8.6.2008 | 12:00
Óveðursganga.
"Ég er ekki vatnshrædd. Ef maður ætlar að ferðast um Ísland, - ég
tala nú ekki um, gangandi - þá verður maður að gera ráð fyrir öllum veðrum og búa sig samkvæmt því". Þennan ræðustúf hélt ég einu sinni sem oftar nú fyrir helgi, þegar mér var sagt að roki og rigningu væri spáð fyrir laugardaginn. Ræðustúfinn rifjaði ég upp fyrir sjálfri mér í upphafi göngunnar í gær og litlu munaði að ég æti hann oní mig strax á fyrstu metrunum.
Það var slydda þegar við fórum út úr rútunni við fjallið Þorbjörn. Hún breyttist snarlega í haglél - og nokkrum sekúntum síðar í hellidembu, sem stóð næstu 5-6 klukkustundirnar. Og vindurinn var ekki beint að læðast með veggjum (eða hlíðum), hann æddi um með hávaða og látum. Rok og rigning var mjög vægt til orða tekið.
Ég hélt ég væri í nokkurn vegin regnheldum hlífðarfötum, en ýkjulaust!!; ég var orðin holdvot strax á fyrstu mínútunni. Sokkar, nærbuxur, bolur og allt eins og dregið upp úr ísköldu stöðuvatni. Og 5 stunda ganga framundan. Frekar ónotaleg tilfinning. Hefði átt að taka með mér góða bók og verða eftir í rútunni. En rútan var farin.
Svona eftir á, var þetta samt mjög góð gönguferð. Mér bara líður alltaf svo vel þegar ég geng úti í íslenskri náttúru. Jafnvel við aðstæður sem þessar. Þetta var reyndar ekki fjallganga, eins og ég missti út úr mér í síðustu færslu,- heldur gengum við um heilmikið sprungusvæði þarna á Reykjanesinu og skoðuðum slatta af hlöðnum byrgjum. Reyndar sá ég ekki mikið út um rennblaut gleraugun. Fann þess vegna fyrir smá hræðsluvotti, þegar við gengum yfir grýtt og úfið hraunið, þar sem brussunni mér hefði verið trúandi til að fljúga á hausinn á rennblautu og sleipu grjótinu og bera fyrir mig vettlingalausa fingurna. Af umhyggju fyrir píanófingrunum fór ég varlega.
Eftir 5 tíma göngu tók við hálftíma bið eftir rútunni (gangan hafði verið áætluð fimm og hálfur, en maður gengur auðvitað hraðar í óveðri), sem keyrði okkur í Sundlaug Grindavíkur. Oft hefur verið gott að leggjast í heitan pott, en aldrei eins og þarna. Enda hafði ég séð pottinn í hyllingum mest alla gönguferðina. Við snæddum svo í Saltfiskhúsinu og sungum svo og dönsuðum áður en haldið var heim á leið.
Ég svaf vel og lengi í nótt.
Athugasemdir
Þú ert algjör jeppi (hetja) kona. Vá, ég hefði lagst til jarðar og grátið á fyrstu mínútunum. Úff.
Jenný Anna Baldursdóttir, 8.6.2008 kl. 13:12
Elsku Laufey mín þú hefðir átt að hringja í mig. Hefði komið í kvelli með þurr föt, "te og tvær smurðar" handa þér. Eða bara tekið þig með mér heim í hosiló og skuttlað þér í sundið. En þú ert hetja og lætur ekki óveður á Suðrnesjum á þig fá.
Kveðjur úr Grindavíkinni
Þórunn Jóhannsdótir (IP-tala skráð) 8.6.2008 kl. 14:26
Takk stelpur. Þórunn mér varð hugsað til þín þarna hinu megin við Þorbjörn og ég gældi við hugmyndina um að hringja.
Laufey B Waage, 8.6.2008 kl. 14:36
Fyndið, fyrst þegar ég las fór ég að hugsa hvernig þið hefðuð getað verið 5 tíma að ganga á Þorbjörn! .. en það upplýstist þegar ég las næstu línur. Þetta hefur verið fin ganga, en samt fúlt að fá eina virkilega rigningardaginn á löngu tímabili yfir sig..
Sundið er aldrei yndislegra en þegar maður (í merkingu maður og kona) kemur kaldur og hrakinn ofan í heita laugina mmm...
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 8.6.2008 kl. 17:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.