14.5.2008 | 00:09
Óvissuferð.
Eiginmaðurinn bauð mér í óvissuferð um helgina. Ég var nú fljót að fatta að þetta væri sumarbústaðaferð, svo óvissan fólst bara í því hvar sumarbústaðurinn væri. - Hélt ég. Svo ég tók með mér gönguskó, sundbol, spil og góða bók - og bjó mig undir að slaka á í ekta sumarbústaðaferð. Þess má geta, að ég hef aldrei skilið fólk, sem leigir sér sumarbústað - og er svo eins og þeytispjald út um allar jarðir, í stað þess að slaka á í bústaðnum. Þegar ég er í bústað, hreyfi ég mig helst ekkert öðru vísi en gangandi.
En eiginmaðurinn hafði auðvitað fattað að ég hafði fattað að við værum á leið í bústað, þannig að hann fékk á síðustu stundu hugmynd að enn meiri óvissu, án þess að ég vissi.
Í miðju Triviali með morgunkaffinu fór eiginmaðurinn að ókyrrast. "Svona förum nú að drífa þetta af, það er brjáluð dagskrá framundan". Yfirleitt er það nú ég sem rek á eftir honum í spilum, svo þetta var dáldið ólíkt honum (nei ég segi ekki hvernig spilið fór).
Sumarbústaðurinn var við Skálholt - og brjálaða dagskráin byrjaði með hádegistónleikum í Skálholti. Eftir tónleikana vildi hann rjúka af stað og lagði til að ég tæki með mér skárri gallann og helst líka tannbursta o.þ.h. ef okkur skildi detta í hug að gista annars staðar.
Ég settist inn í bílinn og stillti mig inn á nýja óvissu. Eftir nokkra kílómetra keyrslu bað hann mig að kíkja á kortið og segja sér hver væri besta leiðin til Þingvalla. Ég gat auðvitað sagt honum sitthvað um Lyngdalsheiðina og Grímsnesið án þess að kíkja á kort - og nú fór ég að stilla mig inn á Þingvelli. Verst þótti mér hvað mér var illt í fótunum, en ég gat samt ekki hugsað mér annað en ganga inn í Skógarkot.
Eftir örstutt pissustopp í þjónustumiðstöðinni hélt eiginmaðurinn áfram upp á Mosfellsheiðina. Hva, ætluðum við ekki á Þingvelli? spurði ég. Ónei, það var víst ekki þannig. Og aftur tók óvissan við.
"Veistu hvar maður beygir í átt að Vindáshlíð?" var næsta spurning. Já ég vissi það, og nú vissi ég líka hvert við vorum að fara. "Sérðu alla bílana við Vindáshlíð?" spurði hann svo þegar við sáum þangað. "Já hvað er um vera þar"? spurði ég auðvitað á móti. "Það kemur í ljós" var það eina sem ég fékk að heyra. Við beygðum Vindáshlíðarafleggjarann og ég spurði hvort ég ætti ekki að fara út og opna hliðið. "Nei nei" sagði minn, snéri við og hélt í átt að Hvalfirði. Þá fór mér nú bæði að hætta að verða um sel og rostung. "Hannes við erum ekki að fara í vinnuflokk í Vatnaskógi, ég er í orlofi" sagði ég. "Hva, við getum nú aðeins tekið til hendinni" sagði minn og keyrði áfram.
Þegar við vorum komin að hliðinu í Vatnaskógi, stoppaði minn og sagði að við skildum nú klára að hlusta á uppáhaldsútvarpsþáttinn minn, það væri svo slæmt samband í brekkunni. Að honum loknum snéri hann aftur við og keyrði frá Vatnaskógi. Þá hætti ég nú alveg að vita hvað ég hét.
Þannig að þegar hann stoppaði bílinn fyrir utan Hótel Glym, þótti mér komið nóg af svo góðu. Ef hann hefði keyrt burtu frá Hótel Glym hefði ég misst vitið. En sem betur fer gerði hann það ekki. Þar áttum við sem betur fer pantað herbergi og mat og nutum þess í botn að vera þar fram á sunnudagshádegi. Þá keyrðum við sömu leið til baka og gistum aðra nótt í sumarbústaðnum við Skálholt, grilluðum, spiluðum, fórum í pottinn og allt það sem sumarbústað fylgir.
Á bakaleiðinni fékk ég mína yndislegu Skógarkotsgöngu (fótaverkurinn löngu horfinn).
Að lokum langar mig að segja frá því að ég hjólaði í kvöld upp í Skaftahlíð og til baka. Og var ekkert smá unaðslegur gróðurilmur sem fyllti vit mín á leiðinni (aðallega birki held ég). Í fyrsta sinn þetta vorið. Þannig var það ekki í sveitinni. Þó það sé yndislegt að njóta slökunar í sveitinni af og til, þá er Reykjavíkin mín bestust svona að öllu jöfnu.
Lifið heil.
Athugasemdir
Þetta hefur verið dásemd og dýrð!!!!
Kveðjur í bæinn
Þórunn Jóhannsdóttir (IP-tala skráð) 14.5.2008 kl. 18:29
Frábær eiginmaður!!!...
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 14.5.2008 kl. 20:45
Hann Hannes þinn er algjör dýrð og draumur Laufey mín með öll sín uppátæki og óvissuferðir. Knús á ykkur bæði.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.5.2008 kl. 23:57
Já ég er vel gift, það er ekki spurning. Við eigum það sameiginlegt hjónin .
Laufey B Waage, 15.5.2008 kl. 10:45
Hugmyndaríkur og góður eiginmaður ... já, og ekki er frúin verri, heheheh! Snjallt hjá honum að fara með þig í dýrðina á Hótel Glym, mikið finnst mér alltaf gott og gaman að koma þangað ...well, í þessi þrjú, fjögur skipti mín.
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 15.5.2008 kl. 19:28
He, he, já auðvitað líka frábær eiginkona!
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 15.5.2008 kl. 21:31
Það þarf að fjölfalda manninn (og þig örugglega líka).. Þessi kann að gera konu til geðs. Farin að hrista minn vesæla eiginmann sem gerir sjaldan svona nokkuð.
Græn af öfund.
Jenný Anna Baldursdóttir, 16.5.2008 kl. 16:57
Takk elskurnar. Þið eruð yndislegar.
Laufey B Waage, 16.5.2008 kl. 23:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.