25.10.2008 | 15:07
Breytinga-hvað?
Kæru vinir. Ég biðst innilega afsökunar á að hafa ekki látið neina færslu frá mér fara í allt of langan tíma. Útskýringin er sú, að ég hef einfaldlega verið andlaus og í lélegu formi í hálfan mánuð. Og útskýringin á andleysinu er svefnleysi. Síðustu 3 nætur svaf ég sæmilega, en 9 nætur þar á undan voru allt of stuttar. Og í kjölfar of stuttra nátta, ramba ég á barmi þunglyndis og er allt annað en skemmtileg að eigin mati. Og auðvitað get ég ekki farið að skrifa neina þunglyndispistla, eftir alla þessa bráðskemmtilegu og andríku pistla sem þið eruð vön frá mér (frú-auðmýkt-og-lítillæti.is greinilega að vakna til lífsins).
Auðvitað er nærtækast að ætla, að ástæðan fyrir svefnleysi mínu hafi verið sú, að ég hafi verið búin að setja einhver reiðinnar býsn af milljónum eða milljörðum í hlutabréf í bönkum og öðrum útrásarfyrirtækjum - og standi nú uppi slypp og snauð, - og þurfi nú herða sultarólina og láta af drottningarlifnaðinum. Að ég hafi nótt eftir nótt legið andvaka af áhyggjum yfir því, hvernig í ósköpunum ég eigi nú að koma jeppunum, einkaþotunum og listisnekkjunum í verð.
Við eldhúsborðið hjá vinkonu minni í fyrradag kom hún hins vegar með miklu leiðinlegri og trúlegri skýringu: "Þetta er alveg dæmigert einkenni á breytingarskeiðinu" sagði hún. Og ég varð að viðurkenna að þessar síðustu vikur hefur örlað á nettum svitaköstum - og ég sem aldrei átt vanda til að svitna. Auk þess sem það eru víst 52 ár síðan ég fæddist, - eins og ég er nú ung og hress.
En ég neita að samþykkja svefnleysi. Af hverju get ég ekki bara fengið almennileg svitakóf og orðið brjáluð í skapinu eins og sumar konur? Ég sem er búin að vera svo dugleg að hreyfa mig reglulega, - og Kolbrún grasa sagði að það væri besta forvörnin. Ætli ég neyðist þá ekki til að nota hitt ráðið frá Kolbrúnu og skera kaffidrykkjuna niður við trog. Hún vill helst að maður sleppi því alveg, en mér bara finnst það svo gott. Auk þess sem það hefur mikið félagslegt gildi eins og ég gat um í öðrum pistli. Síðustu daga hef ég drukkið 2 bolla á dag í staðin fyrir 4, - og kýs að trúa því að þar með hafi ég yfirunnið svefnleysið.
Góða helgi elskurnar.
Athugasemdir
Hvað varð um konuna sem talaði um "fyrri bollann" og "seinni bollann"? Er ekki ástæðan fyrir svefnleysinu bara sú að þú varst komin upp í 4 bolla af kaffi á dag en ekki 2 eins og þú varst vön? Segi eins og þú, breytinga-hvað, þú svona bráðung og hugguleg!
Berglind (IP-tala skráð) 25.10.2008 kl. 20:25
Ég er búin með þetta skeið (held ég, var algjörlega í fyrra fallinu). Eigum við nokkuð að fara út í skemmtilegar birtingamyndir viðkomandi skeiðs? I don´t think so.
En svefnleysi var ekki eitt af einkennum.
Minnka kaffi.
Kveðjur.
Jenný Anna Baldursdóttir, 25.10.2008 kl. 22:20
Mikið lifandi skelfing og ósköp er ég fegin að þú ert heil á húfi. Vissi ekki alveg hvað var að gerast með þig elskan mín.
En Laufey mín þetta þekki ég svo vel. Þegar ég fór á "minn" var ég bara 43 ára og hann stóð lengi. Já og samt var ég og er bráðung og hugguleg eins og Berglind orðar það. En ég fékk svitaköst, geðvonskuköst og svo var ég kannske bara vöknuð klukkan 4 0g 5 á morgnanna. Það var ekki mögulegt fyrir mig að sofna aftur þannig að ég bara fór að strauja, lesa, þvo þvotta eða eitthvað. Þetta gekk yfir en tók því miður langan tíma. En þeir sem til þekkja segja að það sé þannig ef maður fer á breytingarskeiðið ungur. Mamma mín var svona líka. Ég fann ekki fyrir neinu andleysi eins og þú talar um var reyndar bráðhress og kröftug. Og mamma var alltaf bráðhress og kröftug breytingarskeiðið breytti þar engu um.
Ég mundi halda mínu striki hreyfing, hollt og gott mataræði, það er allra meina bót.Ég drakk alltaf mikið kaffi og það breytti engu.
Eigðu góðan dag sæta.
Þórunn Jóhannsdótir (IP-tala skráð) 26.10.2008 kl. 13:33
Svefnleysi er ekki gott Laufey mín. Einn bjór eða rauðvínsglas nú eða besta svefnlyfið sherrý fyrir svefnin.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.10.2008 kl. 14:57
Takk stelpur. Þetta skánaði mikið eftir að ég fór aftur niðrí 2 bolla.
Nú tekst mér nokkuð vel að telja sjálfri mér í trú um að ég sé ennþá sofandi, þó ég vakni milli 4 og 5. Mér dettur ekki í hug að fara í húsmóðurleik ein og Þórunn frænka mín gerði. "Feika" bara að ég sé sofandi - og er mun hressari á daginn eftir þá hvíld.
Þórunn þú hefur greinilega ekki erft þunglyndisgenin frá Skipagerðisslektinu, ef þú ert alltaf jafn hress, þrátt fyrir vökunætur.
Laufey B Waage, 28.10.2008 kl. 09:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.