30.4.2008 | 10:55
Sérviska.
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að hvers kyns ósætti á milli fólks, eigi sér að miklu leyti rætur í mismunandi hugtakaskilningi. Við erum oft miklu meira sammál en við höldum. Til að undirstrika þessa skoðun mína ætla ég að skrifa nokkra pistla, þar sem ég tek fyrir eitt orð í einu.
Byrjum á sérviskunni. Stundum er sagt við mig að ég sé nú meiri sérvitringurinn, t.d. þegar mér er ekki sama hvernig kaffi ég drekk og úr hvernig íláti (sökum sérvisku minnar vil ég helst bara sojalatte úr fallegum postulínsbolla, en ekki lapþunnan og soðinn uppáhelling úr plastglasi). "Takk" segi ég þá, - því fyrir mér er sérviska mikið hrósyrði, þó sá sem hreytti þessu út úr sér hafi verið að finna að við mig.
Viska er mjög jákvætt orð, það fer enginn í grafgötur um það, að það er verið að hrósa honum, ef sagt er að hann sé vitur. Sérviska hlýtur að vera ennþá jákvæðara, þú ert þá ekki bara vitur, heldur býrðu yfir sérstakri visku. Ótrúlegt að það skuli ekki allir vera sammála mér. Reyndar verð ég voða hissa svona yfirhöfuð, að fólk skuli ekki bara geta verið sammála um það sem mér finnst. Það væri svo einfallt og gott.
Það sem undrar mig mest í þessu tilfelli, er að ný-aukin og endurbætt orðabók menningarsjóðs skuli ekki vera mér sammála. Þar er þeirri forpokuðu túlkun haldið fram, að sérviska séu kenjar, duttlungar og frábrigði í skoðun eða hátterni. Ekkert minnst á sérstaka visku. Erðanú!!
Hvað finnst ykkur?
Athugasemdir
Mamma mín. Þarna geristu sek um svokallaðan orðhengilshátt, þ.e.a.s. hengir þig í bókstaflega merkingu hluta samsetts orðs eða eins orðs úr orðasambandi. Kemur mér sosum ekki á óvart. Orðhengilshátturinn er á háu stigi hjá þér og hefur verið í einhvern tíma. Mig minnir að einu sinni hafirðu einmitt sagt að „eigi maður von á“ einhverjum, þá búist maður ekki bara við honum heldur hreinlega voni að hann komi. Kannastu ekki við þetta?
Bjarki (IP-tala skráð) 30.4.2008 kl. 11:48
Góður punktur Laufey mín
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.4.2008 kl. 15:21
Sæl og blessuð frænka og gleðilegt sumar. Vonandi var þetta góður vetur hjá þér og þínum og vonandi verður sumarið gott og gæfuríkt.
En ég er sammála orðabók menningarsjóðs!!! Og ég get líka sagt þér að sú túlkun á vel við mig og svo skal ég líka segja þér að ég er stolt af því og verulega ánægð með mig. Sérviskan í mér getur verið þvílík og slík, að það er óþolandi fyrir þá sem eru í kringum mig. Þannig er nú það
Eigðu góða langa helgi
Þórunn frænka þín.
Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 30.4.2008 kl. 16:14
Bjarki minn: Að sjálfsögðu segist maður ekki eiga von á því sem maður vonast ekki eftir. Það færi betur á því að þið í blaðamannastétt áttið ykkur á því. Það er gjörsamlega óþolandi þegar fréttamaður spyr t.d.: Áttu von á fleiri snjóflóðum? Hver vonast eftir snjóflóðum?!?! Hverjum fréttamanni ætti að vera í lófa lagið að spyrja frekar: Má búast við fleiri snjóflóðum? Já, ég hreinlega ætlast til þess að hver og einn noti hugtakið að búast við - nema hann beinlínis vonist eftir því sem um ræðir. Þetta er ekki orðhengilsháttur (ekki fyrr en ég finn jákvæðari útskýringu og túlkun á orðinu; orðhengilsháttur), - heldur áhugi á réttari og betri málnotkun.
Annars er ég eiginlega sammála Jónu Ingibjörgu; við skulum endilega nota sérvisku-hugtakið bæði yfir kenjar og sérstaka visku.
Að lokum í tilefni dagsins: Öreigar allra landa sameinist!! Gleðilega hátíð.
Laufey B Waage, 1.5.2008 kl. 10:21
Mig langar að taka aðeins annan pól í hæðina, en það er hvernig orðin eru sögð. Það er hægt að segja ,,þú ert nú meiri sérvitringurinn" á svo margan máta.
Það fer allt eftir tóni og viðmóti hvernig setningin hljómar. Í bloggmáli er hægt að sjá það svona ..
"þú ert nú meiri sérvitringurinn" (meira bullið í þér!)
"Þú ert nú meiri sérvitringurinn" (vesen er þetta á þér!)
"Þú ert nú meiri sérvitringurinn" (og klár ertu!)
"Þú ert nú meiri sérvitringurinn" (og skemmtileg í þokkabót) .
Það sem er í sviga er í sjálfsögðu bara lýsing á þeim tóni sem þetta er sagt með!
Annars hef ég mjög gaman að spá í orðum og eiginlegri merkingu, enda hef ég leikið mér mikið með slíkt.
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 1.5.2008 kl. 22:35
Mér finnst kommentið hans Háfldáns Bjarka fyndið :)
Ylfa Mist Helgadóttir, 1.5.2008 kl. 22:54
Takk öll. Jóhanna; ég held að þetta hafi verið sagt við mig akkúrat á allan þennan hátt.
Laufey B Waage, 1.5.2008 kl. 23:21
Mamma, þú ert algjör orðhengill. Með sömu rökum geturðu sagt að „væntanleg kreppa“ sé eitthvað sem þú vonast eftir. Það að eiga von á einhverju og að vona er tvennt ólíkt, alveg eins orðin „væntanlega“ og „væntingar“ eiga ekkert sameiginlegt annað en að vera skrifuð á svipaðan hátt.
Eins gætirðu fullyrt að ef maður er fáfróður þá er maður fróður á mjög takmörkuðu sviði, þ.e.a.s. sérfræðimenntaður. Og að hálfviti viti um það bil helming alls fróðleiks í heiminum, sem væri nú alls ekki svo slæmt. Ég er kannski kominn framúr mér í rökfærslunni hérna, veit það ekki.
Bjarki (IP-tala skráð) 2.5.2008 kl. 11:13
Ofboðslega finnst mér skemmtilegt hvað eplið fellur stutt frá eikinni. Einkasonurinn hefur greinilega fengið þrasgirnina og rökræðusnilldina, að ógleymdum orðhengilshættinum, beint frá móður sinni. Bjarki minn: Að sjálfsögðu tala bara þeir sem vænta kreppunnar, um væntanlega kreppu. Sérfræðimenntaður maður er að sjálfsögðu ekki fáfróður, hann er sérfróður. Og hálfviti veit bara helminginn af því sem vitur maður veit. Það segir sig sjálft.
Laufey B Waage, 2.5.2008 kl. 19:38
Mér hugnast svona orðhengilsumræða. Skemmtilegt.
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 7.5.2008 kl. 22:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.