Ríkidæmi - seinni hluti.

Vinkona mín var til skamms tíma gift þjóðverja. Þau bjuggu í Svíþjóð þegar dóttir þeirra fæddist - og þar til hún var 12 eða 13 ára. Þessi stúlka er með ríkustu manneskjum sem ég þekki. Alla tíð hefur mamma hennar talað við hana íslensku, pabbinn þýsku - og á leikskólanum og í umhverfinu lærði hún sænsku. Hún var fljót til máls, svo strax tveggja ára var hún altalandi á þessi 3 tungumál. Ég hitti hana á hverju ári, meðan hún bjó í Svíþjóð - og aldrei gat ég stillt mig um aðdáunarathugasemdina: Oh Birta, þú ert SVO RÍK. Í dag býr hún á Íslandi - og er altalandi á ensku líka, eins og aðrir íslenskir unglingar, auk þess sem hún er að læra frönsku og/eða spænsku í menntaskólanum - og gengur mjög vel. Þvílíkt ríkidæmi!!

Sem betur fer búa mörg börn við þetta ríkidæmi. Börn sem eiga foreldra með sitt hvort móðurmálið og/eða börn sem búa í öðru landi en foreldrarnir eru aldir upp í.

En því miður hef ég líka séð sorgleg dæmi um hið gagnstæða. Ég vann í 3 sumur ("98, "99 og "00) á gæsluvelli. Þangað komu nokkrar asískar konur með börnin sín. Þessar konur töluðu það litla og lélega íslensku að þær kusu að tala (bjagaða) ensku við mig. Allt í lagi með það. En þær töluðu íslensku við börnin sín!!! Einhver fáránlegur fræðingurinn hefur líkast til ráðlagt þeim það. Hugsið ykkur bara. Að "fá" ekki að tala við sitt eigið barn á sínu móðurmáli, heldur á tungumáli sem þær kunnu ekki nema eitt og eitt orð í. Hvað með tilfinningatengslin sem myndast milli móður og barns í gegn um tungumálið (móðurmálið)? Svo hitta þessi börn afann og ömmuna og enginn skilur neinn. Ég ætla rétt að vona að engum detti þessi ósköp lengur í hug. Ég stend stíf á þeirri skoðun minni, að allir foreldrar eigi að tala sitt móðurmál við sitt barn, burt sé frá ytra málumhverfi.  

Þegar 8 ára afmæli ömmudrengsins nálgaðist, spurði ég hann hvort hann langaði ekki í einhverjar bækur í afmælisgjöf. "Jú mig langar mest í Kalvin og Hobbs, - ég er búinn að lesa nokkrar, þær eru frábærar" sagði drengurinn. Og ég fór í Mál og menningu, en fann þessar bækur bara á ensku. Starfsfólkið vissi ekki til að þær væru yfirhöfuð til þýddar. Ég hringdi í frumburðinn (móður drengsins) og bar mig illa. Hvort hún vissi hvar bækurnar fengust á íslensku. Hún fór að hlæja; - mamma vissurðu ekki að hann er löngu farinn að lesa enskar bækur? - Mín keypti Kalvin og Hobbs, - á ensku.

Ekki nóg með það. Þetta haustið var hann (7 ára) næstum daglega að túlka á milli erlendra starfsmanna í skólanum sínum. Í dag (9 ára) les drengurinn heilu myndlausu doðrantana á ensku. - Bækur sem ég treysti mér ekki til að lesa. Foreldrar hans eru þó alíslenskir - og hann hefur aldrei búið í öðru landi. En hann horfði töluvert á Karton network á leikskólaaldri.

Ég reyni að vera ekki bitur, þó ég hafi ekki verið eitt af þessum ríku börnum. Er dugleg þessa dagana að horfa á Morse og glósa og reyni að læra glósurnar og horfi svo aftur. Verð að viðurkenna að ég hef aldrei upplifað mig svona heimska. Ég er skólabókadæmi um að því eldri sem þú verður, því lengur ertu að læra tungumál. En mér finnst það þess virði. Þolinmæði þrautir vinnur allar, auk þess sem Morse vinur minn er einstaklega skemmtilegur. Ég þarf sko ekki að pína mig til að horfa. En eiginlega bara orðin húkt á honum. - Þetta kemur.

P.s. við hjónin eigum brúðkaupsafmæli í dag (4ra ára). Yoko Ono gerði sér ferð til Íslands til að halda upp á það. Hún gerði það líka í fyrra.

