og erum búin að sjá þrjár mjög góðar. Náum vonandi að sjá hinar þrjár áður en hátíðinni líkur.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á einni af þessum myndum. Hún heitir Caramel - og segir frá lífi venjulegs fólks (aðallega kvenna) í Beirút í Líbanon. Einstaklega falleg og vel gerð mynd. Gaman að sjá eitthvað annað en stríðsfréttamyndir frá þessu svæði.

Ég er eitthvað óvenju andlaus í augnablikinu. Skálholtsværðin er greinilega ennþá yfir mér. Best að fara snemma að sofa og halda áfram að safna kröftum fyrir vikuna fram undan. 

Lifið heil. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Laufey B Waage

Takk elska. Ójá, ég elska sumarfrí.

Laufey B Waage, 27.4.2008 kl. 22:51

2 identicon

Gleðilegt sumar til þín og þinna . Alltaf gott að vera í Skálholti,  Heyrumst og sjáumst hressar.

Mallý (IP-tala skráð) 28.4.2008 kl. 15:14

3 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Þú hefur augljóslega gaman af því sama og ég! .. Elska Skálholt og finnst gott að vera þar einmitt til að draga andann! Ég er líka svolítill kvikmyndafíkill, sérstaklega fyrir  öðruvísimyndir - eða þannig.

Mikið er sæt myndin af litlu dömunni við píanóið.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 28.4.2008 kl. 19:38

4 identicon

Ég má til að leiðrétta eitt í pistlinum, bæði fyrir þig og aðra, mamma mín. Það er ýmislegt hægt í þessum heimi, meðal annars að hitta ekki nemendur sína í 9 daga fyrir tónleika. Ef maður hins vegar hefur faglegan metnað fyrir öðru þá er það hið besta mál. En að velja er altsvo ekki það sama og að þurfa ;-) 

Frumburðurinn (IP-tala skráð) 28.4.2008 kl. 20:41

5 Smámynd: Þórdís Einarsdóttir

Hvaða smámunasemi er þetta í frumburðinum?   

Gleðilegt sumar.

Þ 

Þórdís Einarsdóttir, 28.4.2008 kl. 21:57

6 Smámynd: Laufey B Waage


Takk stelpur. Ég hef greinilega verið eitthvað utan við mig þegar ég skrifaði að ég hefði ÞURFT að vinna. Ég sem er alltaf að reyna að útrýma hugtakinu að þurfa úr mínu orðfari og helst úr mínu lífi. Ég hef meira að segja oft verið komin á fremsta hlunn með að skrifa sérstakan pistil um að ég ÞURFI ekki að gera neitt, að allt sem ég geri sé mitt frjálsa val (rosalega hefur elsta eplið fallið stutt frá eikinni, - en telur sig þó vera eggið sem þarf (já ég sagði þarf) að kenna hænunni). Í þessu tilfelli reyndi ég árangurslaust að mótmæla lélegri tímasetningu á tónleikunum (sumardaginn þriðja hvað ha), en fyrst ég fékk engu um það ráðið, VALDI ég að hitta nemendurna 2 dögum fyrir tónleika, frekar en að láta þá spila illa á tónleikunum. Já Þórdís mín, það er ljóst hvaðan frumburðurinn hefur "smámunasemina".

Laufey B Waage, 28.4.2008 kl. 22:42

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Gleðilegt sumar til þín líka Laufey mín.  Og þessi tími er dásamlegur líka fyrir litlu tónlistarmennina okkar.  Knús á þig inn í daginn.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.4.2008 kl. 13:18

8 identicon

Já, sjaldan fellur eggið langt frá eikinni - og jarðeplið langt frá steikinni

Aðalsteinn (IP-tala skráð) 30.4.2008 kl. 00:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband