Öðruvísi dagar.

Kista SMMVið bárum tengdaföður minn til grafar í gær. Hann var 86 ára gamall þegar hann dó, núna á laugardagskvöldið var. Hann var dáldið fótafúinn undir það síðasta, en að öðru leyti mjög hress. Hann fékk hægt og eðlilegt andlát, án undarfarandi veikinda.

Hann var jarðsettur í Landsveitinni, hvaðan hann var, - og við vorum í miðri erfidrykkju þegar jarðskjálftinn skall á. Þá tók við töluverð bið, meðan við vissum ekkert hvort og hvernig við kæmumst heim. Ölfusárbrú og Óseyrarbrú voru ýmist lokaðar til skiptis, eða báðar í einu - og það var meira að segja varað við Lyngdalsheiðinni. Ég hafði mestar áhyggjur af frumburðinum mínum sem ætlaði til útlanda í nótt, með sína 5 manna fjölskyldu. Það var grínast með, að við yrðum bara að panta þyrlu undir hana, við hin yrðum öll að gista á Leirubakka (hvar tengdapabbi var fæddur og uppalinn). Það var líka heilmikið grínast með að þetta væri líkt þeim gamla, að kveðja með þvílíkum látum. Hann var alltaf mjög stríðinn. En svo komumst við heim, gegn um Selfoss og Hveragerði - og vegurinn var ekki næstum því eins illa skemmdur og talið var. Já þessi dagur verður víst ábyggilega lengi í minnum hafður.

 Dagurinn sem tengdapabbi dó, var líka einn af þessum öðruvísi dögum. Sem betur fer eru ekki margir dagar í lífi manns, sem rammaðir eru inn af slysa- og andlátsfréttum af manns nánustu. Dagurinn hófst sem sagt á því, að ömmudrengurinn minn, 9 ára gamall, hringdi og sagði að bíll hefði keyrt á hann (um kl.17 daginn áður) þar sem hann var að hjóla yfir Lönguhlíðina. Það kom auðvitað sjúkrabíll, sem fór með hann á sjúkrahús - og allur sá pakki, - en hann slapp alveg ótrúlega vel. Maður þarf nánast að leyta að skrámunum með stækkunargleri. Bíllinn lenti á framdekki hjólsins - og maður vill ekki hugsa þá hugsun til enda, hvernig hefði farið, ef hann hefði verið sekúntubrotabroti fyrr á ferðinni - og bíllinn lent á honum sjálfum, en ekki dekkinu. Svo restina af deginum var ég yfirfull af þakklæti fyrir að ekki fór verr - og von um að þetta yrði drengnum víti til varnaðar. 

Í miðri júróvision-símakosningu var svo hringt og sagt að tengdapabbi hefði verið að deyja.

Já sumir dagar eru greinilega öðruvísi-dagar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Jahérnahér. Samhryggist vegna andlátsins, en til hamingju með góðu minningarnar um hann.

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 30.5.2008 kl. 22:29

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Samúðarkveðjur

Jenný Anna Baldursdóttir, 30.5.2008 kl. 23:29

3 Smámynd: G.Helga Ingadóttir

Ég samhryggist þér, en engu síður gott að fá að fara svona. Gott að ekki fór ver með drenginn, mikil vermd. Vertu velkomin í Eldstó Café í sumar, ef að þú átt leið um svæðið!

G.Helga Ingadóttir, 31.5.2008 kl. 21:04

4 Smámynd: Guðrún Markúsdóttir

Ég samhryggist ykkur.

Guðrún Markúsdóttir, 31.5.2008 kl. 23:18

5 identicon

Kysstu og faðmaðu hann Hannes frá okkur, samúðarkveðjur til ykkar allra frá southpark.

Það voru margir sem misstu kæra muni, þó minningarnar tengdar þeim lifi vonandi enn, í skjálftanum á suðurlandinu, fór einmitt í gær (föstud) og aðstoðaði Magnúsínu frænku við hreinsunarstörf ásamt mömmu pabba og Sigrúni. Mesta mildin og Guðsblessunin var þó að ekki voru nein stórslys á fólki í öllum þessum látum.

Kveðja Brynja og fam.

Brynja (IP-tala skráð) 1.6.2008 kl. 01:22

6 Smámynd: Heiða  Þórðar

Ég sendi mínar samúðarkveður

Heiða Þórðar, 1.6.2008 kl. 13:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband