3.10.2008 | 16:15
Sagan af lauknum dýra
Fór á tónleika út í Viðey í gærkvöldi, ásamt frumburðinum mínum. Yndislegir tónleikar þar sem Kristjana Stefánsdóttir og Svavar Knútur leiddu saman hesta sína. Okkur mæðgunum þótti þetta dáldið ævintýralegt. Lögðum af stað í siglingu í niðamyrkri að hausti til. Meðan á tónleikunum stóð, skall hann á með hörkuvetri.
Ég hafði frekar stuttan tíma milli Tónheimakennslu og Viðeyjarferju. - Og þar sem hvorki heimasætan né eiginmaðurinn voru væntanleg í kvöldmat, hefði nú flestum þótt liggja beint við, að mín kæmi við á veitingastað, þar sem fagmenn elduðu oní hana.
En nei, - nú eru erfiðir tímar Baktus bróðir. - Nú skal sparað. Því kom ekki annað til greina, en að fara heim og elda plokkfisk úr fiskiafgangnum frá í fyrrakvöld.
Ég kom því við hjá honum Hagkaupi vini mínum. Og hvað sé ég? Þennan líka óvenjuvelútlítandi lauk í neti. Meira að segja merktan organic. Ekki var það nú verra. Ég greip eitt net - umhugsunarlaust - með mér að kassanum. Ég segi umhugsunarlaust, - því þó maður hugsi sig kannski stundum aðeins um, hvort maður eigi að tíma að kaupa lífrænt, - því það er alltaf aðeins dýrara, - þá hefur laukur nú aldrei verið á því verði að maður þurfi að pæla í því.
"847" krónur sagði stúlkan á kassanum. "Fyrirgefðu, ég er bara með þennan lauk, ekkert annað" sagði ég. "Já hann kostar 847 krónur, hann er lífrænn" sagði stúlkan. "Veistu, ég kaupi mjög oft lauk - og ég þori næstum að fullyrða að síðast þegar ég keypti lauk í neti, kostaði hann innan við 100 krónur" sagði ég. En stúlkan var algjörlega viss í sinni sök. Og þar sem ég var að flýta mér, hafði ég bara svigrúm til að meta stöðuna þannig, að það væri fljótlegast og ódýrast að borga laukinn og drífa sig heim og elda.
Plokkfiskurinn bragðaðist vel.
Góða helgi.
Athugasemdir
Laufey, hefurðu ekki heyrt um nýja organic = orgfría = tárfría laukinn ? .. Maður tárast bara ekkert þegar hann er skorinn. Það kostar nú ekkert smá að framleiða orgfrían lauk sko!
Þetta er auðvitað bara rán!
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 3.10.2008 kl. 17:31
Það er sko ábyggilegt að það er betra að hugsa vel um aurinn sinn á þessum skelfingartímum. Gott hjá þér að fara og borða plokkfiskinn
En Guð minn goður verðið á lauknum, hvað er eiginlega að gerast.
Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 3.10.2008 kl. 21:32
Þetta má hafa verið helv. góður plokkfiskur fyrir þennan pening!
Annars þykir mér betra að hafa plokkfiskinn lauklausan...
Þ
Þórdís Einarsdóttir, 4.10.2008 kl. 12:15
Ha, ha! Plokkfiskur er sennilega ekki það eina sem Þórdís vill lauklaust, ef hún er dóttir hans föður síns. En ég get vottað að frúin var einstaklega hraust og glöð eftir þennan plokkfisk. Hvort það er lífræna lauknum að þakka eða þessari frábæru Viðeyjarferð skal ósagt látið.
Berglind (IP-tala skráð) 4.10.2008 kl. 14:27
Ég er sko dóttir föður míns, það er sko alveg á hreinu. Held ég hafi líka náð mér í annan Einar Beis því BB1 vill ekki heldur lauk. En plokkfiskur er góður, líka með karrý.
Og ég myndi giska á að hreystin og gleðin hafi stafað af Viðeyjarferðinni frekar en lífræna lauknum, Kristjana er náttúrulega bara BEST.
Þ
Þórdís Einarsdóttir, 4.10.2008 kl. 15:49
Laukur er ömurlegur á Íslandi. Þeir eru svo sjúskaðir að það er ótrúlegt.
Ég kaupi einhverja sérvalda sem kosta bæði hönd og fót.
Jenný Anna Baldursdóttir, 4.10.2008 kl. 16:11
Til að forðast misskilning, þá elda ég "bixí-plokkfisk", en ekki uppstúfs-plokkfisk, - og því síður vestfirskan hnoðmörs-plokkfisk. Og laukur er algjörlega ómissandi í mínum plokkfiski, sem er sá allra besti. Spyrjið bara börnin mín, - og eiginmennina. Rúgbrauð hef ég aldrei boðið með honum, en oft skelli ég spældu eggi út á. Sem er hreinn unaður.
Ég hef aldrei heyrt um tárfrían lauk. En ég fylgdist sérstaklega með tárunum áðan, er ég saxaði þetta gull í lasagne. - Og ég táraðist, - sem ég geri ekki alltaf.
Laufey B Waage, 4.10.2008 kl. 19:37
Er ekki laukurinn bara til að fela ýldubragðið af fiskinum?
Þórdís Einarsdóttir, 5.10.2008 kl. 10:24
Það er nú einu sinni þannig að það er öllum hollt að borða lauk. En skiljanlega finnst fólki hann misgóður. Mér finnst laukur góður og nota hann mikið. Og mér finnst plokkfiskur betur með lauk. Stína á 1. hæðinni (í blokkinni minni í Álftamýrinni) hún eldaði alltaf bixí-plokkfisk með miklum lauk sem var frábært. Mamma tók það svo upp eftir henni og kryddaði með örlitlu músgati og það var æði. Sjálf elda ég alltof sjaldan plokkfisk, kannske er það vegna þess að það eru sjaldan afgangar á mínu heimili alveg sama hversu mikið er eldað.
En hvað sem öllu líður er plokkfiskur góður matur, og góður er laukurinn alls ekki til að fela neitt ýldubragð. Hvurslags er þetta kona!!!
Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 5.10.2008 kl. 15:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.