17.7.2008 | 19:43
Himnasending á Þingvallaleið.
Við hjónin vorum svo rosalega ánægð með hjólaferðina í Hvalfirði nú nýverið, að við ákváðum strax þá, að hjóla fljótlega á Þingvöll. Sem við svo stóðum við í gær.
Strætókonan í símanum sagði að leið 15 færi upp í Mosfellsbæ og þaðan áfram upp í Reykjahverfi, sem væri endastöðin. Frábært. Frændi minn á heima í húsi sem heitir Reykir og er í hverfi sem heitir Reykja-eitthvað - örugglega Reykjahverfi. Vestast í Mosfellsdalnum. Nákvæmlega þar sem við vildum byrja að hjóla.
Eftir heilmikla króka í gegnum Mosfellsbæ, tók leið 15 stefnuna á Reykjalund. Nei, framhjá Reykalundi og í gegnum hverfi, sem hét Reykjahverfi. Þegar hann var kominn langleiðina upp að Hafravatni, stoppaði hann og fór ekki lengra. "Vegur endar skrapp í mat" eins og ég sá eitt sinn á skilti frá Vegagerð Vestfjarða.
Við reyndum að stytta okkur leið eftir krókóttum malarhjólastígum, í átt að Álafosskvosinni - og þaðan meðfram þjóðveginum yfir í Mosfellsdalinn. Við afleggjarann að hverfi frænda míns, sá ég að það heitir Reykjahlíð, en ekki Reykjahverfi. Ég hefði betur hringt í annan frænda minn, sem keyrir leið 15 (hann var að keyra þegar við fórum Hvalfjörðinn, en ekki núna).
Þegar við vorum búin að hjóla í einn og hálfan tíma, sáum við skilti, sem á stóð; Þingvellir 16 kílómetrar. Upphófst þá hrokakeppni okkar hjónanna: "Þetta er allt of stutt" sagði eiginmaðurinn, "eigum við ekki að hjóla kringum vatnið líka?" "Við hjólum bara heim aftur í kvöld" sagði ég. "Það tekur því ekki að gista fyrir svona stutta ferð" Og í huga mér bætti ég við: "Hvað eru allir þessir bílar að gera hérna? Það tekur því ekki að setjast upp í bíl fyrir svona skottúr".
Og þá gerðist það. Skyndilega kom mjög grunsamlegt hljóð úr framdekkinu. Ég snarsteig af baki. Ójú, - það var sprungið. Er verið að hegna mér fyrir hrokann? var það fyrsta sem ég hugsaði. Og við þessir týpísku fyrirhyggjulausu Íslendingar, með öngvar bætur eða því um líkt. Áttum við að labba að Þingvöllum, í þeirri von að þjónustumiðstöðin þar gæti þjónustað mig í þessum vandræðum. Eftir smálabb, settist ég út í móa til að hringja.
En um leið og ég lagði á, kom englasending af himnum ofan. Englar þessir voru sænskir strákar á hjóli, búnir að hjóla m.a. norður Sprengisand og suður Kjöl, - og voru að sjálfsögðu með allar viðgerðargræjur - og snillingar í hjólaviðgerðum. Þvílík himnasending.
Heimferðin gekk glimrandi, þrátt fyrir dáldin meðvind og örlítið svona uppímóti. Við vorum nákvæmlega 2 klst frá Almannagjá, að Hlégarði í Mosfellsbæ.
Sumsé létt verk og löðurmannlegt.
En alveg varð ég ótrúlega þreytt á að sitja í leið 15 á bakaleiðinni. Þegar ég steig út úr vagninum á Hlemmi, var ég svo þreytt, að ég ætlaði varla að nenna að hjóla heim á Vesturgötu.
Strengjum þess heit að fara ekki framar hjólandi út fyrir höfuðborgarsvæðið án viðeigandi bótabúnaðar.
Njótið helgarinnar í íslenska sumrinu.
Athugasemdir
Rosalegur kraftur er í þér, ég verð þreytt bara á að lesa um afrekin,
Njóttu helgarinnar.
Jenný Anna Baldursdóttir, 17.7.2008 kl. 19:58
Dugnaður er þetta... og heldur betur saga til næsta bæjar frá Vesturbæ.
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 17.7.2008 kl. 21:12
Takk stelpur. Sara, ég fékk kast þegar ég uppgötvaði hægra-dekks-prentvilluna. Svona er að eiga von á gesti í mat, - dauðþreytt eftir hjólatúrinn - og hespa færslunni af á meðan maturinn er í ofninum. - Án þess að lesa yfir. Þetta átti auðvitað að vera framdekkið. Búin að laga. Svo eru 50 km til Þingvalla. Við vorum búin að hjóla í einn og hálfan tíma þegar við sáum 16 km skiltið. Það er ekki prentvilla.
Laufey B Waage, 18.7.2008 kl. 18:56
Dugleg varstu, ekki nenni ég að hjóla nema rétt yfir í næsta hverfi. Fer ekki einu sinni út úr póstnúmerinu!
Þ
Þórdís Einarsdóttir, 18.7.2008 kl. 22:25
Sæl Laufey! Alltaf gaman að lesa bloggið þitt. Ég verð reynda pínu abbó að lesa um á hjólatúra ykkar hjóna...Ég vildi að ég hefði orku í því líkt, og ekki væri nú verra að hafa góðan félaga með sér í slíkar ferðir. Mig langar að hafa samband við þig varðandi 12 spora kerfið í kirkjunni, en það var ég einmitt að spá í þegar við hittum síðast, ásamt Báru, í kirkjunni hjá sr. Bjarna. Annars er hugurinn hjá Báru og hennar fjölskyldu núna... Það er svo stutt síðan ég upplifði það sama. Kær kveðja, Ebba
Ebba Sturludóttir (IP-tala skráð) 19.7.2008 kl. 02:02
Góðan daginn frænka góð,
Þvílíkur og slíkur dugnaður í ykkur hjónum, þetta er frábært
Kveðjur úr sólinni í Grindavík.
Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 19.7.2008 kl. 12:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.