6.6.2008 | 14:11
Annir í sumarfríi
Meira hvað það er brjálað að gera í sumarfríinu. Ég hef t.d. farið daglega til Keflavíkur, ólíkra erinda.
En höldum áfram þar sem frá var horfið. Ég var í svo brjáluðu þrifastuði á mánudaginn, að ég sleppti ekki tuskunni fyrr en nokkrum mínútum áður en svilkonur mínar mættu í matarboð. Svo ég skellti þeim bara í að hjálpa til. Önnur fékk að rífa niður gulrætur í fiskisúpuna, meðan hin mótaði konfektkúlur a la Laufey (sykurlausar að sjálfsögðu, en ógessla góðar), sem ég rétt náði að hnoða áður en þær mættu. Við sátum svo og slúðruðum (spjölluðum heitir það hjá venjulegu fólki) til að ganga tvö um nóttina, aðallega um þessa stórskrýtnu, en yndislegu bræður sem við erum giftar. Það var heldur betur kominn tími til að við hittumst bara þrjár einar og sér.
Á miðvikudaginn sótti ég svo einkasoninn og tengdadótturina í Leifstöð, en þau höfðu skroppið til Stokkholms, að taka á móti efnaverkfræðimeistaraskírteini þeirrar síðarnefndu. Þau héldu svo upp á útskriftina með því að koma við í Mílanó á bakaleiðinni (ha, er það ekki í leiðinni?).
Rokkarinn fór auðvitað beint vestur í faðm fjalla blárra, en við verkfræðingurinn rúntuðum um höfuðborgarsvæðið mest allan gærdaginn. Hún kann sem betur fer vel að njóta iðandi mannlífs hundrað og eins með tengdamóður sinni þessi elska, en í þetta skiptið átti hún erindi í nokkra útkjálka og ystu jaðra höfuðborgarsvæðisins. Við gátum þó sem betur fer endað daginn (ásamt heimasætunni) á kaffibolla í Bankastræti og spásseringu upp í Kron-skóbúðina, með viðkomu í örfáum skemmtilegum búðum á Laugaveginum.
Enda þannan pistil á hamingjuóskum til frumburðarins og tengdasonarins, en þau eiga 5 ára brúðkaupsafmæli í dag. Vona að þau fari algjörlega á mis við spænsku úrhellisrigninguna, á sólarströndinni þar sem þau eru að halda upp á daginn.
Held áfram með orðhengilsháttinn, í seinasta lagi á sunnudaginn.
Góða helgi.
Athugasemdir
Skemmtileg færsal, skemmtilegt líf. Bráðmyndarlegt fólk sem stendur að þér.
Stelpupartíin eru alltaf þau bestu.
Helgarkveðjur til þín Laufey mín.
Jenný Anna Baldursdóttir, 6.6.2008 kl. 15:58
Til hamingju með efnaverkfræðititil tengdadótturinnar.
En hvað er hann tengdasonur þinn eiginlega með á hausnum?
Þ
Þórdís Einarsdóttir, 6.6.2008 kl. 20:15
Takk stelpur.
Tengdasonurinn er með hálsbindið sitt bundið um ennið.
Laufey B Waage, 7.6.2008 kl. 00:11
Sendi auðvitað hamingjuóskir til Berglindar frænku minnar og Palla frænda míns með brúðkaupsafmælið, og svo til Bjarka frænda míns með nýju stöðuna og Dóru Hlínar frænku minnar með útskriftina. Þetta er að verða mjög grunsamlegt hvað Vennarnir sækja í Hvítanesættina, (eða er það öfugt). Þetta eru náttúrulega eðalgen þarna úr Fljótavíkinni. Ég gæti allavega talið 10 pör af þessu tagi án þess að hugsa mig um.
Sigríður Jósefsdóttir, 9.6.2008 kl. 23:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.