Aftur og nýbúið

LW hjólar á rauðum kjólÉg held ég sé orðin háð hjólinu. Frá apríl og fram í október nenni ég hvorki að ganga né keyra. Enda hentar það mér mjög vel. Ég bý í 101, þar sem flest er í mátulegri hjólafjarlægð. Auk þess sem mikið er um einstefnur og hæga umferð í kring um mig, þannig að ég er fljótari að hjóla en að keyra.

Í gærkvöldi fórum við frumburður á tónleika Buena Vista Social Club. Við fórum ekki í fyrra skiptið þegar þau komu - og vorum ákveðnar í að láta þessa snillinga ekki framhjá okkur fara í annað sinn. Og sáum sko ekki eftir því.

Tónleikastaðurinn var svo gott sem mitt á milli heimila okkar mæðgnanna, svo það var upplagt að hittast þar, hvor á sínu hjóli. En hrokagikkurinn ég lét auðvitað eins og það tæki því varla að hjóla svo stutt. Ég hjóla til þín og svo hjólum við saman á tónleikana sagði ég.

En - wottt?!? Ekki er sprungið, - aftur og nýbúið. Ójú, ekki bar á öðru. Nú var það afturhjólið. Og það er miklu erfiðara að ná því af, en framdekkinu. Auk þess er ég auðvitað ekkert búin að kaupa bótagræjur. Og eiginmaðurinn víðs fjarri. Þannig að ég mætti til frumburðar á Yaris. Hún þáði far með mér þessi elska, þreytt eftir vinnudaginn (á meðan sumir eru bara í sumarfríi).

Það voru greinilega fleiri en við sem ætluðu á þessa tónleika. Við áttuðum okkur í tíma - beygðum í andstæða átt og lögðum við krabbameinsfélagið. Það var ekki fyrr en eftir tónleikana sem við áttuðum okkur á klípunni sem við vorum í. Það var bara ein leið út úr Skógarhlíðinni - og það var eins og landsmenn allir samanlagt hefðu fetað í fótspor okkar og lagt bíl sínum þar.

Við vorum búnar að sitja mjög lengi í kyrrstæðum bílnum, með bíla á alla kanta og ekkert að gerast, þegar ég sagði: Ég væri löngu búin að hjóla heim til þín og heim til mín. Þetta var algjört skólabókardæmi um að það hefði verið betra að vera á hjóli. Af hverju þurfti endilega að springa núna.

Við komumst þó fyrr en margir út úr prísundinni, þar sem við búum báðar fyrir vestan Kringlumýrarbraut að sjálfsögðu.

Nú man ég eftir vini mínum í næstu götu sem er snillingur í öllu sem viðkemur hjólum. Best að hringja í hann og athuga hvort hann hefur tök á að miskuna sig yfir mig.

Góða helgi.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband