11.6.2008 | 21:04
Að þurfa, velja og mega.
Nýlega missti ég það út úr mér hér á síðunni, að ég hefði þurft að vinna á sumardaginn fyrsta. Frumburðurinn pikkaði í mig í athugasemdadálkinum - og ég leiðrétti mig hið snarasta. Í mörg ár hef ég haldið því fram, að ég þurfi hvorki að gera eitt né neitt. Allt sé frjálst val.
Meira að segja þegar ég hef unnið sem mest (allt að 170% kennslu), en samt ekki átt fyrir osti ofan á brauðið; man ég eftir að hafa legið í heitu baði og sagt við sjálfa mig: Mikið eigum við íslendingar gott að geta notið þess að liggja í heitu hreinu vatni hvenær sem okkur dettur í hug. Ég sé sko ekki eftir peningunum sem ég borga í hitaveituna í hverjum mánuði. Það eru heldur ekki allir jarðarbúar sem hreiðra um sig í mátulega heitum híbýlum árið um kring. Og hvað ég er heppin að hafa getað keypt þessa yndislegu íbúð. Ég sé hvorki eftir peningunum sem ég borga fyrir hana í hverjum mánuði, né heldur tímanum sem fer í að vinna fyrir henni.
Já það hefur oft komið sér vel, að hafa verið innprentaður Pollýönnuleikurinn í æsku, þó á snemmfullorðinsárum hafi hann oft farið í taugarnar á mér. En í dag hugsa ég þetta ekki sem Pollýönnuleik, þ.e. að láta allt yfir sig ganga - og gera bara gott úr því. Alls ekki. Ég sé allt sem val. Stundum koma upp aðstæður, þar sem manni finnst maður bara eiga val um að láta hengja sig eða skjóta (líkingamál að sjálfsögðu), en þú átt samt alltaf val. Og þegar maður hefur valið, þá verður maður að temja sér að líta á kostina við valið, því þeir eru jú fleiri en við hinn möguleikann.
Ég þekki mann, sem var tilfinningalega stórþjáður af virkum alkóhólisma, en hann gat ekki farið í meðferð, því hann var viss um að lenda í herbergi með illa lyktandi stórreykingamanni, sem hryti allar nætur, svo hann gæti ekkert sofið. Hann gæti jafnvel lennt í herbergi með barnaníðingi eða morðingja. "Þú bara velur þarna á milli. Svo nýturðu kostanna við nýtt og betra líf án drykkjunnar, eða þú nýtur þess að drekka áfram" sagði naívistinn ég. "Þú skilur þetta ekki Laufey mín" var svarið. Enda hefur fíkillinn alltaf réttlætingarnar á reiðum höndum.
Við höfum alltaf val. Og við þurfum aldrei að velja verri kostinn. Ég hef oft fengið fáránlegar spurningar á borð við: Þarftu að spila á öllum þessum tónleikum? Þarftu að fara svona oft í leikfimi? Mörgum finnst að ég gæti sloppið mun billegar frá lífi mínu og starfi. Og ég get valið það. Ég get valið að sleppa billega. Í flestum tilfellum finnst mér bara svo miklu skemmtilegra og dýrmætara að leggja dáldið á mig og njóta kostanna við það. Þess vegna vel ég það.
Að mega ekki, er hugtak sem tengist þessu stundum. Oft er sagt við mig: Þú mátt borða þetta, það er enginn sykur í því. Þá svara ég alltaf eins: Ég má borða hvað sem ég vil, ég hef bara valið að borða ekki sykur í dag, því þannig líður mér svo miklu betur, auk þess sem mig langar ekki að vera virk í þeirri fíkn aftur.
Ég þarf ekki. Ég má og vel. Lökkí mí.
Athugasemdir
Maðurinn hefði getað endað í herbergi með öðrum alkóhólista og setið uppi með hausverkinn af því að sjá sjálfan sig í náunga sínum.
Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 11.6.2008 kl. 23:08
Frábær pistill það segi ég satt.
Þú veist ekki hversu margar réttlætingar á áframhaldandi drykkju ég hef heyrt um ævina og haft margar á hraðbergi sjálf.
En við eigum alltaf val. Og oftast rambar maður á það rétta, amk. í fyllingu tímans.
Jenný Anna Baldursdóttir, 12.6.2008 kl. 00:42
Mikið rétt við eigum alltaf val, og það er gott að eiga val.
Það sagði líka við mig maður (örugglega sami maður)"Þú skilur þetta ekki Þórunn mín" þegar ég tók við hann sömu umræðu og þú. En hann hefur ekki sagt þetta við mig í bráðum fimm ár!!! Ég nefnilega VALDI rétta leið.
Eigðu góðan dag sæta.
Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 12.6.2008 kl. 08:27
FLott pæling hjá þér Laufey mín. Og alveg sönn og rétt. Við eigum val, ef við viljum það. Knús á þig inn í nóttina.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.6.2008 kl. 01:28
Gott, gott. Já, hvað er að sleppa "billega" frá lífinu? Afar áhugavert, I must say.
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 13.6.2008 kl. 21:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.