10.7.2008 | 00:03
Ljósmæður.
Vá hvað ég hefði viljað vera með myndavélina á mér í gærmorgunn, þegar ég fór í samstöðu með ljósmæðrum við stjórnarráðið. Þar lá kunningjakona mín, sem á von á barni eftir 3 vikur með bera bumbuna út í loftið - og á hana hafði hún teiknað bresti, eins og í brotnandi eggi. Hún hélt á spjaldi sem á stóð: In case of no midwife, break an egg. Það er reyndar stór mynd af henni í mbl. í dag, nema hvar þar segir að hún sé ljósmóðir, sem hún er ekki.
Í staðin reyndi ég að taka mynd af mynd af mér, sem er tekin 3 vikum áður en dóttir mín ljósmóðirin fæddist. Hún fæddist 16 merkur, en það er varla hægt að sjá að ég sé ólétt, þó ég reyni að þrýsta bumbunni út í loftið. Enda var maður bara unglingur. Afsakið hvað myndatakan tókst illa. Ég verð greinilega að læra að skanna.
Ég vona bara að stjórnvöld sjái sóma sinn að leiðrétta launin þeirra. Það er nóg til af peningum í þessu landi og hefur lengi verið svo. Mér sem skattgreiðanda í þessu landi hefur lengi gramist að ekki skuli vera hægt að nota peninga úr sameiginlegum sjóði í það sem manni finnst skipta máli, eins og t.d. að borga kennurum og heilbrigðisstarfsmönnum sómasamleg laun. Ég trúi ekki öðru en að flestum skattgreiðendum finnist það. Af hverju getum við þá ekki krafist þess?
Best að hætta áður en ég verð alvarlega pirruð á þessu. Segi frekar frá því, að ég gladdist verulega þegar ég las, í fréttablaðinu í gær, að Davíð Þór Jónsson (ekki vinur minn jazzpíanistinn, heldur hinn) ætlar að vera spurningahöfundur og dómari í Gettu betur næsta vetur. Ég held mikið upp á Gettu betur, - auk þess sem ég er einlægur aðdáandi Davíðs Þórs, þess greinda og húmoríska góðmennis. Þannig að ég hlakka mikið til.
Lifið heil.
Athugasemdir
Asskoti ertu pen þarna á steypirnum kona. Reyndar var ég eins og strá í vindi á minni fyrstu meðgöngu. Lítil kúla engin aukakíló. Og það eru að verða 38 ára síðan. Jabb, 19 ára.
Það er mat samfélagsins á laun starfsstéttanna sem kemur berlega í ljós.
ARG
Jenný Anna Baldursdóttir, 10.7.2008 kl. 00:07
Vonandi ná ljósmæður að semja, þetta eru einar mikilvægustu konur landsins! Koma okkur í heiminn. Um leið og ég segi þetta þá pæli ég í hvort að það sé ekki einn einasti karl ljósmóðir ?? ..
Ég var 19 þegar ég átti frumburðinn og var eins og þú Laufey, hitti vinkonu systur minnar á Laugaveginum daginn áður en ég átti og hún tók ekki eftir því að ég var ófrísk... og það var sko aldeilis ekki vegna fitu, var tágrönn - kúlan var bara einhvers staðar í bakinu held ég.
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 10.7.2008 kl. 20:25
Takk stelpur. Ég var nýlega 17 þegar frumburðurinn minn fæddist. Daginn áður en hún fæddist var ég 5 kílóum léttari en ég er í dag, og er ég þó í eðlilegum holdum núna.
Nei það er enginn ljósfaðir á Íslandi og hefur aldrei verið.
Laufey B Waage, 11.7.2008 kl. 00:00
Styð baráttu ljósmæðra heils hugar. Flott mynd af þér Laufey mín.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.7.2008 kl. 21:13
Það er auðvitað til háborinnar skammar hvernig laun ljómæðra eru. Og bara allra heilbrigðisstarfsmanna svo ég tali nú ekki um launin sem kennarar hafa, þetta er bara "fussum svei" Það er líka ömurlegt að það þurfi oftar en ekki að koma til verkfalls eða leiðinlegra aðgerða til að eitthvað gerist. Og hvað svo sem hefur áunnist!!!! Ekki mikið þetta er alltaf sama helv..... bullið. Segi ekki meir!!! Ætli sé ekki ráð fyrir Siggu að tryggja sér Berglindi í heimafæðingu þar sem barnið á að fæðast í janúar. Nú er ég hætt!!!!
Myndin af þér er flott, og einhvernvegin finnst mér svo stutt síðan hún var tekin.Ég man svo vel eftir því þegar Berglind fæddist.
Eigðu góðan dag Laufey mín.
Bestu kveðjur úr rigningunni í Grindavík.
Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 12.7.2008 kl. 10:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.