16.6.2008 | 14:07
Þrítugur sonur.
Sonur minn Ísfirðingurinn varð þrítugur á laugardaginn. Og að sjálfsögðu keyrði mín vestur, ásamt eiginmanni og dætrum. Þorskafjarðarheiðin og Hestakleifin voru óvenju slæmar yfirferðar (sagði frumburðurinn sem fer þetta mun oftar en ég, - mér fannst ekkert að þessum vegum, - ekki miðað við í gamla daga), en Yarisinn stóð sig eins og hetja, - enda afburðabílstjóri við stjórnvölinn.
Afmælisdagurinn hófst á veislubröns. Alls kyns gúmmolaðis brauðmeti ásamt afmælistertu að sjálfsögðu. Í stað þess að blása á 30 kerti undir afmælissöngnum, skaut drengurinn tappa úr freyðivínsflösku sem tengdafjölskyldan hans mætti með.
Tengdafjölskyldan mætti líka með brandara. Tengdafaðirinn er mikill golfáhugmaður og golfleikari, - en sonur minn hefur hæðst óspart að slíkum plebbaskap. Fyrir afmælið hafði tengdafaðirinn gaukað að honum spurningum á borð við: Er einhver ákveðin tegund af golfsetti sem þú vilt fá í afmælisgjöf? Svo mæta þau í afmælisbrönsið með umslag merkt í bak og fyrir Golfklúbbi Ísafjarðar, og í umslaginu er kvittum fyrir 30 kennslustundum með virtum golfkennara.
Börnin mín eru alveg einstaklega kurteis og vel upp alin. Ég hvíslaði að frumburðinum: Þetta er grín hjá þeim. En hún hvæsti bara; nei, - í umvöndunartóni. Og sonur minn afmælisbarnið brosti kurteislega og þakkaði allri tengdafjölskyldunni með kossi.
"Ertu viss um að þú sért ánægður með þetta" spurði tengdamóðirin aftur og aftur. "Já" sagði minn og brosti sínu blíðasta uppgerðarbrosi. "Já en við erum með plan B", sagði hún þá og benti á kassa með gasgrilli, sem átti að vera alvöru-afmælisgjöfin. "Ég skal samt taka út þessa 30 tíma, vera leiðinlegur nemandi og spyrja virkilega heimskulegra spurninga" tautaði afmælisbarnið meðan hann skrúfaði grillið saman undir styrkri leiðsögn stóru systur sinnar Ikea-drottningarinnar.
Milli afmælisveisla náði ég að heimsækja þrjár vinkonur.
Klukkan 18 byrjaði afmælisbarnið að grilla pylsur ofan í um 40 afmælisgesti. Þetta var bráðskemmtileg veisla, haldin í húsnæði, hvar fyrir aftan var lokað huggulegt port, með tennisvelli, sem var óspart notaður; - fyrst fyrir tennis og badminton, en eftir það fyrir nýja íþrótt sem var uppgötvuð á staðnum og kölluð tennisbolti. Þetta er fótboltaleikur, tvö tveggja manna lið sem sparka bolta yfir lækkað tennisnet. Meira að segja ég hafði mjög gaman af - og hefði örugglega munstrað mig í eitt liðið, ef ég hefði ekki verið í gulu pinnahælaskónum. Klukkan var farin að ganga 3 þegar við röltum heim í ísfirsku næturkyrrðinni.
Ég var einstaklega hrifin af einni afmælisgjöfinni. Það var steinbítur sem einn vinur hans hafði búið til úr fjörugrjóti. Hann sagðist hafa búið til helling af þessu, svo ég fékk að heimsækja hann daginn eftir og kaupa einn af honum. Hann gaf mér svo sól úr grjóti og ekta netakúlu í kaupbæti.
Annan í afmæli röltum við svo niður í Tjöruhús í hádegisplokkfisk. Afmælisbarnið fór auðvitað á hjólinu sem eiginkonan hafði gefið honum í afmælisgjöf.
Á suðurleiðinni voru rigningarskúrir, svo vegirnir voru ekki skárri en á vesturleiðinni. Eitt er á hreinu: Bíllinn verður þrifinn í dag. Bæði að utan og innan.
Best að bretta upp ermarnar.
Athugasemdir
Þetta hefur verið hin skemmtilegasta afmælishelgi, gaman hefði verið að taka þátt en ég heimsæki hann þegar við förum vestur í byrjun júlí.Enn og aftur hamingjuóskir með soninn þrítuga knús á þig þar til næst
Mallý (IP-tala skráð) 16.6.2008 kl. 14:32
Til hamingju með soninn. Mikið rosalega er þetta flottur fiskur.
Jenný Anna Baldursdóttir, 16.6.2008 kl. 15:33
Til hamingju með drenginn þinn Laufey mín,
Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 16.6.2008 kl. 18:19
Til hamingju með soninn! Ég skipti úr Yaris í Hondu Jazz fyrir ári síðan u.þ.b. - þetta eru bæði ágætis bílar. Stein-steinbíturinn er svaka flottur .. hef aldrei séð svona áður - en teldi þetta prýðis viðskiptahugmynd, hmmm...
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 18.6.2008 kl. 06:56
Til hamingju með afmælið Bjarki og til hamingju með drenginn Laufey og allir hinir grísirnir...! :D
Þ
Þórdís Einarsdóttir, 18.6.2008 kl. 08:51
Til hamingju með strákinn þinn Laufey mín, Hálfdán Bjarki er flottur strákur. Sá hann einmitt í Sólgötunni um daginn í kuldajakka með þykka húfu á hausnum í sólinni, hélt fyrst að það væri túrhestur, en áttaði mig svo á því að þetta var hinn eini sanni hehehehe....
Ég er stolt af syni mínum líka, og listaverkunum hans. En hann gerði þennan fisk hugsa ég.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.6.2008 kl. 14:26
Takk stelpur.
Ásthildur þú mátt sko vera stolt af honum. Hann er mikill listamaður og yndisleg manneskja með virkilega góða nærveru.
Laufey B Waage, 18.6.2008 kl. 15:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.