6.10.2008 | 21:24
Ríkdæmi.
Mikið ofboðslega sem ég er annars rík. Og það sem ég hef grætt í gegn um tíðina, - ja hérna.
Ég á t.d. frábærustu fjölskyldu í heimi. Börnin mín eru stórkostlegustu snillingar sem ég þekki. Bara það hvað þau hafa komist vel til manns, er náttla ekkert nema stórgróði. Ekki það að þau hafi verið "lögð inn á arvænlegan reikning", - þ.e. plantað í fóstur hjá svo ofurvænlegum foreldrum.
Ég á líka eiginmann af gæðastuðli sem ég hélt að væri ekki til. Og ekkert smá sem ég hef grætt á honum. T.d. held ég að sjálfsálit mitt hafi vaxið um mörg hundruð prósent af hans völdum. Og flestar stundir með honum eru einstaklega dýrmætar.
Og ekkert smá sem ég græddi á foreldrum mínum. Þegar ég var 11 ára gömul, voru þau ekki ríkari en svo, að þau áttu hvorki bíl né sjónvarp. En tóku sig þá til og keyptu píanó - og settu okkur systkinin öll í tónlistarskóla í þó nokkur ár. Annars byggi ég líklega ekki við þá auðlegð í dag, að geta unnið við það sem ég hef gaman af. Auk þess þarf ég ekki að tapa gleði og lífsfyllingu, þegar ég get alltaf sest við hljóðfærið og auðgað mig með hljóðfæraleik.
Þetta var bara orlítið brot af fjölskyldu-auðnum.
En auður minn liggur víðar. Ég er t.d. alveg einstaklega heilsuhraust, miðað við konu á mínum aldri. Ég þarf reyndar dáldið að hafa fyrir því, - en hreystin og vellíðanin sem ég græði er miklu meiri en erfiðið sem ég legg undir.
Svo bý ég á besta stað í heimi. Frábær staðsetning og útsýni fylgdu að vísu með í kaupunum, en ég græddi ýmislegt fleira, eins og t.d. góða nágranna, sem ég borgaði ekki krónu fyrir.
Ég fékk líka slatta af gáfum í vöggugjöf. Og þó sumar þeirra hafi kannski örlítið rýrnað, þá eru þær fleiri sem hafa vaxið með þvílíkum vöxtum og vaxtavöxtum, að ég er bara alsæl.
Svona gæti ég lengi haldið áfram. Ég man bara eftir einni tegund auðlindar, sem ég er ekki jafn moldrík af og margir aðrir. Nei, - ég er ekki að tala um þá staðreynd að ótrúlega margir landar mínir hafa marg-margfalt hærri mánaðarlaun en ég. Förum nú ekki að blanda beinhörðum peningum í umræðu um ríkidæmi.
Tek næsta pistil í þessa einu auðlind sem mig langar að öðlast aðeins meira af.
Lifið heil.
Athugasemdir
Það var lagið!! Enginn helv... kreppubarlómur á Vesturgötunni! Verð að játa á mig að eftir langvarandi kreppuþrjóskuröskun (sem lýsir sér í því, fyrir þá sem ekki vita, að neita að láta efnahagslægðir hafa áhrif á andlega líðan), þá fékk ég dálítið kvíðakast þegar það gerðist í fyrsta sinn í dag að skuldir mínar urðu meiri en eignirnar. Og það var tekið stórt stökk á bara nokkrum klukkustundum í þeim efnum. Ég held að ég þurfi nokkra klukkutíma sjálf til að komast yfir þennan sálræna þröskuld. Svo get ég haldið áfram að njóta bullandi kreppuþrjóskuröskunar og þess ríkidæmis sem ég bý við og verður ekki í krónum talið.
Berglind (IP-tala skráð) 6.10.2008 kl. 22:16
Jenný Anna Baldursdóttir, 6.10.2008 kl. 23:43
Góðan daginn frænka.
Ég er svona heppin líka, minn fjöldskyldu-auður er dásamlegur
Eigðu góðan dag.
Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 7.10.2008 kl. 09:55
Veistu Laufey mín að þetta er aldeilis frábær pistill, og alveg hárréttur. Hér mættu fleiri skoða og taka sér til fyrirmyndar.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.10.2008 kl. 15:42
Heilsan, þak yfir höfuðið, mat til að borða - og síðast en ekki síst fjölskylda og vinir er það sem ég þarf.
Takk fyrir frábæran pistil.
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 7.10.2008 kl. 19:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.