31.8.2008 | 22:45
Pottaplöntur.
Allt í einu var orðið óvanalega óblómlegt heima hjá mér. Plastblómið góða stendur að vísu alltaf fyrir sínu, en ég vil helst hafa slatta af lifandi blómum líka. Svo ég brá mér á pottaplöntuútsölu Blómavals og keypti 4 plöntur.
Skellti þeim umsvifalaust í postulín. Eftir að ég kom þeim í þessa stóru hvítu postulínspotta er mér algjörlega fyrirmunað að skilja hvernig í ósköpunum þessar elskur gátu dregið andann í þessum pínulitlu plastpottum sem ég keypti þau í.
Það fer mjög vel um þær í stofugluggunum (tvær í hvorum glugga, en ekki allar saman í einum, eins og á myndinni). En nú er vandinn bara sá, að ég elska útsýnið út um stofugluggana. Himininn, hafið, Gróttuna, jökulinn, Esjuna og allt það. Og vil því hafa sem allra minnst í gluggakistunum.
Svo nú spyr ég ykkur; Ásthildur mín og aðrar blómakonur (jú jú líka karlar auðvitað): Er ekki í góðu lagi að hafa eitthvað af þessum plöntum í suðurgluggunum (stofugluggarnir snúa í norður)? Eða bara annars staðar en í glugga? Þær heita held ég; Drekatré, Ástareldur, Havaírós og Alparós. Ég er reyndar ekki viss, það má gjarnan leiðrétta mig.
Ég sé á myndinni að þær eru strax byrjaðar að þorna hjá mér. Best að bæta snarlega úr því.
Lifið heil.
Athugasemdir
Ég er með einn fíkus sem ég er búin að eiga í 6 ár. Ástæða þess að hann er ekki dauður er sú að minn heittelskaði sér um hann.
Það eina sem lifir hjá mér eru kryddplöntur.
Ég er fjöldaplöntumorðingi.
Jenný Anna Baldursdóttir, 1.9.2008 kl. 09:56
Elskan mín blóm geta verið hvar sem er ef þau fá byrtu, næringu og væntumhyggju. Íbúðin þín er svo björt og falleg að þú getur alveg varíerað með blessuð blómin út um allt
Þórunn Jóhannsdóttir (IP-tala skráð) 1.9.2008 kl. 18:19
Hmmm... ég drap jukku! Það er víst ekki á allra færi.
Þ
Þórdís Einarsdóttir, 2.9.2008 kl. 21:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.