Lifið heil.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir þessa jákvæðu yndislegu pistla um ríkidæmi.  Ég er 100 % sammála þér, það er einmitt í þessu hversdagslega og smáa sem við erum rík.  Í því sem bara er.  Og innilega til hamingju með brúðkaupsafmælið elsku Laufey mín.   Það þarf náttúrulega ekkert minna en Yoko Ono til að gleðja hehehehe...

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.10.2008 kl. 10:18

2 Smámynd: Þórdís Einarsdóttir

Til hamingju með brúðkaupsafmælið.

Eru ekki tónlistarmenntaðir fljótari að læra tungumál? Það hef ég heyrt. 

Þórdís Einarsdóttir, 9.10.2008 kl. 13:47

3 identicon

Til hamingju með daginn bæði tvö. Annars óska ég bara Hannesi sjálf til hamingju í kvöld ,verst að maður skuli taka hann svona frá þér á þessum degi.

Það er yndislegt að fylgjast með auðæfum barna sinna vaxa á svo margan hátt, en skemmtilegastur er tungumálaauðurinn, það koma svo oft ómetanlegar perlur úr munnum þeirra.  

Brynja (IP-tala skráð) 9.10.2008 kl. 14:21

4 Smámynd: Laufey B Waage

Takk stelpur.

Sara skiptu bara yfir á BBC-world-news. 

Brynja: Við hjónin skruppum á "Bjarnabar" í hádeginu. Þú kannski reynir að spila afmælislagið fyrir hann í kvöld. Það er með 3 hljómum.

Þórdís ég hef einmitt heyrt þetta líka. Í mínu tilfelli hefur þetta bara einskorðast við góða íslenska máltilfinningu - sorrý 

Laufey B Waage, 9.10.2008 kl. 14:47

5 identicon

Það er svo gott að lesa þessa góðu jákvæðu pistla þína Laufey mín og innilega til hamingju með daginn bæði tvö ég er ekki hiss á að Yogo mæti minna má það nú ekki vera.

Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 9.10.2008 kl. 15:55

6 identicon

Góð lesning eins og alltaf hjá þér elsku systir   og til hamingju með brúðkaupsafmælið bæði tvö 

Mallý (IP-tala skráð) 9.10.2008 kl. 16:30

7 identicon

Til hamingju með daginn, bæði tvö!! Já, mikið er ríkidæmið hér á heimilinu. Drengurinn er í þessum töluðu orðum að lesa fyrir skólann um landnámsmennina. Sagði upp úr þurru:

Þeir voru svo ógeðslega kúl!!

Aðspurður af hverju sagði hann:

Þeir gerðu bara allt sjálfir! Fóru út á flekum og veiddu ógeðslega mikið af fiski og svo smíðuðu þeir með steinhömrum!

Móðir hans gat ekki að því gert að velta fyrir sér hvort þetta væri það sem biði okkar á næstunni. Róa í soðið á okkar eigin flekum og svona. Við í Skaftahlíðinni eigum alla vega nokkur góð tré í garðinum ef það dettur í okkur að smíða knerri og flýja til... ja, hver ætli tæki við okkur?

Berglind (IP-tala skráð) 9.10.2008 kl. 18:33

8 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Frábær pistill og til hamingju með tímamótin.

Jenný Anna Baldursdóttir, 10.10.2008 kl. 08:18

9 Smámynd: Þórdís Einarsdóttir

Berglind þið róið bara á uppblásnu sundlauginni hennar  Matthildar!

Þ

Þórdís Einarsdóttir, 10.10.2008 kl. 16:43

10 identicon

Ríkidæmi !!! Þetta varð ég að gera athugasemd við. 'Eg er búin að búa mörg ár í útlandinu og altaf talað íslensku við börnin mín!!! (Tengdabörnin hafa ekki heldur fengið frið) Verð að viðurkenna það að börnin mín hafa ekki sama orðaforða og íslenskir einstaklingar á þeirra aldri en svo verð ég að viðurkenna að ég tala víst heldur gamaldags íslensku svona miðað við það sem gengur og geist í dag. Elsku barnabörnin mín sem búa hér og stjúpbarnabörnin eru heldur ekki óhult fyrir þessari ÖMMU sem helst vil tala móðurmálið. það sem toppar!!! Hundurinn á heimilinu (bráðum 6ára tík, af sænsku kyni, gamaldags hundur) skilur bæði íslensku og norsku, nágrönnum okkar til mikils gamans. Kveðja frá Bergen.

Asta A. (IP-tala skráð) 10.10.2008 kl. 22:14

11 identicon

Já og til hamingju með brúðkaupsafmælið

Asta A. (IP-tala skráð) 10.10.2008 kl. 22:23

12 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

 .. Góð grein!  Happy Anniversary!

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 20.10.2008 kl. 19:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband