18.5.2008 | 12:58
Stöðuveiting, afmæli og kennarablóm.
Sonur minn rokkarinn ....... - nei bíddu nú við, það er ekki víst að ég geti notað þetta hugtak öllu lengur, því nýlega fékk sítt og mikið rokkarahárið (ásamt tilheyrandi skeggi) að víkja fyrir snyrtilegri herraklippingu. En hann rokkar nú samt.
Byrja upp á nýtt: Sonur minn Ísfirðingurinn (þetta gildir þó pottþétt ennþá, hann er ýktasti Ísfirðingur sem ég þekki - og eru þeir margir slæmir) sótti fyrir nokkrum vikum um starf upplýsingafulltrúa Ísafjarðarbæjar. Hann var viss um að fá ekki starfið, því umsækjendur voru margir, m.a. einhverjir sprenglærðir að sunnan, sem ekki var hægt að ganga framhjá. En nú í vikunni var loksins ráðið í stöðuna - og það var nýsnyrtur rokkarinn sem var ráðinn. Auðvitað er hann bestur.
Nú stendur yfir tími nemendatónleika, prófa og síðustu kennsludaga vorsins. Og nemendur mínir keppast við að gefa mér blóm. Ég hef aldrei fyrr fengið svona mikið af blómvöndum frá nemendum. Og ég er alsæl. Bæði með að hafa svona blómlegt heima hjá mér - og miklu frekar með þakklætið sem greinilega er ástæða þessara blómagjafa.
Í dag eiga 3 vinkonur mínar og frænkur afmæli. Ein þeirra býr í 50 kílómetra fjarlægð, önnur í 160 kílómetra fjarlægð, og sú þriðja í 450 kílómetra fjarlægð. Ég er að hugsa um að skreppa í kaffi til þeirrar sem býr í 50 kílómetra fjarlægð. Lengra ferðalag hentar mér ekki í dag, þar sem ég á að lesa í messu í kvöld. Ég hlakka til að hlusta á predikara kvöldsins, en það er hinn bráðgreindi, húmoríski, hagmælti, og í flesta staði frábæri Guðfræðinemi Davíð Þór Jónsson.
Njótið vorsins.
Athugasemdir
Innilega ti lhamingju með þetta allt saman mín kæra. Auðvitað er Bjarki bestur í þetta starf
Bestu kveðjur úr Grindavíkinni
Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 18.5.2008 kl. 19:49
Til hamingju með soninn.
Heidi Strand, 18.5.2008 kl. 20:38
Innilega til hamingju með strákinn, hann á eftir að standa sig vel. Til lukku með nemendurna, þetta er eiginlega besta hrósið ekki satt, þegar þessar elskur vilja gefa þér blóm.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.5.2008 kl. 22:52
Takk elskurnar.
Laufey B Waage, 18.5.2008 kl. 23:48
Til hamingju með soninn og þig sjálfa!
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 19.5.2008 kl. 16:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.