6.5.2008 | 00:03
Grilmur.
Mig langar til gamans að vekja athygli á nýyrði sem varð til í gær.
Þannig var að eiginmaðurinn hafði leigt sumarbústað um helgina og farið í strákaferð með syni sína. Bráðnauðsynlegt að mínu mati að skilnaðarbörn fái stundum að vera í friði með foreldri sínu, án þess að stjúpforeldrið sé alltaf með. En þegar þeir feðgar voru búnir að vera tvær nætur í burtu, gat vonda stjúpan ekki stillt sig um að elta, ásamt frumburðinum sínum og ömmubörnunum.
Eftir Catan-spil við eiginmanninn og eldri stjúpsoninn, var farið í pottinn. Svo kom að því að okkur mæðgunum þótti tímabært að setja kartöflurnar á grillið, en uppástóðum auðvitað að við værum bara gestir, þannig að eiginmaðurinn fór upp úr og græjaði þetta með kartöflurnar. Það þurfti nú ekki að beita hann neinum fortölum, hann er svo hrikalega almennilegur þessi elska. Og við drottningarnar lágum áfram í bleyti ásamt ömmubörnum og yngra stjúpsyni (það vill svo bráðskemmtilega til, að ömmustrákurinn og yngri stjúpsonurinn eru nánast jafngamlir).
"Nú er mátulegt að setja kjúklinginn á" kalla ég svo - og ligg áfram eins og drottning og held áfram að slúðra (sem þýðir að spjalla, á mínu persónulega tungumáli). Í miðju slúðri snarþagna ég eitt augnablik - og segi svo: finnurðu lyktina?
Hér verð ég að skjóta því að (af því að innskotsatriði í annars löngum formálum hafa nú alltaf þótt frekar "skemmtileg" í mínum ræðum), að þegar ég finn grilllykt, sem oftar en ekki kemur af annara manna svölum, - fer ég oft í netta sjálfsvorkunn yfir því að ég skuli ekki vera á leið í þetta grillpartý. Þarna varð ég þess vegna alsæl og himinlifandi með grilllyktina (innskoti lokið) .
Nema hvað: - Á frumburðinn minn kemur ennþá meiri alsælusvipur og hún segir með mega-fögnuði í röddinni: GRILMUR, GRILMUR.
Ef einhverjir lesendur skildu ekki vera með fattarann í sambandi, þá er þetta að sjálfsögðu stórkostleg stytting á samsetta orðinu grill-ilmur. Hvort frumburðurinn smeið (sterk þátíð af sögninni að smíða) þetta
nýyrði á staðnum, eða var búin að því áður, eða stal því annars staðar frá, - hef ég ekki hugmynd. Mér láðist að spyrja hana. Ég hef aldrei heyrt orðið áður, og finnst það alveg frábært.
En þess vegna spyr ég eins og þáttastjórnandinn í ákveðnum útvarpsþætti: Hafa lesendur heyrt orðið GRILMUR í sinni sveit?
Athugasemdir
Já, ég :)
Ylfa Mist Helgadóttir, 6.5.2008 kl. 00:24
Ekki ég heldur............
Þórunn og Saga frænkur þínar (IP-tala skráð) 6.5.2008 kl. 15:01
Þar kom að því núna flýtti ég mér of mikið,(var að gera tvennt í einu)
Hér á að standa ekki ég............................
Eigðu góðan og blautan dag
Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 6.5.2008 kl. 15:04
Hef ekki heyrt orðið grilmur, en vissulega hljómar það þannig þegar grillilmur er sagt hratt. Fínt að senda bóndann í bústað með synina, það er rétt að stundum hafa börnin gott af því að vera ein með pöbbum sínum, líka þau sem eiga ekki vonda stjúpu!
.. Ég hef nú líka kallað mig, til að halda mýtum á lofti, vondu stjúpuna og er eflaust álíka hræðileg og þú. .. Annars fór ég einmitt á fyrirlestur um stjúpforeldra og tengsl og þar voru kynntar niðurstöður könnunar sem gerð var meðal barna og unglinga og þar kom einmitt í ljós að þau söknuðu oft samveru með feðrum sínum, en höfðu lítið upp á stjúpur að klaga.
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 6.5.2008 kl. 18:25
Grilmur er eitthvað sem ég myndi giska á að hann litli bróðir minn hafi sagt, hann á það til að stytta sér leið. Til vara myndi ég giska á að Halli hennar Ylfu hafi búið þetta til!
Þórdís Einarsdóttir, 6.5.2008 kl. 22:58
Þetta varð nú bara til svona á staðnum (eins og þetta kom út úr honum). En eins og flestar hugmyndir sem eru augljósar svona eftir á þá hefur einhver, einhvers staðar, fengið hana áður :-)
Frumburðurinn (IP-tala skráð) 6.5.2008 kl. 23:50
Mér finnst þetta flott stytting á grill-ylmur heheheh Laufey
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.5.2008 kl. 23:52
Gott orð.
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 7.5.2008 kl. 22:01
Frábært orð! Mætti benda séra Pétri á að bæta því í orðabókina sína.
Guðrún Markúsdóttir, 12.5.2008 kl. 02:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.