30.7.2008 | 10:37
Enskunám.
Frá því ég var unglingur hef ég þjáðst af skorti á tveimur ákveðnum hæfileikum. Annar er enskukunnátta. Allir íslendingar á mínum aldri eru flinkir í ensku. - Nema ég.
Af því ég er nú að öðru leyti bráðklár, skarpgreind, flínk og frábær (afsakið hógværðina og lítillætið), þá reyndi ég auðvitað að finna ástæðuna fyrir þessum ósköpum. Og hún var auðfundin:
Á grunnskólaárunum bjó ég í Keflavík. Á öðrum heimilum horfðu krakkarnir á Kanasjónvarpið daginn út og daginn inn. Á mínu heimili var hins vegar ekki til sjónvarp fyrr en 5 árum eftir að íslenska sjónvarpið hóf útsendingar, - auk þess sem foreldrum mínum var illa við að ég horfði á Kanasjónvarpið í öðrum húsum. Og af því að ég var svo hrikalega þægur krakki, hafði ég ekki taugar í að stelast nema einu sinni til að horfa á Bonanza, einu sinni Beverly Hibbilis og einu sinni Stjána bláa og félaga. Ekki mikil enska sem lærðist af þessum þremur skiptum, - sérstaklega þar sem ég var allan tímann á taugum yfir því að vera að stelast.
Enskukennslan í mínum skóla hófst svo ekki fyrr en ég var orðin 14 ára, - og þá voru allir í skólanum orðnir fúllbífærir í enskunni. - Nema ég!! Þá stimplaðist það svo hressilega inn í mína meðvitund að enskukunnátta væri ekki minn tebolli, - ég væri og yrði alltaf algjör auli í þeim efnum (nú er meira að segja mér farið að ofbjóða alhæfingarnar í þessum pistli, - held samt mínu striki).
Þrátt fyrir sjálfsvorkunnartóninn sem þið eruð vafalaust farin að lesa í gegn um þennan pistil, - þá er ég nú ekki þessi típa sem leggst upp í sófa og væli; aumingja ég. Alla vega ligg ég ekki lengi. Ég reyni nú yfirleitt að gera eitthvað í málunum.
Sumarið 1979 var ég því á leið í mánaðar-enskunám í Brighton, ásamt vinkonu minni. Við vorum búnar að fá inni í skóla og á heimili, þegar upp kom sú staða, að draumaíbúð fyrir mína 4ra manna fjölskyldu var til sölu. Við skelltum okkur á hana - og þá varð ég auðvitað að vinna á fullu allt sumarið, í stað þess að eyða peningum og tíma í að dingla mér á Englandi.
Það varð úr, að pabbi og mamma fóru í minn stað, ásamt vinkonunni. Ég var mjög ánægð með að þau skildu fara, sérstaklega þar sem pabbi dó langt fyrir aldur fram seinna um sumarið. Það yljar mömmu um hjartaræturnar að rifja upp þennan yndislega mánuð sem þau voru saman úti í Brighton.
Síðan hef ég verið á leiðinni. En alltaf hafa einhverjar ástæður komið upp á, þannig að ég hef frestað því.
Í vor frestaði ég því rétt einn ganginn. Ástæðan sem ég gaf mér í þetta sinn var sú sama og í fyrra. - Heimasætan vildi ekki koma með mér, - og ég gat ekki hugsað mér að skilja hana eftir heima svona lengi.
En við svo búið varð ekki unað lengur. Maður verður að kunna ensku. (Á námsárunum sat ég alltaf langt fram á nótt og las kennslufræði á ensku. Það tók mig óendanlegan tíma, því ég var alltaf að fletta upp sömu orðunum aftur og aftur. Ég var búin að stimpla svo fast inn í mig, að ég væri auli í ensku).
En í vor fékk ég frábæra hugmynd. Ég er mikill aðdáandi breskra og skoskra sakamálaþátta. Svo ég ákvað að leita þangað til ég finndi einhvern af uppáhöldunum mínum á DVD. Með enskum texta. Og nota sumarfríið til að læra ensku heima hjá mér. Ég var svo heppin að finna sjálfan Morse. 8 seríur, 4 þættir í öllum seríum (nema einni), samtals 31 þáttur (ca 100 mínútur hver).
Svo nú sit ég löngum stundum og glósa Morse. Fyrst horfi ég non stop. Svo er ég ofvirk á pásutakkanum og glósa og glósa. Fleiri hundruð og fimmtíu orð í hverjum þætti. Svo horfi ég aftur, með glósubókina við hendina - og reyni að læra glósurnar um leið og ég horfi. Ég reyni að rífa mig ekki niður, þó ég glósi aftur og aftur sömu orðin, - heldur segi ég við sjálfa mig, það sem ég segi gjarnan við nemendur mína (í píanóleik), að endurtekningin skapi meistarann. Og ég reyni að telja sjálfri mér í trú um að nú fari þetta að koma.
Lifið heil.
Athugasemdir
Þetta lýst mér vel á. Það er mjög gott úrval af sjónvarpsseríum á Grensásvídeó og þær eru leigðar út í viku á kr. 1.000,-
Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 30.7.2008 kl. 10:43
Takk Ólöf, fyrir upplýsingarnar.
Laufey B Waage, 30.7.2008 kl. 11:08
Áfram stelpa.
Ég á ekki í neinum vandræðum með tungumál (enda afburða klár og svo er ég hógvær svo eftir er tekið) en raungreinar hafa verið minn baggi í gengum námsárin.
Við erum mis hæfileikarík. En ég er á því að þessi innbyggða minnimáttarkennd mín gagnvart t.d. stærðfræði séu að einhverju leyti heimatlilbúin (þú veist, stelpur geta ekki lært að reikna).
Góða skemmtun yfir Morse.
Jenný Anna Baldursdóttir, 30.7.2008 kl. 12:55
Sæl Laufey!
Við erum líklega mjög líkar hvað þetta varðar. Keypti mér reyndar Matlock og nú er bara að setjast niður og læra. Það getur stundum verið erfitt að finnast maður hálf mállaus sérstaklega þegar maður er kominn í alþjóðlega stjórn og allt fer fram á ensku. En þar sem við erum svo snjallar konur, báðar tvær, þá endar þetta líklega með því að við förum að tala tungum tveim.
Bið að heilsa í bæinn.
Árný (IP-tala skráð) 1.8.2008 kl. 12:09
Þetta er frábær hugmynd Laufey. Ég er að reyna mig á þýskunni með Columbo
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.8.2008 kl. 10:31
Til útskýringar, þá sendi þýsk vinkona mér upptökur úr þýska sjónvarpinu, þar sem Columbo talar á þýsku.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.8.2008 kl. 10:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.