13.7.2008 | 15:15
Áskoranir í brúðkaupi.
Merkilegt hvað ég er endalaust að fá nýjar og spennandi áskoranir á gamalsaldri. Í gær gerði ég nokkuð sem ég hef aldrei gert áður. - Ég spilaði í brúðkaupi.
Ykkur finnst það kannski ekkert sérstök áskorun fyrir konu sem hefur spilað á skriljón tónleikum (bara nemendatónleikum nota bene) - og nokkrum öðrum viðburðum, en þetta var dáldið öðruvísi. Ég er alltaf að segja við nemendur mína (og sjálfa mig) að maður verði hvorki hengdur né skotinn þó maður ruglist á tónleikum, en mér fannst þetta dáldið mikið öðruvísi. Þú klúðrar ekki tónlistinni á meðan brúðhjónin eru að ganga inn kirkugólfið, - það er bara einfaldlega ekki í boði.
Svo hafði brúðguminn líka beðið mig að spila undir hjá sér, þar sem hann söng vísur sem hann hafði samið til brúðurinnar (hún vissi ekki af því fyrirfram). Virkilega persónulegar og einlægar ástarvísur. Þetta var einstaklega fallegt og viðkvæmt atriði, sem ég mátti að sjálfsögðu ekki skemma fyrir þessum góða vini mínum. Ég varð að vera stuðningur en ekki hið gagnstæða.
Það var því dáldið stress á minni fyrrihluta gærdagsins.
Auk allrar spilamennskunnar gat ég ekki stillt mig um að vera með afbrigði af brúðkaupsleiknum sem sló í gegn hjá mér í brúðkaupi vinkonu minnar í fyrra.
En allt gekk þetta glimrandi vel. Mér tókst sem betur fer ekki að eyðileggja neitt fyrir þessum góðu hjónum - og brúðkaupið þeirra var allt hið yndislegasta.
Í spennufallinu röltum við hjónin niður í bæ, þar sem við enduðum á tónleikum hjá Hjálmum. Ekki algengt að ég orki að hlusta á hljómsveit sem byrjar að spila klukkan hálf tvö eftir miðnætti (fórum reyndar heim eftir 4-5 lög), en spennufallið verður að fá sína afgreiðslu.
Lifið heil.
Athugasemdir
Til hamingju með að sigrast á hindrun, flott klárað!
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 13.7.2008 kl. 21:43
Það er svo gaman að stíga einu skrefi lengra en maður þorir.
Til hamingju með þetta.
Jenný Anna Baldursdóttir, 13.7.2008 kl. 21:50
Flott hjá þér Laufey mín. Auðvitað stóðstu þig eins og hetja. Það er gaman að takast á við eitthvað nýtt, og mikið hefur verið notalegt að rölta í bæinn og slaka á eftir stressið, og hlusta á Hjálma.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.7.2008 kl. 12:04
Til hamingju með þetta, þú hefur rúllað þessu upp! .. Ég flutti brúðkaupsræðu (í stað prestsins) í brúðkaupi vinkonu minnar og ég hef sjaldan verið eins hrædd um að klikka, þegar einmitt ekkert mátti klikka. Það lukkaðist vel, enda hef ég aldrei æft mig eins mikið fyrir ræðu!
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 15.7.2008 kl. 13:16
Til hamingju! Ég hef aldrei þorað að gerast kirkjuorganisti af ótta við að þurfa að spila í brúðkaupi - eða jarðarför. En auðvitað segjum við nemendunum að það sé eðlilegt að ruglast! Maður þarf bara að kunna að ruglast með snilld.
Guðrún Markúsdóttir, 16.7.2008 kl. 22:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.