Rigningarhljóð.

Rigning á rúðuUppáhaldstónlistin mín er hljóðið í rigningunni. T.d. finnst mér algjör unaður að liggja uppi í sófa í sumarbústað, með góða bók sem ég tími ekki að lesa, af því að það er svo notalegt að hlusta á rigninguna bylja á þakinu.

Þegar ég flutti af Hringbraut á Brekkustíg, var ég svo heppin að það rigndi á hverju kvöldi fyrsta hálfa mánuðinn. Á Hringbrautinni hefði ég bara heyrt meira í bílunum, - en á Brekkustígnum snéri svefnhergbergið út í lokaðan garðinn - og það var yndislegt að láta rigninguna syngja sig í svefn á hverju kvöldi.

Ég var í Skálholti um helgina. Á kyrrðardögum. Í morgunn vaknaði ég á fimmta tímanum, við undarlegt hljóð, sem ég hélt fyrst að væri í hurðarhúninum. Mér tókst strax að róa mig niður, því það var greinilega byrjað að rigna - og hljóðið dularfulla kom greinilega þegar regndroparnir skullu á neðra þakinu. En þetta var virkilega skerandi hljóð. Það hlaut að vera eitthvert plastdrasl uppi á þaki, sem svaraði með þessum skerandi hávaða þegar regndroparnir skullu á því.

Ég reyndi að einbeita mér að fallega regnhljóðinu fyrir utan gluggan. En ég heyrði varla neitt í þeirri fallegu hljómsveit, því einleikarinn á þakinu var svo hávær. Ég var ekki par sátt við þennan einleikara. Lá lengi vakandi og lét hann trufla mig. 

Rigning 21.07Ég sofnaði þegar hlé varð á regninu, en vaknaði svo aftur við sama hávaðann. Í þriðja skipti sem ég vaknaði, var farið að grána á glugga. Klukkan var langt gengin í 9, þegar ákveðin fullvissa sló mig: Þetta er EKKI uppi á þaki. Þetta ER hérna inni i herberginu. Húsið lekur. Við þessa hugsun spratt ég á fætur og sá þá loksins hvers kyns var. Það hafði rignt inn um gluggann - og niður á stífan plastpoka sem ég hafði lagt á skrifborðið.

Ég fleygði plastpokanum undir skrifborðið - og fleygði svo sjálfri mér upp í rúmið aftur, með þeim mesta fýlusvip sem framan í mig getur komið. Svona fáránlega ástæðu fyrir andvöku var erfitt að sættast við. Sá fram á hugsanlegt fúllyndi langt fram eftir morgni. En nei, - því nennti ég bara ómögulega. Hvað var til ráða? Jú, - ég ákvað að fleygja sögunni á bloggið. Alltaf gott að gera grín að sjálfri sér. 

Lifið heil.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Rigning ,þegar það er logn, á tjaldhimni er mitt uppáhald.

Brynja (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 02:28

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

 Gott þú fleygðir henni ekki í ruslið!

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 4.11.2008 kl. 15:26

3 identicon

Laufey mín, þú bara heldur að þú hafir verið með fýlusvip  Þetta var bara smápirringur. Rigningin getur verið svo notaleg.

Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 18:47

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Sammála þér Laufey mín, það er yndislegt að liggja í rúminu sínu og hlusta á regnið falla, unaðsleg tilfinning.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.11.2008 kl. 21:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband